03.12.1975
Efri deild: 17. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

81. mál, skemmtanaskattur

Helgi F. Seljan; Herra forseti. Í raun og veru er ekki neinu við að bæta þá greinargóðu framsögu sem hér hefur verið flutt fyrir þessum tveimur málum samtengdu, en ég vildi nú aðeins leggja áherslu á tvennt, þó ekki vegna þess að því væru ekki gerð nógu góð skil í framsögu, heldur rétt að koma því að hér frá okkur landsbyggðarmönnum sem erum þarna að meðflm.

Í fyrsta lagi er það auðvitað að með þessari auknu tekjuöflun, ef að lögum verður, getur sjóðurinn tekið að sér ólíkt meiri fyrirgreiðslu en verið hefur. Byggingarmál aldraðs fólks hafa verið á eftir, alveg sérstaklega úti á landsbyggðinni, eins og frsm. gat réttilega um, og þau ættu í raun og veru að hafa nokkurn forgang. Við teljum að hér sé um stórt skref í átt til þess að ræða og þá verður hægt að sinna fleirum en gert hefur verið til þessa af Byggingarsjóðnum, þ. e. með þessari fjáröflun sem hér er farið fram á. En í beinu samhengi við þetta bendi ég á að með auknum tekjum þessa sjóðs ber brýna nauðsyn til þess að þessi skattheimta, sem við erum hér að leggja til, verði til þess að Byggingarsjóðurinn dreifi fé sínu um landið þar sem þörfin er brýnust. Það er búið að undirstrika erfiðleikana hér, þar sem mest ber á þeim, — það ber mest á þeim hér í Reykjavík og nágrenni, — og eins hefur frsm. fyrir fyrra máli þessu samtengdu bent á það, hvað þessi mál séu víða í ólestri. En ég ætla að vona að þessi eðlilega skattheimta — mér finnst hún afskaplega eðlileg og sanngjörn af skiljanlegum ástæðum kannske — og aukna tekjuöflun sjóðnum til handa um leið bæti úr þessu ástandi úti á landi, þar sem sumir hafa verið að sinna þessum verkefnum, aðrir látið það ógert. Þetta er sem sagt mitt aðaláhersluatriði varðandi mál þetta. Ég þekki þennan vanda svo vel víða austan að og þannig að sums staðar er þetta hreinlega til vansa, svo sem t. d. er í minni heimbyggð og skal viðurkennt.

Í leiðinni er svo rétt að ítreka þá þörf sem öldruðu fólki er á því að komast úr stóru húsnæði og dýru og geta átt kost á hagkvæmari fyrirgreiðslu til að kaupa minna húsnæði sem er meira við hæfi. Ég þekki mörg dæmi einmitt þessarar tegundar, þessarar þarfar, sem er kannske enn brýnni víða úti á landi þar sem þyrfti kannske á sérstöku byggingarátaki að halda, líka vegna þess að þessar minni íbúðir eru þar víða ekki til þó að fólkið gæti keypt.

Ég vil aðeins sem sagt leggja áherslu á þetta, að þessi fjáröflun, sem við teljum eðlilega og sjálfsagða, verði til þess að þessi sjóður, sem hefur nú verið til lítils — kannske ekki rétt að segja einskis gagns, en til mjög lítils gagns til þessa, hann verði einmitt til gagns á þeim stöðum þar sem ekkert hefur verið gert eða lítið aðhafst, m. a. af fjárskorti, en því miður er það auðvitað líka víðar af algjöru skilningsleysi.