03.12.1975
Neðri deild: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég hef nú samninginn við belga ekki við höndina og því miður kann ég hann ekki utanbókar, en ég verð að svara spurningum hv. fyrirspyrjanda á þá lund að við teljum þessi samningsákvæði, sem undirrituð hafa verið af utanrrh. og að ég hygg sendiherra Belgíu með umboði, bindandi a. m. k. til bráðabirgða.

Í þessum samningi er, ef ég man rétt, fækkað þeim skipum sem belgar mega hafa hér. Það er dreift svæðum, að ég hygg, og minnkað aflamagn. Við mundum telja belga þegar í stað við skipti á þessum orðsendingum, sem þarna hafa farið á milli, bundna af þessu samkomulagi, þannig að við mundum belja þá brotlega við þetta samkomulag ef þeir t. d. sendu hingað fleiri skip eða færu á önnur veiðisvæði en tiltekin eru í þessum samningi. Að vísu er ekki fyrri samningurinn í gildi og ekki við það miðað, en belgar hafa ekki frekar en aðrir viðurkennt þessa landhelgi svo að belgískir togarar gætu einhverjir tekið upp á því að koma hingað fleiri en gert er ráð fyrir og þá mundum við telja að um brot væri að tefla á þessum samningsákvæðum. Í annan stað munum við telja okkur líka bundna af þessum ákvæðum, og ég sem yfirmaður landhelgisgæslunnar er nú bundinn af þeim og framkvæmd landhelgisgæslunnar verður hagað samkv. því. Ég hygg að þessi samningur við belga kalli ekki á nein ný íslensk lagaákvæði eða breyt. á lögum. Ef ég man rétt — og ég verð þá leiðréttur ef mig misminnir — var algjörlega sami háttur hafður á síðast þegar samningur við belga var gerður. Það var ekki fyrr en síðar að hann var borinn undir Alþ. Fyrir utan það eru þess allmörg dæmi a. m. k. að það hafi átt sér stað að samningar hafi verið gerðir og þar á meðal mjög þýðingarmiklir og mikilvægir samningar og samþykkis Alþ. ekki verið leitað fyrr en eftir á. Ég hygg að ég geti þeirra undantekninga líka í minni bók þó að ég muni nú ekki heldur nákvæmlega hvað ég hef skrifað þar.

Ég held þess vegna að það gegni dálítið öðru máli með þessa samninga heldur en samningana við þjóðverja, af því að þeir kalla beinlínis á lagabreytingu, það hefur verið lagt fram frv. til þess að hægt sé að fullnægja þeim viðurlögum sem ákveðin eru í þeim samningi, það sé hægt að fullnægja þeim viðurlögum af íslenskum yfirvöldum. Engu slíku er til að dreifa þegar um belgíska samninginn er að tefla. Hitt er annað mál, að það er auðvitað ljóst að þennan samning á að leggja fyrir Alþ. og hann verður að sjálfsögðu lagður fyrir Alþ. Og hvað sem kenningum líður um nauðsyn fyrirframsamþykkta við gerð samninga eða ekki, þá er enginn vafi á því að þegar samningurinn hefur verið samþ. af Alþ., þá er endanlegt gildi hans alveg ótvírætt. En bráðabirgðagildi hans fyrir íslensk stjórnvöld og belgísk tel ég líka vera það á meðan meiri hl. Alþ. hefur ekki hafnað honum.

Annars er þetta mál sem kannske heyrir frekar undir utanrrh. en mig, en hann er nú ekki hér í dag. En ég held að ég þurfi ekki miklu við þetta að bæta. Mér er auðvitað vel kunnugt um að í þjóðarétti eru ekki skiptar skoðanir um hvert sé gildi stjórnarskrárákvæða slíkra sem 21. gr. Sumir telja að það sé algert gildisskilyrði fyrir þjóðréttarlegri skuldbindingu. Ýmis ríki fylgja hins vegar hinni reglunni, að það sé ekki nauðsynlegt skilyrði fyrir því að ríki geti verið þjóðréttarlega skuldbundið, sem sé að það hvíli ekki skylda til þess á viðkomandi samningsríki að fara að kanna það hverju sinni hvernig stjórnlögum hins samningsaðilans sé háttað. Út í bollaleggingar um þetta ætla ég ekki að fara. Ég held að aðalatriðið í þessu sé það fordæmi sem ég hef vitnað til og ég man ekki betur en að sé þannig að þetta sé alveg nákvæmlega sami háttur og var fylgt við síðustu samninga við belga.