04.12.1975
Neðri deild: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

88. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Svava Jakobsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hv. frsm. hef ég undirritað nál. með fyrirvara. Það hef ég gert til þess að undirstrika að ég er algjörlega andvíg þeim samningum sem gerðir voru við vestur-þjóðverja um heimildir til fiskveiði innan íslenskrar landhelgi. Hins vegar fjallar þetta frv. um viðurlög við brotum á þeim samningi og hvernig með skuli fara ef vestur-þýsk skip gerast brotleg. Úr því að samningurinn var gerður er vissulega nauðsynlegt að hafa slík ákvæði í lögum. Því mun ég greiða atkv. með þessu frv., með þeim fyrirvara þó sem ég hef greint frá.