08.12.1975
Sameinað þing: 29. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

Minnst látins fyrrv. þingmanns

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Til þessa fundar er boðað til að minnast Sigurðar Guðnasonar fyrrv. alþm., sem andaðist í sjúkrahúsi hér í Reykjavík í gærmorgun, 7. des., 87 ára að aldri.

Sigurður Guðnason var fæddur 21. júní 1888 í Holtakoti í Biskupstungum. Foreldrar hans voru Guðni bóndi þar og víðar Þórarinsson bónda í Ásakoti og Bryggju í Biskupstungum Þórarinssonar og kona hans, Sunneva Bjarnadóttir bónda í Tungufelli í Hrunamannahreppi Jónssonar. Hann stundaði búfræðinám á Hólum og lauk þaðan prófi árið 1909. Bóndi í Borgarholti í Biskupstungum var hann 1917–1922. Árið 1922 fluttist hann til Reykjavíkur og stundaði verkamannavinnu tvo áratugi. Hann var formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar 1942–1954 og í stjórn Alþýðusambands Íslands 1942–1948. Hann var kjörinn alþm. haustið 1942, var landsk. alþm. 1942–1946 og þm. Reykv. 1946–1956, sat á 15 þingum alls.

Sigurður Guðnason var alinn upp í sveit, nam búfræði og var bóndi á miklum umbrotatímum í verðlagsmálum eftir lok heimsstyrjaldarinnar fyrri. Á verkamannsárum sínum í Reykjavík lifði hann tíma kreppu og atvinnuleysis á fjórða tug þessarar aldar. Á löngum æviferli hans urðu mikil umskipti í baráttu íslensks verkalýðs fyrir auknum réttindum og bættum kjörum. Hann var stéttvís félagi í hópi verkamanna og eignaðist traust stéttarbræðra sinna, sem völdu hann til forustu í félagsmálum sínum. Á Alþingi vann hann af skyldurækni að afgreiðslu mála, en tók ekki mikinn þátt í umr. Þó gat hann hér sem annars staðar lagst þungt á sveif með verkalýðsstéttinni ef honum þótti sem á hana skyldi hallað.

Sigurður Guðnason var dagfarsprúður maður og vann ævistarf sitt af látleysi og samviskusemi, bjartsýni og heilindum. Í góðu samstarfi við stéttarfélaga sína lagði hann fram alla krafta í sókn til bættra lífskjara. Á næðissömum elliárum gat hann því litið sáttur yfir ævistarfið, þó að hann hefði gjarnan kosið að meira hefði á unnist.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Sigurðar Guðnasonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum],