08.12.1975
Efri deild: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

53. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :

Herra forseti. Hv. félmn. hefur tekið til meðferðar frv. það, sem hér er til umr., og mælir n. með samþykkt frv. með breytingu sem hún leggur fram á sérstöku þskj. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Steingrímur Hermannsson og Bragi Sigurjónsson.

Frv. það, sem hér er til meðferðar, varðar reglur um endurgreiðslu á skyldusparnaðarfé skv. l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Eins og kunnugt er, þá eru mjög þröng skilyrði fyrir því að hægt sé að fá endurgreiddan skyldusparnað, þ. e. a. s. það er ekki hægt fyrr en viðkomandi hefur náð 26 ára aldri eða stofnað til hjónabands áður en þeim aldri er náð. Það hefur sýnt sig að í mörgum tilfellum er það mjög bagalegt fyrir fólk að hafa ekki undir neinum kringumstæðum möguleika til þess að fá endurgreitt þetta fé, hvernig svo sem högum þess er háttað.

Frv., sem við nú fjöllum um, er til þess fram borið að bæta úr þessu. Í frv. segir um þetta efni, að nú fullnægi sá, er óskar þess að fá sparifé sitt endurgreitt, ekki skilyrðum og er þá félmrh. heimilt að veita leyfi til endurgreiðslu þess ef högum umsækjanda er þannig háttað að mati ráðh. að brýna nauðsyn beri til að leyfa endurgreiðsluna. Það virðist mæla allt með því að breyta l. á þennan hátt. En það verður að hafa það í huga að þetta ákvæði verði ekki túlkað rúmt, því að annars er hætta á að hér gætu verið opnaðar gáttir sem yrðu varhugaverðar vegna framkvæmdar á lögum um skyldusparnað.

Hv. félmn. vísaði frv. til umsagnar Húsnæðismálastofnunar ríkisins, og Húsnæðismálastofnun mælti með samþykkt þessa frv., en lagði áherslu á að framkvæmd l., ef þeim yrði breytt á þennan veg, yrði þannig að þessi ákvæði yrðu ekki túlkuð rúmt. Mér þykir rétt — með leyfi hæstv. forseta — að lesa um þetta efni það sem segir í bréfi frá Húsnæðismálastofnun ríkisins til hv. félmn., en þar segir:

„Enda þótt við teljum varhugavert að rýmka endurgreiðsluheimildir á skyldusparnaðarfé frá því sem lög heimila, er reynslan sú, eins og segir í aths. við frv., að högum einstakra skyldusparenda er þannig háttað, að frá mannlegu sjónarmiði virðist allt mæla með endurgreiðslu sem ekki er hægt að veita vegna skorts á lagaheimild til slíks. Til þess að fyrirbyggja það að fólk geti misnotað slíkar undanþáguheimildir þarf að setja strangar reglur um þau gögn sem skyldusparendur þurfa að leggja fram í því skyni að hljóta endurgreiðsluheimild, m. a. vegna þeirra ástæðna sem upp eru taldar í aths. við frv. Í trausti þess, að svo verði gert, mælum vér með samþykkt frv.“

Mér er óhætt að segja það, að hv. félmn. er samþykk þessari skoðun húsnæðismálastjórnar ríkisins. Samt gerði n. brtt. við frv. þetta, sem er að finna á þskj. 116. Þar er gert ráð fyrir að aftan við 1. gr. komi til viðbótar orðin „af félagslegum ástæðum, svo sem ef um er að ræða öryrkja, einstæða foreldra eða námsmenn“. Þetta ákvæði felur ekki í sér neina rýmkun á frv. eins og það er í sinni upprunalegu mynd, en þessi upptalning er sett fram til þess að benda á þau tilvik sem einkum kæmu til greina að mati n. sem ástæða fyrir undanþáguveitingu.