16.10.1975
Neðri deild: 7. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

2. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að taka efnislega þátt í umr. um þetta frv., en tel þó rétt að fram komi að á s. l. hausti, eftir að núv. ríkisstj. var mynduð, fólu stjórnarflokkarnir nokkrum þm. sínum að kanna þetta mál og gera till. um breyt. á l. um Framkvæmdastofnunina í anda þeirrar yfirlýsingar stjórnarinnar sem hún birti þegar hún var mynduð. Þessir menn skiluðu áliti og síðan hefur það álit verið til skoðunar. Tíminn hefur verið notaður til þess að afla frekari gagna og umsagna þeirra aðila sem reynslu hafa af þessum málum. Málið hefur ekki verið rekið hratt, er óhætt að segja, og að því leyti má það vera gagnrýnisvert. Ég tek þá gagnrýni á mig, en get upplýst um leið að málið er enn í undirbúningi og ríkisstj. mun leggja fyrir það Alþ., sem nú situr, frv. til l. um Framkvæmdastofnunina, eins og ráð er fyrir gert í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason getur því sparað sér stóru orðin og gagnrýni hans á ekki við nein rök að styðjast önnur en þau að málið hefur unnist seinna en ætlunin var í upphafi. Því veldur ekki ágreiningur á milli stjórnarflokkanna, a. m. k. ekki enn sem komið er, því að á það hefur ekki reynt.

Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta efni. En vegna þess hvað þm. taldi mikla þörf á breyt. á umræddum lögum, þá bið ég hann um að leiðrétta mig, ef minni mitt brestur, því að ég veit ekki betur en að þm. Alþfl. hafi að lokum greitt lagafrv. um Framkvæmdastofnun ríkisins atkv. sitt við lokaafgreiðslu málsins á sínum tíma þrátt fyrir athugasemdir þeirra við einstök ákvæði frv. og að felldum þeirra eigin brtt. Ég bið þm. afsökunar ef ég fer ekki með rétt mál. þá er það vegna skorts á minni. En ef svo er og það er rétt sem mig minnir, þá getur það ómögulega verið svo gagnrýnisvert sem þm. vildi vera láta þótt nokkuð hafi dregist — og ég vil gjarnan viðurkenna nokkuð úr hömlu — að endurskoðun þessara laga færi fram.