09.12.1975
Sameinað þing: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

66. mál, skuttogarakaup

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans. Ég mun ekki, eins og ég sagði áðan, hefja neinar umr. um þessi mál, en tel mjög mikilvægt, að þessar upplýsingar liggja fyrir, og ég hygg, að það geti orðið hv. þm. umhugsunarefni um það sem er að gerast. Eftir því sem ég best veit, þá er togarafloti landsmanna nú 64 eða 65 skip, þar af munu vera 7 eða 8 togarar gamlir, gamlir síðutogarar, en mjög nýlegir og nýir litlir skuttogarar 40 og stórir skuttogarar 17. Þetta eru alls um 64 eða 65 skip, eftir því hvað við teljum marga síðutogara enn í gangi, þannig að þetta er orðinn allmyndarlegur togarafloti, sem við þegar eigum, og auk þess er búið að semja um 13 eða 15 skip, ég man nú ekki töluna nákvæmlega, sem munu örugglega bætast í togaraflotann nú á næstunni, þannig að það nálgast það að verða um 80 togarar sem íslendingar eiga. Að auki eru svo þessar umsóknir, sem hæstv. ráðh. upplýsti okkur um áðan, og ýmsar óskir annarra aðila um þessi efni, þannig að það er alveg augljóst að togarafloti íslendinga getur, ef öllum óskum og áformum er fullnægt, stækkað mjög mikið nú alveg á næstunni.

Ég veit að það er mjög erfitt að taka beina afstöðu til alls þessa máls. En ég hygg þó að það sé ljóst að í mörgum tilfellum sé þarna um eðlilegar óskir að ræða og það getur verið vafasamt að gefa út neina allsherjarlínu í þessu máli, og ég hygg að eðlilegast verði nú að skoða hverja umsókn fyrir sig áður en afstaða er tekin til þeirra.