09.12.1975
Neðri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

102. mál, lántaka vegna opinberra framkvæmda 1976

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Hæstv. forseti. Frv. til l. um heimild til erlendrar lántöku vegna opinberra framkvæmda árið 1976 á þskj. 124 er flutt til að tryggja að nægjanlegar lagaheimildir séu fyrir hendi vegna erlendra lántaka á árinu 1976, sem nauðsynlegar verða taldar til að standa undir kostnaði við opinberar framkvæmdir á næsta ári. Sú fjárhæð, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, er byggð á tölu fjárlagafrv. eða 3 milljarðar 584 millj. kr., eins og nánar er gerð grein fyrir í aths. með fjárlagafrv. fyrir árið 1976, á bls. 174 og 178. Gera má ráð fyrir að þessi fjárhæð þurfi að breytast eitthvað í meðförum þingsins þegar Alþ. tekur endanlega ákvörðun um framkvæmdir sem ætlunin er að fjármagna með lántökum á árinu 1976.

Eins og boðað hefur verið mun ríkisstj. leggja fyrir Alþ. skýrslu um lánsfjáráætlun fyrir árið 1976, og er nú verið að leggja síðustu hönd á gerð þeirrar skýrslu, þannig að hún ætti að geta legið fyrir eftir fáa daga. Í þessari skýrslu verður m. a. gerð sérstök grein fyrir opinberum framkvæmdum á fjárl. sem ráðgert er að fjármagna með lánsfé, og er því ekki ástæða til að víkja nánar að því máli hér.

Loks skal vakin athygli á því, að heimildir til lántöku vegna opinberra framkvæmda í fjárlögum eru með þrennum hætti.

Í fyrsta lagi er leitað heimildar til lántöku innanlands í 6. gr. fjárlagafrv., heimildagr.

Í öðru lagi eru þegar fyrir hendi lagaheimildir til innlendrar og erlendrar lántöku til nánar tiltekinna verkefna og er skýringar á því að finna í aths. fjárlagafrv.

Í þriðja lagi er svo það erlenda lánsfé sem heimildir skortir fyrir og leitað er með þessu frv. Talið hefur verið að til erlendrar lántöku nægi ekki heimildir í fjárl., heldur verði að koma þar til sérstök löggjöf.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.