10.12.1975
Neðri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

105. mál, söluskattur

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. fjmrh. er það aðalatriði þessa frv. að halda skuli áfram að innheimta 2% viðlagagjald á söluskattsstofn, en í stað þess að 2%, sem undanfarin ár hafa verið innheimt, hafa runnið í Viðlagasjóð til þess að bæta tjón af völdum náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum og Neskaupstað, þá skulu þau framvegis renna í ríkissjóð. Þetta er meginefni frv.

Ég vil þegar taka það fram við þessa 1. umr. að þingflokkur Alþfl. er þessu aðalefni frv. algerlega andvígur og mun taka afstöðu gegn því í n. og greiða atkv. gegn því við afgreiðslu málsins. Ástæða þessa er sú, að við teljum þetta meginefni frv., að áfram skuli haldið að innheimta 2% söluskatt, en að hann skuli renna í ríkissjóð til þess að mæta almennum gjöldum ríkissjóðs, vera í algerri andstöðu við þá stefnu í skattamálum sem Alþfl. mótaði á nýafstöðnu flokksþingi sínu og hefur flutt till. til þál. um í sameinuðu Alþingi.

Sú nýja stefna, sem Alþfl. mótaði á síðasta flokksþingi sínu og kemur fram í þáltill. hans, er fólgin í því að horfið verði að fullu frá innheimtu tekjuskatts til ríkisins af tekjum launþega, m. ö. o. að tekjuskattur af launum skuli afnuminn að fullu. Hins vegar gerir flokkurinn ráð fyrir því að ríkið haldi áfram að innheimta tekjuskatt af atvinnurekstri. Í því sambandi leggjum við jafnframt til að tekið verði að greina á milli atvinnurekstrar einstaklinga og einkabúskapar þeirra í því skyni að koma í veg fyrir að hægt sé að bókfæra halla á atvinnurekstri með þeim hætti að það geri einstaklingi kleift að hafa háar raunverulegar tekjur í skjóli atvinnurekstrarins án þess að greiða af þessum raunverulegu tekjum nokkurn tekjuskatt eða útsvar vegna þess að atvinnureksturinn er talinn rekinn með tapi samkv. bókhaldi og skattaframtali, þó að um háar raunverulegar tekjur eiganda atvinnurekstrarins geti verið að ræða sem komi fram í eyðslu og lífsháttum hlutaðeigandi.

Hér er um að ræða tillögur um mjög róttæka stefnubreytingu í skattamálum og einnig gagngera afstöðubreytingu eða stefnubreytingu hjá Alþfl. varðandi skattamál. Þess vegna er full ástæða til þess að gera grein fyrir því hvers vegna Alþfl. boðar nú nauðsyn þess, að ríkið hætti að afla sér tekna með álagningu tekjuskatts, en kjósi fremur innheimtu neysluskatta, söluskatts eða raunar öllu heldur virðisaukaskatts, eins og við höfum lagt til, í staðinn.

Meginröksemd okkar fyrir þessari nýju stefnu er sú að í reynd er tekjuskattur á Íslandi orðinn að hreinum launamannaskatti. Hann er í reynd orðinn að skatti á launamenn einvörðungu. Það er að sjálfsögðu fullkomlega óeðlilegt. Launastéttir landsins, jafnvel láglaunastéttir, greiða tiltölulega háa tekjuskatta. Af miðlungstekjum er greiddur tiltölulega mjög hár tekjuskattur samtímis því, eins og ég mun víkja nánar að síðar, að atvinnurekstur landsmanna greiðir sáralítinn tekjuskatt. íslenskir launþegar greiða nær allan þann tekjuskatt sem íslenskt ríkisvald nú innheimtir, en íslenskur atvinnurekstur greiðir í reynd nær engan tekjuskatt. Í þessu felst svo ferlegt félagslegt ranglæti, að brýna nauðsyn ber til þess að stemma hér stigu við.

Reynsla undanfarinna áratuga sýnir að engin sú breyting, sem gerð hefur verið á skattalögum, hefur megnað að bæta úr þessu ranglæti. Hver ríkisstj. á fætur annarri hefur flutt frv. til breytingar á hinum gömlu, eldgömlu tekjuskattslögum, en engri breytingu hefur tekist að eyða því stórkostlega félagslega misrétti sem innheimta tekjuskattsins í reynd hefur leitt í ljós. Þess vegna höfum við í Alþfl. komist að þeirri niðurstöðu að það sé engin lækning til við meininu önnur en sú að afnema beinlínis tekjuskattsinnheimtuna. Það er ekki aðeins að byrði beinna skatta sé orðin óbærilega þung og álagning þeirra að mörgu leyti mjög ranglát, eins og dæmi úr ýmsum kaupstöðum og kauptúnum undanfarið sýna og sanna, heldur er það líka staðreynd sem verður að minna á að tekjuskattsinnheimtan er afar dýr í framkvæmd, afar kostnaðarsöm. Reglurnar eru flóknar, það þarf fjölmennt starfslið til þess að framfylgja þeim, og það er mjög dýrt. Kerfið allt verður óeðlilega flókið og veitir margs konar skilyrði til margháttaðra undanbragða undan réttlátri skattgreiðslu, sumpart löglegra og sumpart ólöglegra. Almennir launþegar eru farnir að greiða svo hátt hlutfall af almennum tekjum sínum að hlutfall tekjuskatts til ríkis og sveitarfélags getur orðið frá þriðjungi og allt að helmingi tekna. Skipting milli tekjuskatts til ríkisins og útsvars, skipting beinu skattanna milli tekjuskatts og útsvars er að sjálfsögðu ólík eftir því um hversu háar tekjur er að ræða. En tekjuskattarnir í heild á almennar launatekjur, á venjulegar launatekjur, liggja á bilinu frá þriðjungi og upp í helming. Þetta er auðvitað orðin óeðlilega þung byrði, ekki hvað síst þegar menn samtímis verða vitni þess að fyrirtæki, sem hafa gífurleg umsvif, greiða litla eða jafnvel enga tekjuskatta til ríkisins né heldur útsvör til sveitarfélaga vegna rekstrarins.

Sannleikurinn er því orðinn sá, að þessi óhóflega skattheimta af tekjum manna er í mörgum tilfellum orðin og verður í æ fleiri tilfellum beinlínis fjötur á framtakssemi einstaklinga og vinnuvilja og er með þessum hætti orðin hemill á heilbrigðan og eðlilegan vöxt þjóðartekna.

Það á ekki aðeins við um Ísland að innheimta beinna tekjuskatta með háum skattstigum sé orðin að félagslegu vandamáli. Það gildir einnig um nálæg lönd, þar sem umr. undanfarinna ára um skattamál hafa mjög mótast af því hvort tekjuskattar geti í raun og veru lengur talist samrýmast réttlætistilfinningu manna varðandi þátttöku í nauðsynlegum samfélagsgjöldum. Þess má gjarnan minnast að nú munu vera rúmir tveir áratugir síðan núv. forsrh. norðmanna, Trygve Bratteli, sem þá gegndi embætti fjmrh., var staddur hér á landi og hélt fyrirlestur um skattamál, fræðilegan fyrirlestur þar sem hann, að því er ég best velt, fyrstur vestur-evrópskra jafnaðarmannaleiðtoga lýsti réttmæti þess og nauðsyn að hverfa frá innheimtu beinna skatta og yfir í kerfi óbeinna skatta, neysluskatta, sem væru í nánum tengslum við almannatryggingakerfi og aðrar félagslegar ráðstafanir í þágu láglaunafólks. Síðan hafa æ fleiri jafnaðarmannaleiðtogar tekið undir þessi sjónarmið og hafa gerst andstæðingar beinnar tekjuskattsheimtu, a. m. k. til ríkisins, og málsvarar þess að ríkið fái tekjur sínar í formi neysluskatta, nú á síðari árum í formi virðisaukaskatts, en þá auðvitað um leið í nánum tengslum við aukningu á bótakerfi almannatrygginga og annarri félagslegri fyrirgreiðslu til þess að tryggja afkomu þeirra sem greiðsla neysluskatta bitnar þyngra á heldur en greiðsla tekjuskatta hafði áður gert.

Því fer þannig víðs fjarri, að þessi hugmynd sé ný, hvorki í röðum jafnaðarmanna né heldur almennt skoðað. Sannleikurinn um tekjuskatt til ríkisins er sá, að þegar hann var upphaflega lögfestur, hér á landi sem annars staðar, þá var hann í raun og veru helsta hagstjórnartækið sem fyrir bendi var til þess að jafna tekjur. Hann var í raun og veru fyrsta leiðin sem stjórnmálamenn og efnahagssérfræðingar komu auga á til að ná því réttláta markmiði í þjóðfélagsmálum, sem æ fleiri stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa orðið sammála um, að ríkisvaldinu beri skylda til þess að láta til sín taka í því skyni að jafna þær tekjur sem atvinnulífið eða frjáls vinnumarkaður og frjáls atvinnurekstur skammtar launþegum og vinnuveitendum. Í áratugi var tekjuskattur í raun og veru eina tiltæka leiðin sem menn sáu til þess að ríkið gæti haft tekjujafnandi áhrif. En mikið vatn hefur runnið til sjávar undanfarna hálfa öld og þó einkum og sér í lagi undanfarin 20–30 ár.

Fyrst var farið að beita öðru tæki samhliða tekjuskattinum til tekjujöfnunar, þ. e. almannatryggingakerfi í mismunandi viðtæku formi. Þar kom til skjalanna það hagstjórnartæki sem í reynd hefur haft langmest tekjujöfnunaráhrif af öllum hagstjórnartækjum sem nú er beitt í vestrænum lýðræðislöndum eða löndum sem búa við svo kallað blandað hagkerfi. Til fjölmargra annarra ráða hefur verið gripið til þess að jafna tekjur og aðstöðu manna, einkum og sér í lagi í Norðvestur-Evrópu, t. d. að veita öllum mönnum ókeypis kost á menntun, allt frá smábarnaskóla og til háskóla. Það hefur verið gripið til niðurgreiðslna á nauðsynjavörum í margs konar formi og ýmiss konar þjónustu við láglaunafólk og barnafjölskyldur, rekstrar barnaheimila o. s. frv., og þetta allt saman, almannatryggingakerfið, þ. e. fjárveitingar í því skyni að láta menn ekki verða fyrir efnahagstjóni vegna veikinda, örorku, slysa, elli, ásamt ókeypis menntunarskilyrðum og margs konar félagslegri fyrirgreiðslu annarri af hálfu hins opinbera, allt þetta hefur smám saman á undanförnum áratugum í reynd haft miklu víðtækari tekjujöfnunaráhrif en tekjuskattinum var upphaflega ætlað að hafa og honum hefur í reynd tekist að hafa. Tekjujöfnunaráhrif stighækkandi tekjuskatts eru orðin hégóminn einber í löndum með blandað hagkerfi í samanburði við hin önnur hagstjórnartæki sem farið hefur verið að beita í vaxandi mæli á undanförnum áratugum og ég nefndi áður. Þess vegna er það tvímælalaust að hægt er að afnema tekjuskattsgreiðslu til ríkissjóðs án þess að tekjujöfnunin minnki. Ef ekkert annað væri gert samtímis og söluskattur eða virðisaukaskattur að fullu látinn koma í stað tekjuskattsins, þá mundu áhrifin auðvitað verða þau að lítils háttar — og ég undirstrika lítils háttar — mundi draga úr tekjujöfnun. En hin tekjujöfnunartækin eru orðin svo áhrifamikil orðin svo víðtæk, að aðeins lítils háttar aukning og endurbót á þeim mundu geta ekki aðeins bætt að fullu þá minnkun tekjujöfnunar sem breyting úr tekjusköttum í neysluskatta hefði í för með sér, heldur mundi að ýmsu leyti verða auðveldara að auka tekjujöfnun samfara afnámi tekjuskatts, hvað þá að tekjujöfnun þyrfti að minnka við breytingu á tekjusköttum í neysluskatta. Þetta sýndi Trygve Bratteli glöggt fram á í hinu gagnmerka erindi sínu hér fyrir meira en 20 árum.

Það er einn meginkosturinn við söluskatt eða virðisaukaskatt frá efnahagslegu sjónarmiði séð, samanborið við tekjuskatta, að þá ræður skattgreiðandinn meiru um það sjálfur hversu mikið hann greiðir með því að ákveða sjálfur og einn hvað og hversu mikið hann kaupir umfram nauðþurftir. Tekjuskattskerfið gerir skattgreiðanda með ákveðnar tekjur skylt að greiða ákveðinn hluta til opinberra þarfa. Neysluskattakerfi leggur það á vald skattgreiðandans sjálfs hversu mikið hann greiðir til opinberra þarfa í samanburði við annan skattgreiðanda, því að auðvitað verður að gera ráð fyrir því að heildarþörf ríkisins til samfélagslegra nauðsynja sé ákveðin stærð. Ef einstaklingur hagnýtir sér neysluskattakerfið til þess að greiða minna til ríkisins en hann hefði þurft að greiða samkv. tekjuskattskerfi, þá jafngildir það því að hann sparar. Það er ekki nýmæli að sparsemi sé dyggð, bæði frá sjónarmiði einstaklingsins og þjóðarheildarinnar. Ef beitt er efnahagsrökum einum saman, þá er það meginkostur neysluskatta miðað við tekjuskatta að þeir hvetja til sparnaðar sem er raunveruleg hagsbót fyrir einstaklinginn, en líka hagsbót fyrir þjóðarheildina, því að hann eykur fjármunamyndun og þannig skilyrði til þess að auka hagvöxt.

Þess má einnig geta í þessu sambandi að framkvæmd neysluskattheimtu, eins og innheimtu söluskatts eða jafnvel virðisaukaskatts, er miklu ódýrari og einfaldari en framkvæmd tekjuskattskerfis. Það er örugglega auðveldara að hafa eftirlit með því, að neysluskattar innheimtist, heldur en tekjuskattar. Mér er að sjálfsögðu ljóst að það eru skilyrði til undanbragða í báðum skattkerfunum. En vegna þess að neysluskattar eru mun einfaldari í innheimtu en tekjuskattar, þá er með sama mannafla a. m. k. auðveldara að tryggja að neysluskattar skili sér en tekjuskattar.

Þetta eru meginrökin fyrir þeirri stefnubreytingu sem við þm. Alþfl. og flokksþing Alþfl. nú boðar í skattamálum, þeirri stefnubreytingu að hverfa frá tekjuskattsheimtu til ríkisins, en að ríkið afli sér í staðinn nauðsynlegra tekna með neysluskatti. Á hitt legg ég að sjálfsögðu áherslu, að jafnhliða þessu yrði að gera sérstakar ráðstafanir, nokkrar breytingar á almannatryggingakerfinu og á félagslegum ráðstöfunum opinberra aðila, sem tryggi, að þessi skattkerfisbreyting yrði ekki til þess að auka mun á raunverulegum tekjum í þjóðfélaginu. Það á að vera einfalt mál, þó að ég ræði það ekki frekar í þessu sambandi.

Nú er eðlilegt að spurt sé, hvernig við hugsum okkur að bæta ríkissjóði þann tekjumissi sem hann að sjálfsögðu yrði fyrir ef hætt væri að innheimta tekjuskatt, en tekjuskattur mun nú nema um 5600 millj. kr. Við viðurkennum að sjálfsögðu að fullu og öllu nauðsyn þess að ríkinu sé séð fyrir tekjum sem bæta algerlega þennan tekjumissi. Við viljum ekki gera neinar till. sem yrðu til þess að auka á greiðsluhalla ríkissjóðs. En það, sem við bendum á að gera mætti til þess að afkoma ríkissjóðs versnaði ekki þrátt fyrir skattkerfisbreytinguna, eru eftirfarandi atriði:

Í fyrsta lagi gerum við ráð fyrir því, að ríkissjóður haldi áfram að innheimta þau tvö söluskattsstig, sem hefðu að óbreyttum lögum fallið niður 31. des., og enn fremur það eina söluskattsstig, sem lög gera nú ráð fyrir að eigi að falla niður 1. mars n. k., olíuskattsstigið svokallað, þegar Alþ. telur ekki lengur þörf á sérstakri tekjuöflun vegna olíuverðsins. Þetta mundi bæta meginhluta tekjumissisins vegna afnáms tekjuskattsins. En við gerum okkur ljóst, að það mundi ekki bæta hann að fullu. Þess vegna bendum við á viðbótarráðstafanir sem við teljum vera hægt að gera til þess að ríkissjóður fái tekjur sínar bættar að fullu.

Í fyrsta lagi teljum við sjálfsagt að breyta í grundvallaratriðum gildandi reglum um fyrningarfrádrátt og vaxtafrádrátt fyrirtækja sem stunda atvinnurekstur, enda er tekjuskattur þeirra nú sáralítill einmitt í skjóli þess hvernig fyrningarreglurnar og reglurnar um vaxtafrádrátt eru. Það er enginn vafi á því að með breyttum reglum um fyrningarfrátt og vaxtafrádrátt mætti með réttlátu og sanngjörnu móti auka verulega skattgreiðslu fyrirtækja, þ. e. láta fyrirtækin borga þann skatt sem þeim í raun réttri ber nú að borga til samfélagsþarfa.

Þá teljum við í öðru lagi rétt að breyta reglum gildandi laga um hagnað af sölu eigna. Gildandi reglur eru þannig, að geysilegur hagnaður vegna eignasölu er nú tekjuskattsfrjáls.

Með breyttum reglum um þetta efni, sem ég skal ekki rekja nánar í þessu sambandi, — það gefst tækifæri til þess síðar, — má án efa auka tekjur ríkissjóðs mjög verulega.

Þá ber og að minnast þess, sem að vísu dregur ekki mikið, en verður þó að minnast, að verði tekjuskattsinnheimta ríkisins lögð niður, þá mun ríkið spara verulegar fjárfúlgur í innheimtukostnaði. Ég endurtek, að mér er ljóst að hér er ekki um neinar stórfjárhæðir að ræða, en engu að siður svo miklar fjárhæðir að það er sjálfsagt að taka tillit til þeirra.

Ég vil ekki í sambandi við þetta mál lengja umr. með því að gera grein fyrir rökstuddum áætlunum um hvað hægt væri að auka tekjur ríkissjóðs mikið með breyttum reglum um fyrningarfrádrátt og vaxtafrádrátt, með breyttum reglum um söluhagnað eigna og vegna sparnaðar í innheimtukerfinu. En ég skal þó láta í ljós þá skoðun, að ég tel að með því að halda söluskattinum og gera þessar þrjár breytingar á gildandi tekjuskattslögum vinnist það ekki upp að fullu, sem ríkið mundi missa vegna algers afnáms tekjuskattsins, og það, sem verja þyrfti til nýrra félagslegra ráðstafana að afla nokkurra tekna til viðbótar til þess að halda ríkissjóði skaðlausum. Það teljum við þm. Alþfl. mjög auðvelt að gera með því móti að leggja mjög lágan brúttó-veltuskatt á allan atvinnurekstur í landinu. Ég skal rökstyðja þetta með fáum orðum.

Í fyrsta lagi er slíkur brúttó-veltuskattur réttlátur, og í öðru lagi gæti hann verið mjög lágur. Það er svo að nú á árinu 1975 eru 5190 félög á skattskrá. En þessi 5190 félög greiða aðeins 1200 millj. kr., — ég endurtek: þau greiða aðeins 1200 millj. kr. í tekjuskatt. Því verður varla haldið fram að hér geti verið um réttláta tekjuskattsgreiðslu að ræða af hálfu nokkuð á sjötta þúsund félaga.

Athuganir hafa leitt í ljós að um 7500 einstaklingar á Íslandi hafi aðaltekjur sínar af eigin atvinnurekstri. En athugun hefur jafnframt leitt á ljós að ekki nema rúmur helmingur þessara 7500 sjálfstæðu atvinnurekenda greiðir tekjuskatt. Það má geta nærri hvort hér er um félagslegt réttlæti í skattamálum að ræða, að á milli 3 og 4 þús. einstaklingar, sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur, hafi þær tekjur sem geri eðlilegt að þeir greiði ekki eyri til ríkisins. Hér fer eitthvað meira en lítið úrskeiðis. Við gerum ráð fyrir að af atvinnurekstri verði haldið áfram að greiða tekjuskatt. Hins vegar er augljóst að fyrst gildandi reglur, sem þó eru niðurstaða af margra áratuga endurskoðun og viðleitni til endurbóta, leiða ekki til meiri skattgreiðslu af hálfu félaga og einstaklinga, sem stunda atvinnurekstur, en hér segir, að það gæti ekki talist ranglæti að láta fyrirtækin greiða mjög lágan brúttó-veltuskatt af tekjum sínum, með ekki ólíkum hætti og aðstöðugjaldið er greitt til sveitarfélaganna. Þetta virðist beinasta og einfaldasta leiðin til þess að bæta úr ríkjandi ranglæti. Þeir 3–4 þús. einstaklingar, sem greiða nú tekjuskatt, greiða þó ekki nema 400–500 millj. kr. öll félög og einstaklingar, sem stunda atvinnurekstur, borga þannig 1600–1700 millj. kr. í tekjuskatt. Má geta nærri hvort þessi atvinnurekstur er ekki aflögufærari með réttlátum hætti en þetta til sameiginlegra þarfa í þjóðfélaginu.

Gerð hefur verið athugun á því, — það rökstyður enn frekar hversu auðvelt væri að efla ríkinu tekna með mjög lágum brúttó-veltuskatti á atvinnurekstur, — að heildarvelta allra atvinnufyrirtækja í landinu er talin vera 360 milljarðar kr. Þess ber að sjálfsögðu að geta að sá virðisauki, sem verður í atvinnurekstri og í veltunni felst, er auðvitað mjög breytilegur eftir atvinnugreinum. Hann er eflaust mestur í framleiðslugreinum. Hann er áreiðanlega mun minni í verslunargreinum og enn minni t. d. í ýmsum þjónustugreinum. En ef við gerum ráð fyrir því að fyrirtækin, sem tekjuskattur er nú lagður á, hafi 2/3 hluta veltunnar, sem er ríflega áætlað, þá nemur tekjuskattur þeirra, sem nú borga tekjuskatt, aðeins um 3/4%–1% af veltunni. Tekjuskatturinn, sem þau fyrirtæki, sem nú greiða tekjuskatt, greiða, nemur ekki meiru en ¾–1% af heildarveltunni. Veltu hinna, sem nú greiða engan tekjuskatt — bókstafleka engan tekjuskatt, — má varlega áætla á bilinu 100–130 milljarða kr. Ég vitna til réttlætistilfinningar hins almenna skattgreiðanda, hins almenna borgara í landinu, þegar ég spyr: Getur það virkilega talist réttlætanlegt að fyrirtæki, sem hafa veltu sem er einhvers staðar á bilinu 100–130 milljarðar kr., greiði bókstaflega ekki neitt, ekki krónu, ekki eyri, til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins? Ég er sannfærður um að það finnst ekki sá borgari með réttlætistilfinningu í hug og hjarta sem ekki svarar því játandi að slík fyrirtæki hljóti að geta greitt veltuskatt af brúttóveltu sinni sem þyrfti ekki að vera bærri rn svo að hann yrði undir 1% af veltunni, verulega undir 1% af veltunni.

Ég tel að þessar einföldu tölur, sem ég hef nú rakið, taki af öll tvímæli um að það sé ekki aðeins vandalaust að bæta ríkissjóði allan þann tekjumissi sem hann yrði fyrir ef tekjuskattsheimta yrði algerlega afnumin, heldur mundi félagslegt réttlæti í skattheimtu jafnframt aukast. Ráðstöfunin hefði þegar af þessum ástæðum tekjujafnandi áhrif vegna þess að aðilar, sem nú ættu auðsjáanlega að greiða tekjuskatt, en greiða hann ekki í skjóli ófullkominnar löggjafar, mundu greiða hann í formi ákaflega lágs brúttóveltuskatts. Breytingin mundi auka réttlæti og jöfnuð í skattgreiðslum til ríkisins.

Hæstv. forseti. Ég tel mig með þessum orðum mínum hafa fært rök fyrir því að tími sé kominn til þess að afnema það félagslega ranglæti sem felst í því að gildandi tekjuskattsheimta er fyrst og fremst skattheimta af launatekjum, er fyrst og fremst skattlagning á launamenn. Ég tel jafnframt að einfalt væri og auðvelt að gera þær breytingar á almannatryggingakerfinu og annarri þjónustustarfsemi hins opinbera við almenning sem jöfnuðu að fullu þá smávægilegu röskun sem yrði á tekjujöfnun í þjóðfélaginu við breytingu á tekjuskatti í neysluskatt. í þriðja lagi bendi ég á að neysluskattur hefur þann mikla kost umfram tekjuskatt að hann hvetur til sparnaðar, bæði frá sjónarmiði einstaklingsins og frá sjónarmiði heildarinnar, og hefur þannig heilbrigð áhrif. Og lokaatriðið í röksemdafærslunni er síðan það, að við viðurkennum að sjálfsögðu nauðsyn þess að bæta ríkissjóði hvern eyri, sem hann missti við afnám tekjuskattsins, og teljum að það sé hægt — ekki aðeins að það sé hægt, heldur að það mundi auka réttlæti í skattheimtunni ef það yrði gert með þeim aðferðum sem hér er lagt til, þ. e. að halda þrem tekjuskattsstigum, gera breytingar á vissum frádráttarreglum og reglum, sem atvinnurekstur nú notar með óeðlilegum hætti, og með því að leggja örlítinn, mjög lágan brúttó-veltuskatt á atvinnurekstur. Ef slíkar breytingar yrðu gerðar, þá mundi réttlæti í tekjuskattsheimtu beinlínis aukast frá því sem nú er. Allt þetta teljum við svo veigamikil rök fyrir nauðsyn skattkerfisbreytingar, að við getum ekki fallist á að þau tvö söluskattsstig, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að halda eigi áfram að innheimta eftir 1. jan. n. k., renni í ríkissjóð til greiðslu á venjulegum gjöldum, heldur verði haldið áfram að innheimta söluskattsstigin, en þau hagnýtt sem meginhluti þeirra bóta sem ríkissjóði eru nauðsynlegar vegna missis tekna af tekjuskattinum.