10.12.1975
Neðri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

105. mál, söluskattur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki við 1. umr. þessa máls hafa um það mörg orð. Það frv., sem hér er til umr., gerir ráð fyrir, eins og hér hefur komið fram, tvenns konar breytingu frá því sem nú er í gildi varðandi þau atriði eða ákvæði sem frv. fjallar um.

Það er í fyrsta lagi og er meginefni frv. að þau tvö söluskattsstig, sem innheimt hafa verið til Viðlagasjóðs, skuli nú renna til ríkissjóðs. Það er enginn vafi á því að þegar Viðlagasjóðsgjaldið svonefnda var á sett, þá var ekki meiningin að það yrði til langframa fastur skattur, nema þann tíma sem það væri talið þurfa til þess að standa undir greiðslum af kostnaði vegna þess sérstaka tilviks sem það var á sett. Meiningin með þessu var því að fella það úr gildi þegar Viðlagasjóður hefði lokið sínu hlutverki. Hér er sem sagt um það að ræða að ríkissjóður seilist nú til enn tveggja stiga í söluskatti sem eru nokkuð á þriðja milljarð kr. í tekjuaukningu fyrir ríkissjóð. — Ég vil fyrir okkar leyti gera grein fyrir því að við erum andvígir að þessi breyting verði gerð. Við teljum eðlilegt að þessi 2 söluskattsstig hefðu nú verið felld niður. Það er enginn vafi á því að með slíkri ákvörðun hefði mátt greiða verulega fyrir lausn ýmissa þeirra vandamála sem nú steðja að og kannske ekki síst í sambandi við lausn þeirra geigvænlegu vandamála sem við blasa í sambandi við kjara- og atvinnumál.

Í öðru lagi er hér gert ráð fyrir því að auka hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í tekjum af söluskattsstigunum. Það hefur lengi verið ósk og krafa sveitarstjórna að fá þessa auknu hlutdeild til þess að auka þeirra tekjustofna. Hér er að sjálfsögðu um réttlætisbreytingu að að ræða. En jafnframt þessu var boðað í fjárlagafrv. og er boðað í aths. þessa frv. að gerð verði sú breyting á að yfirfærð verði af verkefnum ríkisins yfir til sveitarfélaganna verkefni sem eiga að samsvara þeirri fjárhæð sem sveitarfélögin kunna að fá vegna þessarar auknu hlutdeildar þeirra í söluskattsaukanum. Í fjárlagafrv. eða aths. þess er gert ráð fyrir að hér verði um að ræða 700 eða 750 millj. kr. Nú sé ég að í aths. þessa frv. er þessi tala komin niður í 600 millj. kr. Ekkert hefur enn sést um það hér á Alþ. hvaða verkefni það eru sem gert er ráð fyrir að færa frá ríkissjóði til sveitarfélaganna, en mér er ekki grunlaust um að einmitt um það séu ærið skiptar skoðanir meðal sveitarstjórnarmanna annars vegar og hins vegar hæstv. ríkisstj. En það kemur auðvitað að því að þau frv., sem boðuð eru sem fylgifrv. fjárlagafrv. í þessum efnum, sjái dagsins ljós, þó að með ólíkindum megi nú telja að slík frv. séu ekki komin fram enn og aðeins um hálf önnur vika eftir af þeim tíma sem talið er líklegt að þing standi þar til jólaleyfi verður gefið.

Í sambandi við tveggja stiga söluskattshækkunina til ríkissjóðs og þann tekjumissi sem hann yrði fyrir ef þessi breyting yrði ekki gerð, þá er enginn vafi á því að það eru margar leiðir til þess að bæta ríkissjóði það tekjutap sem hér kann á að verða. Það er nægilegt að mínu áliti að benda aðeins á eina, sem raunar hefur komið hér fram, og það er breyting á tekjuskattslögunum, um þau fyrirtæki og atvinnurekstur í landinu sem allt til þessa hefur verið svo til skattlaus. Það er tími til þess kominn að gerð verði sú breyting að þær þúsundir fyrirtækja, sem skattlaus hafa verið, fari að greiða í samfélagslegan sjóð til þess að standa undir því sem þarf að gera í þjóðfélaginu. Það er enginn vafi að með þessari breytingu einni saman væri hægt að ná upp þeim tekjumissi sem ríkissjóður yrði fyrir þó að þessi tvö söluskattsstig rynnu ekki til hans sem nú renna til Viðlagasjóðs. Auk þess hefur verið bent á ýmsa aðra pósta sem kæmu ríkissjóði til tekna ef öðruvísi væri með farið heldur en hæstv. ríkisstj. virðist ætla að gera.

Eins og ég sagði áðan, skal ég ekki verða langorður um þetta mál. Meginefni frv. er að ríkissjóður ætlar nú að yfirtaka tvö söluskattsstig frá Viðlagasjóði, og því erum við andvígir. Við teljum að það sé auðvelt og raunar sjálfsagt, ekki síst við þær kringumstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu, að bæta tekjur ríkissjóðs með öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir. Til þess eru og hefur verið bent á fleiri en eina og fleiri en tvær leiðir til úrbóta. Við erum hins vegar sammála hinu ákvæði frv., sem er að auka hlutdeild sveitarfélaganna í söluskattinum. En auðvitað kemur upp sú spurning í huga manna hvað það er í raun og veru sem hæstv. ríkisstj. ætlar að láta fylgja þessari breytingu. Þar er um að ræða verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Um það hefur ekkert sést enn. Það er enginn vafi á því að þó að engin breyting væri þar á gerð, þá hafa aukist svo gjöld sveitarfélaga í verkefnum sem þau hafa verið látin inna af hendi eftir að tekjustofnalögunum frá 1972 var breytt, að þessi tekjustofn, sem hér er ætlaður til þeirra sem aukning, ég efast um að hann gerði miklu meira en að jafna þann mismun sem hefur verið lagður á sveitarfélögin frá því að sú breyting var gerð, þannig að hér er að mínu viti ekki um ýkjamikla tekjumöguleika sveitarfélaganna að ræða umfram það sem á þau hefur verið lagt í auknum verkefnum frá því að tekjustofnalögunum var breytt. En það gefst væntanlega tækifæri til þess, þegar fylgifrv. fjárlagafrv. koma fram, að ræða það mál frekar og ég skal því ekki hafa fleiri orð um þetta nú.