10.12.1975
Neðri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

48. mál, vísitala byggingarkostnaðar

Frsm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Þetta mál, sem er hið 48., er frv. til l. um vísitölu byggingarkostnaðar. Ég leyfði mér við 1. umr. að gera lítillega grein fyrir efni þessa frv. sem er mjög einfalt í sniðum, en það er flutt að beiðni hagstofustjóra og felur aðallega í sér að breytt er grundvelli vísitöluútreikningsins þannig að nú er hann reiknaður út fjórum sinnum á ári í stað þrisvar sinnum og birtir eru og reiknaðir út ákveðnir verkþættir byggingargjalda og fyrir einstök byggingarstig. Þetta frv. er samið af Hagstofu Íslands og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins í samráði við flestar þær stofnanir sem mál þetta snertir.

N. hefur leitað umsagna fjölmargra aðila og borist fjórar umsagnir sem allar voru jákvæðar. Nauðsynlegt er að þetta mál nái fram að ganga fyrir áramót vegna útreikninga og vinnu vegna þess. Allshn. leggur til að frv. verði samþykkt með einni minni háttar breytingu, leggur til að í 7. gr. komi orðin „eigi sjaldnar en á 5 ára fresti“ í stað orðanna „á nokkurra ára fresti“. — Er það gert til þess að slá því föstu að fram fari athugun á grundvelli byggingarvísitölunnar á þessu tímabili, þannig að það dragist ekki lengur en í a. m. k. 5 ár í hvert skipti.

Að svo mæltu, herra forseti, leyfi ég mér fyrir hönd n. að mæla með því að þetta mál fái samþykki d. og því verði vísað áfram til 3. umr.