20.10.1975
Sameinað þing: 4. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár í tilefni af því að tilkynnt hefur verið, að n. á vegum ríkisstj. fari í þessari viku til London til samningaviðræðna við breta um landhelgismálið.

Það hefur ekki farið á milli mála í þeim umr. um landhelgismálið sem átt hafa sér stað um allt land síðustu vikur og mánuði að landsmenn eru því yfirleitt mjög mótfallnir að samið verði við útlendinga um nýjar veiðiheimildir í fiskveiðilandhelginni. Sérstaklega virðist þó vera öflug samstaða gegn því að samið verði um slíkar veiðiheimildir innan 50 mílna markanna. Ég vil í þessu sambandi minna á það að ýmis öflugustu og fjölmennustu félagasamtök í landinu hafa gert mjög ákveðnar samþykktir gegn undanþágusamningum. Í þeim hópi eru m. a. Alþýðusamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband ísl. útvegsmanna, Sjómannasambandið, Félag áhugamanna um sjávarútvegsmál og fjöldamörg sjómanna- og verkalýðsfélög. Margar bæjar- og sveitarstjórnir og mörg sambönd sveitarfélaganna í landinu hafa einnig gert samþykkt um þetta mál á aðalfundum sinum. Auk þess eru svo samþykktir frá stjórnmálafélögum og flokkum og kjördæmisráðum. Það fer því ekkert á milli mála að þær samþykktir, sem gerðar hafa verið í áskorunarformi til hæstv. ríkisstj. um að semja ekki um undanþágur, eins og nú er komið, eru bæði margar og þær studdar af mjög mörgum mönnum. Ég tel að það sé útilokað með öllu að hunsa eða virða að vettugi þessar samþykktir, auk þess sem landhelgismálið er slíkt mál að allir stjórnmálaflokkar hafa lýst því yfir að það sé mál þjóðarinnar allrar, og þá tel ég að engri átt nái að halda þannig á því máli í framkvæmd að framkvæmdin sé í andstöðu við vilja þjóðarinnar.

Ég tel að vinnubrögð hæstv. ríkisstj. í landhelgismálinu nú um skeið séu á margan hátt ámælisverð og að hún þurfi að breyta til um vinnubrögð frá því sem verið hefur. Á sínum tíma skipaði hæstv. ríkisstj, sérstaka landhelgismálanefnd og í henni áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka hér á Alþ. Þessi n. var hugsuð sem samstarfsnefnd. Var ætlunin að reyna þar að samstilla vilja flokkanna í þessu stóra og þýðingarmikla máli og reyna til hins ýtrasta að ná samkomulagi um allan undirbúning og um framkvæmdir í málinu. Nú hafa ekki verið haldnir fundir í þessari landhelgismálanefnd í rúma 3 mánuði, eða síðan reglugerðin um útfærsluna í 200 mílur var samþ. Og mér er ekki kunnugt um að ríkisstjórnin hafi haft af sinni hálfu neitt samkomulag eða neitt samráð við stjórnarandstöðuflokkana hér á Alþ. um það, hvernig á þessu máli skyldi haldið. En það liggur hins vegar fyrir að þegar hafa farið fram samningaviðræður hér í Reykjavík við fulltrúa breta um hugsanlega undanþágu þeim til handa. Frá þeim viðræðum hefur ekki verið skýrt nema mjög lauslega í blöðum og það mjög mótsagnakennt og erfitt að átta sig á því, hvað þar hefur raunverulega farið fram. Engin skýrsla hefur verið gefin um þær viðræður á hliðstæðan hátt og áður var alltaf gert. Og nú er sem sagt ákveðið að sérstök sendinefnd fari til London og haldi áfram samningaviðræðum við breta um hugsanlegar veiðiheimildir þeirra innan fiskveiðilandhelginnar. Síðan hefur einnig verið tilkynnt að teknar verði upp formlegar viðræður við vestur-þjóðverja um veiðiheimildir þeim til handa.

Ég tel að á þennan hátt eigi ekki að standa að máli eins og landhelgismálinu. Og ég vil vænta þess að ríkisstj. taki nú til endurskoðunar þessi vinnubrögð sin, kalli á nýjan leik saman landhelgismálanefndina til fundar og hafi samráð við stjórnarandstöðuna á Alþ. um það, hvernig á málinu skuli haldið, en hafi ekki þann hátt á sem hún hefur haft nú að undanförnu.

Þá hefur það gerst í landhelgismálinu nýlega, sem vitanlega er full ástæða til þess að tekið sé til sérstakrar athugunar hér á Alþ. og að sjálfsögðu einnig í landhelgismálanefnd, en það er sú skýrsla sem Hafrannsóknastofnunin hefur nýlega sent frá sér um stöðu fiskstofnanna við landið, og þær alvarlegu aðvaranir, sem þar koma fram, og þær mjög ákveðnu till., sem þar eru settar fram um það hvernig að málinu skuli staðið. Við þm. höfum fengið þessa skýrslu, og ég geri ráð fyrir að allir hv. þm. hafi kynnt sér hana rækilega. En það er meginniðurstaða þessarar skýrslu, þannig að ekki fer á milli mála, að það er álit okkar fiskifræðinga, allra fiskifræðinganna við Hafrannsóknastofnunina, að ástand fiskstofnanna við landið sé nú orðið þannig, að það megi ekki nú á næstu árum taka meiri afla af aðalfisktegundunum, sem við veiðum hér, en sem nemur því magni sem íslendingar hafa yfirleitt veitt og geta auðveldlega veitt. Í þessari skýrslu segir Hafrannsóknastofnunin t. d. orðrétt varðandi þorskstofninn, — það er niðurstaða sú sem fram kemur eftir að fjallað hefur verið um málið almennt, en þar segir orðrétt á þessa leið: „Með tilliti til þess alvarlega ástands sem nú ríkir í þorskstofninum, eins og rakið er hér að framan, leggur Hafrannsóknastofnunin eindregið til að heildarafli þorsksins á Íslandsmiðum fari ekki fram yfir 230 þús. lestir árið 1976.“ En eins og kunnugt er var þorskafli okkar íslendinga á síðasta ári tæp 239 þús. tonn eða rétt aðeins meiri en Hafrannsóknastofnunin leggur til að mest verði tekið úr stofninum á næsta ári. Það kemur einnig í ljós að þetta er mjög svipað heildarmagn og við íslendingar höfum veitt af þorski á undanförnum árum. Árið 1973 var heildarþorskafli okkar 236 þús. tonn og árið 1972 228 þús. tonn. Er ljóst af þessu að eftir að fiskifræðingar hafa gert rækilega grein fyrir sínu máli, sem þeir byggja á rannsóknum sínum, er tillaga þeirra sú, að ekki verði veitt meira af þorski á næsta ári úr þorskstofninum við landið en sem nemur venjulegri árlegri veiði okkar íslendinga einna. Fiskifræðingarnir bæta því svo einnig við til skýringar þessum till., að það sé þeirra álit að verði tekið meira en sem þessu nemur, þá megi búast við því að mjög illa fari eftir örfá ár.

Í þessari skýrslu er einnig vikið að ýsustofninum, en þar segir í ályktunarorðum fiskifræðinganna: „Með tilliti til núv. ástands ýsustofnsins leggur Hafrannsóknastofnunin til að aflahámark ýsu árið 1976 verði 38 þús. lestir.“ En á s. l. ári veiddu íslendingar 33 þús. lestir, árið 1973 rétt um 35 þús. lestir og árið 1972 rétt um 30 þús. lestir Það er einnig ljóst af þessu, að hér er lagt til að ekki verði veitt meira úr ýsustofninum en sem nemur árlegri venjulegri veiði okkar íslendinga einna.

Í skýrslunni er einnig minnst á ufsastofninn og þar eru ályktunarorð í skýrslunni þessi: „Samkv. niðurstöðu Alþjóðahafrannsóknaráðsins er þó ekki talið ráðlegt að veiða nema 75 þús. tonn árið 1976.“ En ufsaafli okkar var á s. l. ári 66 þús. tonn og árið 1973 57 þús. tonn og árið 1972 60 þús. tonn. Hér er sem sagt um að ræða lítils háttar meiri afla af ufsa en við höfum tekið og tökum og allar líkur eru til að okkar eigin veiðifloti mundi auðveldlega veiða á næsta ári.

Fjórða fisktegundin, sem hér skiptir mestu máli, er karfi, en þar segir í þessari skýrslu: „Með tilliti til þessa er mælt með að ekki verði tekin meira en 50–60 þús. tonn af karfa á árinu 1976.“ En afli okkar af karfa hefur verið á s. l. ári rétt um 37 þús. lestir og árið 1973 um 29 þús. lestir, en árið 1972 33 þús. lestir. Það væri sem sagt einna helst í sambandi við karfann þar sem gæti verið um það að ræða að skv. till. Hafrannsóknastofnunarinnar mætti veiða nokkru meira magn en það sem við höfum veitt. En við vitum vel að sá hluti okkar fiskiskipastóls, sem helst veiðir karfa og nær eingöngu veiðir karfann, er einmitt sá hluti sem hefur verið að eflast, og allt hendir því til þess að hann geti tekið það heildarmagn af karfa sem hér er lagt til að taka sem hámark.

Af þessu er alveg ljóst, að okkar fiskifræðingar hafa sent frá sér ákveðnar till. og mjög alvarlegar aðvaranir sem allar hníga að því að við megum ekki taka meira úr fiskstofnunum hér við landið, eins og nú standa sakir, ekki hvað varðar aðalfisktegundirnar, en það sem við getum auðveldlega veitt sjálfir og svipað magni því sem við höfum veitt. Viðræður við útlendinga undir þessum kringumstæðum um að veita þeim heimild til lengri eða skemmri tíma til þess að veiða meira eða minna magn hér við land áfram hlytu því alveg óhjákvæmilega að verða að koma niður á okkur sjálfum. Við yrðum þá að setja reglur sem miða að því að skerða rétt okkar sjálfra til þess að stunda okkar veiðar áfram. Ég trúi því ekki að við nánari athugun detti hæstv. ríkisstj. í rauninni í hug að standa þannig að málum, miðað við þá efnahagsstöðu sem við stöndum nú frammi fyrir.

Það er eins og segir í lokaorðum þessarar skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar, að af þessu leiðir að nýting stofnanna verður ekki hagkvæm fyrr en erlend veiðiskip hverfa af Íslandsmiðum. Auk þess vitum við að það er í rauninni ómögulegt að setja reglur til friðunar eða takmörkunar á veiðum sem að nokkru teljandi gagni koma, sem eiga að gilda gagnvart okkar eigin fólki, á meðan stór erlendur veiðifloti er hér á miðunum. Við höfum reynt að setja slíkar reglur. Þær halda illa og koma að litlu gagni á meðan erlendi flotinn er á miðunum. Það er því aðeins hægt að halda uppi ströngum reglum gagnvart okkar fiskimönnum, sem miða að takmörkunum, að við getum losað okkur við erlenda veiðiflotann af okkar miðum.

Ég vil í tilefni af því, sem ég hef hér sagt, skora á hæstv. ríkisstj. að lýsa því yfir við þessar umr. að það verði hennar meginstefna í þeim viðræðum, sem nú eiga að fara fram við útlendinga, að veiðiheimildir innan 50 mílna markanna a. m. k. verði ekki veittar.

Ég tel að bæði við alþm. eigum kröfu á því að fá að vita um þá stefnu, sem á að gilda í þessum efnum í aðalatriðum, og þjóðin öll á kröfu á því. Ég vil vara ríkisstj. við því að ætla að halda þannig á þessu máli að hún sé að dylja fyrir þjóðinni hvað raunverulega er að gerast í málinu.

Í öðru lagi vil ég skora á hæstv. ríkisstj. að gefa við þessar umræður yfirlýsingu um að í þeim viðræðum, sem nú eiga að fara fram við breta, verði þessi nýja skýrsla Hafrannsóknastofnunarinnar lögð til grundvallar málflutningi íslendinga og bretum hreinlega bent á það í samræmi við þessa skýrslu að það sé í rauninni tómt mál um að tala að við getum veitt þeim hér frekari veiðiheimildir en þeir hafa fengið. Ég ætla að þegar þeir hafa athugað þessar skýrslur, sem hér liggja fyrir, þá sjái þeir að beiðni þeirra um að fá að halda hér áfram sérstökum veiðiheimildum jafngildi því að þeir séu að biðja okkur um að gefa sér ákveðna peningaupphæð. Hér er ekki af neinu öðru að taka en því sem við höfum til okkar eigin framfæris og við yrðum því að láta af því til þeirra.

Í þriðja lagi vil ég skora á ríkisstj. að hún breyti nú um vinnubrögð í sambandi við framkvæmd á landhelgismálinu og taki á nýjan leik upp samráð við stjórnarandstöðuflokkana, fyrst og fremst í landhelgisnefnd og einnig hér almennt á Alþingi. Þær vinnuaðferðir, sem hafa verið nú um skeið, eru óeðlilegar, og það á ríkisstj. að viðurkenna.

Og í fjórða lagi skora ég svo á ríkisstj. að leggja niður hér frá allt pukur með þetta mál og segja bæði Alþ. og þjóðinni allri hreint til um það, hver sé meginstefnan og hvernig sé ætlað að halda á málinu.

Ég held að það verði affarasælast fyrir þjóðina og um leið fyrir hæstv. ríkisstj., sem hefur á hendi framkvæmd þessa máls og þá miklu ábyrgð, sem því fylgir, — það verði einnig affarasælast fyrir hana að taka upp samstarf og samráð við aðra flokka í þessu máli og reyna þannig að skapa eins mikla samstöðu í málinu og mögulegt er.

Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að verða við þessum óskum mínum.