10.12.1975
Neðri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

108. mál, umferðarlög

Flm. (Friðjón Þórðarson) :

Virðulegi forseti. Á þskj. 131 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 40 frá 23. apríl 1968, ásamt hv. 1. þm. Vestf., Jóhannesi Árnasyni, sem setið hefur á þingi nú að undanförnu þar til í dag.

Frv. þetta er þess efnis að við leggjum til að breytt sé nokkuð 80. gr. umferðarlaganna, en hún hefur að geyma refsiákvæði laganna. Það er á þann veg að sektarhámark verði hækkað og fleira, eins og segir í 1. gr. frv. Frv. gerir þannig ráð fyrir, án þess að það sé nánar rakið, að dómstólar hafi frjálsari hendur um það hvort þeir beiti sektum eða refsivist fyrir nefnd brot.

Frv. þessu fylgir nokkuð ítarleg grg. Óþarft er því að fylgja því úr hlaði með langri framsöguræðu. Sjálfsagt er og að frv. fái rækilega athugun í n. Það er svo með þetta mál eins og fleiri að sínum augum lítur hver á silfrið.

Á liðnu hausti og fram á þennan dag hafa orðið fjölmörg óhöpp og alvarleg stórslys í umferðinni sem hafa minnt menn á að aldrei má slaka á ítrasta eftirliti í umferðarmálum. Þar verður stöðugt að halda uppi áróðri og sívakandi athygli á því sem betur má fara og stefnir að auknu öryggi.

Vera má að sumir telji að hér sé verið að slaka á kröfum og viðurlögum við ákveðnum umferðarlagabrotum og sé það síst af öllu rétt eða ráðlegt, eins og nú horfir í þessum málum. Sé frv. á hinn bóginn skoðað gaumgæfilega og borið saman við dóm reynslunnar hygg ég þó að margar nauðsynlegar aðgerðir í þessum efnum geti orðið fljótvirkari og markvissari ef ákvæði 80. gr. umferðarlaganna er breytt í það horf sem hér er gert ráð fyrir.

Í grg. er rakið hvernig refsað hefur verið fyrir brot af þessu tagi síðan bifreiðar komu til sögunnar hér á landi, en fyrstu lög um þetta efni munu vera nr. 21 frá 1914. Verður sú saga ekki endurtekin í þessari framsöguræðu. Samkv. ákvæðum gildandi laga hefur geysilegur fjöldi varðhaldsdóma verið kveðinn upp við dómstóla landsins s. l. 17 ár. Um framkvæmd dóma þessara er það hins vegar skemmst að segja að þeim hefur ekki verið fullnægt eftir hljóðan sinni, heldur hefur hverjum einasta dómþola, sem sótt hefur um náðun af slíkum refsingum, verið veitt hún. Varðhaldsdómarnir hafa þannig ekki verið framkvæmdir nema að örfáum undanteknum, heldur hafa þeir yfirleitt endað með náðun og ákvörðun um sektargreiðslur. Og ég hef ekki trú á því að í okkar fámenna þjóðfélagi verði stuttum varðhaldsdómum framfylgt almennt eftir orðanna hljóðan í framtíðinni, jafnvel þó að nægilegt húsrými væri fyrir hendi. Samkv. 50. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19 frá 1940, er hámark fjársektarákvæðis 30 þús. kr. og við þá ákvörðun skal hafa mið af efnahag sökunautar. En skv. lögum um ákvörðun fésekta almennt, nr. 14 frá 1948, skal lágmark og hámark sekta breytast eftir vísitölu sem kaupgjald er greitt eftir á hverjum tíma. Ég hef ekki reiknað út hvað hámarkið er orðið nú eða hvað þessar 30 þús. kr. eru orðnar nú miðað við þetta ákvæði, en ég hygg þó að það vanti talsvert á að það nái 500 þús. kr. sem minnst er á í 1. gr. þessa frv.

Frv. þetta — án þess að höfð séu um það mörg fleiri orð — gerir ráð fyrir því, eins og ég sagði áðan, að dómari hafi meira svigrúm til þess að velja á milli sektar og refsivistar er hann dæmir í málum út af ölvun við akstur og öðrum þeim málum er um hefur verið rætt og víkið að hér að framan. Í stuttu máli skal ég draga saman áhrif af þessu frv., ef samþ. yrði, á svipaðan hátt og gert er í niðurlagi grg.

Í fyrsta lagi má ætla að dómstólar landsins muni framvegis beita sektarrefsingu í málum út af ölvun við akstur og öðrum þeim málum út af umferðarlagabrotum þar sem varðhaldsrefsing er nú ákveðin, en dæma refsivist því aðeins að um grófari brot sé að ræða.

Í öðru lagi, þar sem hámark sekta er hækkað má einnig ætla að sektir fyrir umrædd brot muni verða hærri en sektir þær, sem nú eru settar sem skilyrði fyrir veitingu náðunar af varðhaldsrefsingu.

Í þriðja lagi má benda á að talsverðum hluta málanna ætti að mega ljúka með dómssátt. Slíkur afgreiðslumáti er miklu fljótvirkari, ódýrari og einfaldari en málshöfðun og dómur. Breytingin horfir þannig til hraðari afgreiðslu mála og stórléttir álag á dómstólana og starfsfólk þeirra sem að þessum ákvæðum breyttum gæti beitt sér meira að öðrum verkefnum.

Og í fjórða lagi telja flm. að refsiframkvæmd gæti með þessum hætti orðið mun fljótvirkari og einfaldari en nú er.

Það hefur ákaflega mikið að segja að mál séu afgreidd fljótt, meðan sektarvitund er vakandi og málsatvik öll í fersku minni. Það hefur önnur áhrif ef mál dragast á langinn. Þannig teljum við að frv. þetta stefni ekki að því að draga úr viðurlögum fyrir ölvun við akstur og önnur þau brot, sem hér er um að ræða, heldur einmitt að því að gera refsivörslu í þessum efnum virkari í reynd.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, en legg til, virðulegi forseti, að frv. þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.