20.10.1975
Sameinað þing: 4. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það fram, þar sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson, 2. þm. Austurl., taldi vinnubrögð ámælisverð að því er landhelgismálin snerti og tilnefndi þar sérstaklega skort á samráði og samvinnu við stjórnarandstöðuflokka og að ekki hefði verið haldinn fundur í landhelgisnefnd, að síðasti fundur í landhelgisnefnd fjallaði ítarlega um það hvernig vinnubrögð skyldu verða eftir útfærsluna í 200 mílur og sérstaklega hvort taka skyldi upp viðræður við aðrar þjóðir um þau vandamál sem þær teldu stafa af þeirri útfærslu. Þá kom fram skoðanaágreiningur í landhelgisnefnd. Menn gerðu grein fyrir afstöðu sinni og að því er búast mátti við flokka sinna skýrt og skilmerkilega, og þar á meðal lét hv. 2. þm. Austurl. í ljós að ekki bæri að ræða við aðrar þjóðir um útfærsluna.

Ríkisstj. tók aðra afstöðu og taldi rétt að ræða við þær þjóðir sem þess óskuðu. Ég þarf ekki að rökstyðja þá afstöðu nánar, en vil aðeins minna á að margvíslegir alþjóðasáttmálar og samningar, sem við íslendingar erum aðilar að, gera það að verkum að það er skylda okkar að standa þannig að málum ef deilumál rísa upp á milli okkar og annarra þjóða, og hér er um deilumál að ræða, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Því hefur ekki í raun og veru verið um fundarefni að ræða fyrir landhelgisnefnd síðan síðasti fundur var haldinn.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri nm. hafa orð á því að æskilegt væri að kalla nefndina saman, og þessi fyrstu orð, sem að því lúta, skulu líka verða til þess að nefndin verður kölluð saman, því að það hefur aldrei staðið á ríkisstj. að hafa samráð eða samvinnu við aðra flokka. En við litum þannig á að stjórnarandstaðan væri á þessu stigi búin að slíta samstarfi við ríkisstj. og ríkisstj. hlyti að halda stefnu sinni fram og hefja þær viðræður sem um er að ræða.

Það hefur ekki heldur verið efni til þess að halda sérstakan fund vegna skýrslugerðar um viðræður við breta. Höfuðatriði þeirra viðræðna hafa komið fram á opinberum vettvangi og við það er í raun og veru engu að bæta á þessu stigi málsins. En ég vil gjarnan láta koma hér skýrt í ljós, eins og ég hef raunar þegar tekið fram, að ríkisstj. hefur ákveðið að eiga viðræður við þær þjóðir, sem þess óska, um landhelgismálið. Þær viðræður fara fyrst og fremst fram á þeim grundvelli að 200 mílurnar verði í heild friðaðar sem allra fyrst. Þær undanþágur, sem hugsanlega kynnu að verða veittar, eiga að byggjast á því að stórfelldur samdráttur verði í afla erlendra skipa, erlendum fiskiskipum fækki mjög verulega, veiðisvæðin færist sem lengst frá landi og einkum verði lögð áhersla á að friða 50 mílurnar sem mest. Jafnframt verður ekki gengið til samninga nema til skamms tíma. Ég fjölyrði ekki frekar um það hvernig viðræðum verði háttað í einstökum atriðum, enda er ljóst mál að engir samningar eða samþykktir verða gerðar án þess að komi til umræðu og afgreiðslu hér á Alþ. Það, sem hér hlýtur að skipta mestu máli og úrslitum veldur, er hvort við losnum frekar og fyrr við erlend fiskiskip af Íslandsmiðum með samkomulagi eða án samkomulags.

Þá vil ég í tilefni af þeirri skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar, sem þingmönnum hefur verið send, taka fram að fyrr á þessu ári lá fyrir umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, og gerði hæstv. sjútvrh. mjög skilmerkilega grein fyrir áliti stofnunarinnar þegar hann hafði blaðamannafund í tilefni af undirritun reglugerðarinnar um útfærslu í 200 mílur 15. júlí s. l.

Í ágústmánuði gerði Hafrannsóknastofnunin skýrslu, sem byggt hefur verið á, en ríkisstj. taldi þá ekki nægilega skýra og óskaði því eftir að afstaða Hafrannsóknastofnunarinnar kæmi skilmerkilegar fram, og að frumkvæði ríkisstj. er þessi skýrsla sem dagsett er 13. okt. s. l. og er send hv. alþm. með bréfi 16. okt. s. l.

Það liggur í augum uppi að þessi skýrsla verður notuð sem rök við viðræðuaðila til að sýna þeim og sanna, hvernig ástandi fiskstofnanna við Ísland er komið, og til þess að fá þá til þess að skilja að veiðar þeirra á Íslandsmiðum geta ekki fram haldið eins og þeir hafa bersýnilega gert sér einhverja von um. Ég vil líka taka það fram að sjútvrh. hefur í huga að efna til ráðstefnu hér á Íslandi með fiskifræðingum og útvegsmönnum, sjómönnum og hagfræðingum, sem þessi mál láta sig skipta, til þess að fjalla um þessa skýrslu og skýra framkvæmdina svo sem mögulegt er í einstökum atriðum. Það liggur í augum uppi, að þessi skýrsla hlýtur að verða tekin til meðferðar hjá fiskveiðilaganefnd sem sjútvrn. hefur skipað og þingflokkar eiga fulltrúa sína í. Fiskveiðilaganefnd, sem hefur það starf með höndum að útbúa frv. til laga um hagnýtingu fiskveiðilögsögunnar, hlýtur að byggja tillögur sínar til Alþ. í veigamiklum atriðum á mati því sem fram kemur í þessari skýrslu.

Þá vil ég enn fremur láta það koma hér fram að í ríkisstj. hefur verið rætt um að æskilegt væri að efna til ráðstefnu fiskifræðinga, alþjóðaráðstefnu fiskifræðinga eða a. m. k. frá þeim löndum sem hafa sótt íslensk mið, hér á Íslandi, til þess að fram komi betur en endranær staða okkar og hagsmunir af fiskveiðum og verndun fiskstofnanna og leitt verði í ljós hvort við getum ekki fengið erlenda fiskifræðinga einnig til liðs við okkur í þessu máli.

Ég hygg að á þessu stigi málsins sé ekki ástæða fyrir mig að fjölyrða frekar um málið. Ég vænti þess að ég hafi svarað hv. 2. þm. Austurl. eins og fyrirspurnir hans gáfu tilefni til.