11.12.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

44. mál, frestun framkvæmda við Grundartangaverksmiðjuna

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun með glöðu geði verða við óskum hæstv. forseta um að tala ekki öllu lengur en mér þykir ástæða til um þetta mál.

Það má vera a. m. k. Ed.-mönnum minnistætt hvílík feikileg áhersla var lögð á það á Alþ. síðari hluta vetrar í fyrra að afgreiða málmblendimálið fyrir páska, til þess að hefjast mætti handa án tafar að skjóta hinum nýju stoðum undir atvinnuvegi þessa lands og fjárhag þess. Raunar lá svo mikið á að framkvæmdir voru byrjaðar uppi á Grundartanga áður en Alþ. hafði samþ. lagafrv., áður en Alþ. hafði veitt ríkisstj. heimild til þess. Og raunar hafði verið upplýst á einum af síðustu fundum iðnn. Ed., meðan enn þá var fjallað um þetta mál í Ed., að þá þegar var búið að ráða tæknilegan framkvæmdastjóra hinnar nýju verksmiðju, starfsmann Union Carbide í Noregi, — ráða framkvæmdastjóra þessarar verksmiðju áður en búið var að fjalla um málið í iðnn. Ed. Svo mikið lá á.

Ég ætla nú að hlífa hv. þm. við því að lesa hér upp allar óstyttar ræður mínar í Ed. gegn þessu frv. Flutningur þeirra mun hafa tekið samtals í kringum 6 klukkutíma. En ég ætla þó til þess raunverulega að gera mál mitt stutt að lesa hérna fyrstu málsgr. þeirrar ræðu sem ég flutti við 1. umr. um málið. En málsgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ég treysti mér ekki til þess að samþ. þetta frv. í þeirri mynd sem það birtist hér. Ég tel að rökstuðningurinn, sem fylgir frv. um hagsbætur sem okkur séu búnar af samningnum sem hér er áformað að gera við erlent auðfélag, séu ekki sannfærandi. Þvert á móti virðast mér líkur benda til þess að hann kynni að valda okkur tjóni, efnahagslegu, menningarlegu og pólitísku. Auk þess sé ég ekki betur en forsendur fyrir þessum samningi séu reistar á úreltu verðmæti, bæði efnahagslegu og siðferðilegu.“

Hv. þm. Jónas Árnason lýsti því áðan í ræðu sinni hversu rösklega voru rekin trippin síðustu dagana sem þetta mál var til meðferðar hér á hv. Alþ. og þá í Nd. Einmitt þennan síðasta dag þegar málið var hespað af til þess að Alþ. yrði sér ekki til skammar með því að vera ekki búið að afgreiða það þegar forstjórar Union Carbide kæmu hingað, — einmitt þann dag voru trippin rekin það rösklega að eitt þeirra datt ofan í fyrstu gryfjuna, sem grafin var uppi á Grundartanga, og hálsbrotnaði. Það var þegar búið að drepa hross í einni tilraunamógröfinni þeirra Carbides-manna efra áður en Alþ. var búið að samþ. að þarna yrðu nokkrar framkvæmdir. Ég vil ekki fara að nudda samþingsmönnum mínum upp úr því með hvaða hætti þeir brugðust við þessari málsmeðferð á Alþ., að þeir skyldu láta hafa sig til þess að samþykkja lagafrv. um framkvæmdir sem þegar voru byrjaðar í heimildarleysi Alþ. í því trausti, í því skjóli að þingmannalið stjórnarinnar, að hv. þm. Alþfl. meðtöldum, væri þess háttar mannval að ekki þyrfti að óttast að það greiddi ekki atkvæði eins og því var sagt að greiða atkv., blessaðir karlarnir, án tillits til málefnis og rökstuðnings, þó ekki væri nema vegna þess að það voru verkfræðingar og hagfræðingar og forstjórar erlends auðhrings sem sögðu þeim að þetta væri góður „bisness“ fyrir Ísland.

Við umr. um málmblendifrv. eða Carbides-frv., eins og það er kallað, var staðhæft af hálfu okkar Alþb.- manna að efnahag þessa lands og menningu þess væri búið stórtjón af þessu fyrirhugaða fyrirtæki og auk þess öllu lífi í landinu voði búinn af völdum mengunar sem frá því mundi stafa. Af hálfu stjórnarflokkanna, hæstv. iðnrh. sem studdist við tölvuskýrt álit verkfræðinga sinna, hagfræðinga sinna og heilbrigðissérfræðinga sína plús eldskýrt álit forstjóra Union Carbide var því haldið fram að með þessu fyrirtæki yrði rennt gildari stoðum undir efnahag landsmanna og það svo að jafnvel þótt um einhverja mengunarhættu væri að ræða, þá væri afsakanlegt að takast þá hættu á herðar. Svo þegar á leið umr. var kveðið enn þá sterkara að orði. Efnahagslegur ávinningur málmblendiverksmiðjunnar lá beinlínis á borðinu, gildur sjóður. Í sjálfri grg. með frv. var staðhæft að álit sérfræðinga ríkisstj. væri að lífi í landinu væri engin hætta búin af mengun frá fyrirhugaðri verksmiðju, mengun frá henni yrði svo lítil að hún yrði tæpast sjáanleg berum augum, jafnvel ekki í okkar tæra andrúmslofti, eins og komist var að orði í grg.

Það hefur ekki staðið steinn yfir steini í röksemdafærslu hæstv. iðnrh. og sérfræðinga hans í þessu máli. Þetta mál hafði ekki fyrr skroppið út um gáttir þessa virðulega húss, þetta frv. var ekki fyrr sloppið út um bakdyrnar, orðið að lögum, en málið var orðið að blóðugum skopleik. Nú blasir við okkur að hinn gífurlegi efnahagslegi ávinningur var raunverulega miklu minni en svo að hann sæist með berum augum, jafnvel í okkar tæra andrúmslofti. Ég er þakklátur fyrir það að þetta skyldi koma í ljós á undan seinni skekkjunni og þeirri hættulegri, því að hitt hefði komið í ljós og kæmi í ljós ef þessu máli yrði haldið áfram, að mengunarhætta hefði orðið jafngífurleg og ágóðavonin átti að verða. Sá voði, sem þessu landi var búinn og er búinn ef áfram yrði haldið liggur nefnilega á borðinu þrátt fyrir álit sérfræðinga ríkisstj.

Og nú liggur það jafnvel fyrir að seinka framkvæmdum við Sigöldu, eftir því sem okkur er sagt, að seinka kaupum á vélum til Sigöldu vegna þess að gullkvörnin mikla, málmblendiverksmiðjan á Grundartanga, hefur reynst fásinna. Við héldum því fram, Alþb.-menn, að það mundi borga sig að styrkja dreifikerfi raforku um landið, — þannig að koma mætti orkunni frá Sigöldu út um byggðir þessa lands til húshitunar og þjóðlegs iðnaðar — það mundi borga sig, þó að það borgaði sig ekki að koma upp Carbides-verksmiðju í Hvalfirði. Ég er sannfærður um að þetta er enn þá arðbært, og raunar hefur hækkun á olíu orðið slík síðan í fyrravetur að það fyrirtæki að dreifa raforkunni til húshitunar yrði a. m. k. 15% hagstæðara nú en það var þá.

Við höfum sem sagt ýmsar ástæður og margar til þess að fagna því að framkvæmdum við Carbides-verksmiðjuna í Hvalfirði hefur verið hætt um sinn og mjög ríkar ástæður til þess að krefjast þess að þeim verði alfarið hætt. Ég heyrði fyrir þrem dögum í viðurvist nokkurra hv. samþingismanna minna forustumenn úr íslenskum iðnaði staðhæfa að þeir gætu tekið við allri orku Sigöldu, ef þeir fengju hana á sams konar kjörum og málmblendiverksmiðjunni voru ætluð, til þess að nýta hana í íslenskum útflutningsiðnaði þar sem framleitt væri úr íslenskum hráefnum. Fyrir hálfum mánuði sat ég sem gestur ráðstefnu um íslenskan fæðubúskap sem haldin var hér í Reykjavík. Ráðstefnuna héldu félög búfræðikandídata og Verkfræðingafélagið. Þar kom það fram að hægt væri að taka við 90 mw. af raforku til framleiðslu á heykögglum að ári, samkv. útreikningi sérfræðinga sem hvergi koma nærri útreikningum á arðsemi málmblendiverksmiðjunnar. Samkv. útreikningum þeirra yrði kapítal, sem lagt væri í slíkar verksmiðjur, þ. e. a. s. heykögglaverksmiðjur fjórfalt arðgæfara en reiknað var með af hálfu hæstv. iðnrh. að málmblendiverksmiðjan gæfi þegar málið var til umræðu hér í sölum Alþ. í fyrravetur og áður en það kom í ljós, sem nú er komið í ljós, að arðurinn af þeirri verksmiðju yrði alls enginn. Fyrir liggja upplýsingar um að við gætum framleitt kraftfóður ekki aðeins handa okkur sjálfum, heldur til útflutnings í stórum stíl með mjög miklum hagnaði. En viðbrögðin við þeim upplýsingum, þeim sannindum sem nú liggja fyrir um málmblendiverksmiðjuna í Hvalfirði, að hún yrði óarðbær, að hún yrði tapfyrirtæki, — viðbrögðin við þeim sannindum eru þau að hætta þá við að kaupa síðustu vélasamstæðuna í Sigöldu.

Ég leyfði mér í andmælum mínum í Ed. gegn frv. um málmblendiverksmiðjuna að vekja athygli á þeirri áráttu sem sérfræðingum okkar um fjáröflun og verkfræðilegar framkvæmdir hefur verið að ná ekki í skottið á framvindunni, heldur að missa af síðasta strætisvagninum. Þar leyfði ég mér að segja, með leyfi hæstv. forseta: „Það er dálítið grátbroslegt að hugleiða það hvers konar áráttu tæknilegir ráðunautar íslenskra stjórnmálamanna í hagfræðilegum og verkfræðilegum efnum virðast hafa til þess að hrinda í framkvæmd þeim hugmyndum, sem virtust réttar, einmitt í þann mund þegar það er komið berlega í ljós að þær eru rangar, og hvað þeim virðist hætta til þess að endurtaka mistök sín.“

Tvisvar höfum við að ráðum hagspakra ráðamanna leyft minkarækt á Íslandi, í fyrra sinnið með þeim hörmulegu afleiðingum fyrir náttúrlegt dýralíf landsins sem aldrei verða að fullu bættar. Þegar þessar afleiðingar voru komnar í ljós, tjón hafði þegar verið unnið og þar með hagur þjóðarinnar versnað til mikilla muna, þá var minkarækt og innflutningur á minkum bönnuð með lögum. En að nokkrum árum liðnum, eftir að hafði frést um sinn að minkaskinn væru aftur komin í hátt verð í útlöndum, þá var minkainnflutningur leyfður öðru sinni ásamt minkarækt og talsvert fé lagt af mörkum til þess arna. Og svo hófst minkabúskapurinn öðru sinni í þann mund sem skinnin voru orðin verðlaus erlendis að kalla. Og nú ofan í reynsluna af stóriðjuverunum tveimur, kísilminkabúinu í Mývatnssveit og álminkabúinu í Straumsvík, þá leggja hagfræðingarnir okkar og verkfræðingarnir okkar að okkur að koma upp stálminkabúi á Grundartanga við Hvalfjörð, rétt í þann mund sem nægtakreppan er að leggja fjárhag iðnaðarríkjanna í rúst. Það kynni svo að fara að sú athugun, sem nú er verið að gera á fjárhagshorfum hins vandlega undirbúna fyrirtækis á Grundartanga, leiddi til þess að ákveðið yrði um sinn að hefja ekki framkvæmdir. Það gæti líka verið og við skulum vona að sú athugun leiði til þess að hætt verði endanlega við hana.

Ég vakti líka athygli á því í þessari ræðu minni að nú skortir matvæli í heiminum, en ekki stál, að hvergi heyrðist dauðsoltinn maður, ekki einn einasti maður af þeim 360 millj. sem taldir eru þjást af fæðuskorti í heiminum, — ekki einn einasti þeirra hefði heyrst hrópa á kísiljárn á dauðastund sinni, sér til bjargar.

Á fyrrnefndri ráðstefnu verkfræðinga og búfræðinga, sem ég sat mér til mikillar uppbyggingar í ráðstefnusal Hótel Loftleiða á dögunum, kom það fram að landsgæði okkar nægja til þess á landi og sjó að við getum brauðfætt 36 millj. manna með eggjahvítuefnafæðu ef við notum til þess orku landsins og vinnuafl fólksins sem þar býr — ef við notum orkuna til framleiðslu á matvælum og vinnuaflið til framleiðslu á matvælum, en ekki á kísiljárni. Við getum brauðfætt 36 millj. manna. Og leyfist mér svo enn að ítreka það, að það er ekki skortur á stáli í heiminum, það er skortur á mat. 360–400 millj. manna þjást af hungri. Yfir 100 millj. manna láta lífið árlega á besta aldri sökum hörgulsjúkdóma. Og það er talið að um 104 þús. börn blindist árlega í heiminum vegna skorts á eggjahvítuefnaríkri fæðu.

Ég kallaði málmblendiverksmiðjufyrirtæki ríkisstj. og Union Carbide áðan blóðugt skop. Ég ætla að víkja aðeins nokkrum orðum að veru þess eins og hún blasir við okkur í dag.

Fyrsta verk stjórnar járnblendiverksmiðjunnar, þessa fósturbarns Seðlabankans, var eins og frá hefur verið sagt, að semja við verðugan fulltrúa einkaframtaksins á þessu landi um að taka að sér undirbúningsframkvæmdir þar efra. Það var einmitt í þann mund sem Seðlabankinn var að byrja fyrir alvöru að herða á eftirliti eða baráttu gegn útgáfu innistöðulausra ávísana. Verktakanum auðnaðist með undraskjótum hætti að leysa fyrsta efnahagsvandamál járnblendiverksmiðjunnar, sem stóð í nokkurn veginn beinum tengslum við launagreiðslur til íslendinga, með hagfræðilegu bragði sem ekki mundi kannske að öllu leyti samrýmast baráttu Seðlabankans gegn útgáfu falsaðra ávísana. Og stoðirnar, sem járnblendifélagið, málmblendifélag ríkisstj. hefur reist undir efnahag þjóðarinnar, eru, ef svo má segja, öfugar stoðir, því að þar eru holur ofan í jörðina. Þar hefur verið reistur, eða mætti öllu fremur segja að þar hafi verið grafinn óbrotgjörn eða ófyllt minnisgröf um snilld núv. ríkisstj. með stuðningi krata í efnahagsmálum þessarar þjóðar. Hitt er svo enn annað alvörumál, að hugleiða með hvaða hætti efnahagslegir og verkfræðilegir ráðunautar ríkisstj. hafa komist að jafnklóklega röngum niðurstöðum og raun ber vitni í þessu máli, ekki einu sinni í 5 ára undirbúningsstarfi, heldur tvisvar: í gerð frumáætlunar sem reyndist röng, svo sem hæstv. iðnrh. sagði okkur frá áðan og svo sem alþm. má vera í fersku minni frá upphafi umræðnanna um þetta mál á þingi í fyrra, og síðan við gerð þeirrar áætlunar sem lögð var til grundvallar lagafrv. því sem hv. Alþ. álpaðist til að samþ. í fyrravetur með þeim afleiðingum sem nú blasa við okkur. Ég tek undir þá kröfu hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar að það verði fleiri látnir sýsla um þá rannsókn, sem nú á að gera á horfum þessa fyrirtækis, heldur en þeir sérfræðingar einir sem gerðu hinar tvær vitlausu áætlanirnar.

Ég sagði við umr. um þetta mál í fyrra, þegar ég ræddi um mistökin sem orðið hefðu í sambandi við erlenda auðhringa áður, að ég vildi hvorki kalla sérfræðingana né heldur stjórnmálamennina, sem fjölluðu um þetta mál, fífl eða fanta, ég gæti sæst á hugmyndina um jólasvein, þó vil ég ekki gera það að svo komnu máli. Ég vil ekki heldur kalla þá sérfræðinga og þá stjórnmálamenn, sem ferðinni réðu í sambandi við málmblendisamningana, neinum slíkum nöfnum. En ég vil fá skýringu á þessum mistökum, beinlínis til þess að ég geti áttað mig á því hvort það sé nokkuð meira mark takandi á því, sem þeir segja nú um orsakir mistakanna, heldur en því sem þeir sögðu áður.

Mikill hagnaður, sögðu þeir, og engin mengun, meira að segja svo lítil að hún kemur ekki til með að sjást með berum augum, jafnvel í okkar tæra andrúmslofti. — Við alþb.-menn sögðum: Enginn hagnaður, mikil mengun. En þeir sögðu sem sagt: Mikill hagnaður, engin mengun. Nú er það komið í ljós, sem þeir viðurkenna, að það er enginn hagnaður, og ég lofa guð fyrir það að þar af leiðandi mun ekki reyna á seinna atriðið. Orsakirnar fyrir þessum mistökum vitum við ekki, hvort það gæti hugsast að það hafi orðið einhver gatamistök við tölvuna og þeir hafi fengið mengunarsvarið út um hagnaðargatið og hagnaðarsvarið út um mengunargatið. Einhvers konar orsakatengsl af þessu tagi eru kannske hugsanleg, þetta er kannske hugsanlegt. Ég hlýt að játa að ýmislegt af því, sem hv. stuðningsmenn járnblendiverksmiðjunnar létu sér um munn fara á þingi þegar þetta mál var rætt þar, hefði hljómað meira sannfærandi ef það hefði komið út um annað gat. Sannleikurinn er sá, að að þessu málmblendimáli var unnið af svo grómteknum óheiðarleik og skefjalausri frekju hér á hv. Alþingi að til fádæma hlýtur að teljast. Og svo aðeins tvær spurningar í lokin: Hafið þið, hæstv. ráðherrar, enn þá norska karbítsmanninn á launum hjá járnblendifélaginu? Ef svo er, hver eru laun hans? Seinni spurningin: Hvað ætlið þið að gera við 280 milljónir sem ætlaðar eru í fjárlagafrv. handa þessu fyrirtæki? Er ríkisstj. hugsanlega til viðtals um að veita dálítið af þessari upphæð til graskögglaverksmiðjunnar sem þingeyskir bændur ætla að koma upp í Saltvík til hagnýtingar á heita vatninu þar til að framleiða kraftfóður? Eftir því sem ég best veit hefur það mál ekki fengið sæmilegar undirtektir af hálfu ríkisstj. fram að þessu.