12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Síðdegis í gær heyrðum við hæstv. dómsmrh. segja í Sþ. frá þeim válegu tíðindum er þrír breskir dráttarbátar undir fána hennar hátignar Elísabetar II. bretadrottningar voru látnir sigla inn í mynni Seyðisfjarðar og sitja þar fyrir varðskipinu Þór þeirra erinda að sigla það niður eða skemma það að öðrum kosti svo að það kæmi okkur ekki að gagni við gæsluna. Áður var það kunnugt og kom engum á óvart að hlutverk dráttarbátanna bresku á Íslandsmiðum er einmitt þetta, að sigla á varðskipin okkar og eyðileggja þau og létta þannig af bandalagsþjóð okkar í Atlantshafsbandalaginu, varnarsamtökum frjálsra og friðelskandi lýðræðisþjóða, eins og þetta bandalag heitir tíðum í stjórnarblöðunum, létta af henni þeirri óþægilegu nauðsyn eða kvöð að þurfa að beita fallbyssum herskipa sinna í sama skyni.

Ásiglingin kom okkur sem sé ekkert á óvart. En hitt var nýtt í málinu, eins og hæstv. dómsmrh. vakti athygli á, að bresku dráttarbátarnir skyldu sendir inn í hina eiginlegu landhelgi Íslands þessara erinda, inn fyrir elstu landhelgislínuna, aldamúraða þriggja sjómílna landhelgi.

Á þingfundinum í gær hafði hæstv. dómsmrh. ekki fengið nægilega glöggar upplýsingar um atburðina, en sagði þingheimi frá því sem hann gjörst vissi. Þá var heldur ekki, er hann stóð í ræðustól, við því að búast að viðbrögð ríkisstj. yrðu ljós um sinn. Í gærkvöldi, eftir að ljóst var orðið hvað raunverulega hafði skeð og ríkisstj. hafði gefið sér tóm til að fjalla um málið, þá væntum við þess hins vegar að frétta um eðlileg viðbrögð af hálfu stjórnvalda. En svo var ekki. Sú von brást. Forsrh. greindi frá því í útvarpsviðtali að ríkisstj. Íslands mundi bera fram hin öflugustu mótmæli. Hann greindi frá því í útvarpsviðtali í gærkvöld, mælti þarna í stuttu máli, yfirveguðu, dálítið höggvandi og þó ekki af hita — um að gera að reiðast ekki, — og áherslan lögð á þetta atriði: að atburðurinn í mynni Seyðisfjarðar sýndi glöggt hver hætta væri á miðunum á meðan þessi deila stæði enn þá, — andinn í ræðu hans, tónninn í máli hans allur á þá lund að hvetja til samninga.

Síðan var svo greint frá því í útvarpsfréttum að ákveðið hafi verið að kæra til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins. Greint var frá því að samkomulag hefði orðið um þessar aðgerðir í utanrmn. Einnig var það haft eftir hæstv. dómsmrh., Ólafi Jóhannessyni, sem sat fund utanrmn., að fleiri aðgerðir kæmu til greina er hann mundi greina frá síðar, en þó ekki fyrr en eftir heimkomu og viðræður við utanrrh., Einar Ágústsson, sem enn þá — takið eftir — enn þá í dag var á fundi utanrrh. Atlantshafsbandalagsins í Brüssel. Það eru sem sagt þessar aðgerðir sem íslendingum er nú ætlað að sætta sig við af hálfu ríkisstj.

En okkur er ætlað að sætta okkur við fleira. Svo sem þingheimi er kunnugt hringdi hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson til Brüssel um þrjúleytið í gær að eigin sögn og sagði utanrrh. okkar frá því sem mestu máli skipti af atburðunum í mynni Seyðisfjarðar, að þrír breskir dráttarbátar hefðu verið sendir þangað inn til þess að sigla á varðskip. Eðlileg viðbrögð af hálfu utanrrh. hefðu verið þau að hann hefði látið ofan í töskurnar sínar og haldið rakleitt heim til Íslands með þau orð á vör að í svona félagsskap eins og hernaðarbandalagi með bretum ætti hann ekkert erindi. Slíkt hefðu verið eðlileg viðbrögð og hefðu jafnvel getað flokkast ásamt ýmsu öðru undir það sem við köllum hin hörðustu mótmæli. Nú liggur að vísu ekki fyrir okkur ræða sú sem hæstv. utanrrh. flutti á fundi utanrrh. NATO í gær, hún liggur ekki fyrir hv. alþm. á þessum degi, sem vitaskuld er vítavert, en sýnir okkur rétt einu sinni vaskleika utanríkisþjónustu okkar í málefnum þessarar vesalings þjóðar. En þótt ræða þessi liggi hér ekki á borðum í dag, þá höfum við fyrir okkur opinberar fréttir um að hæstv. utanrrh. hafi ekki í þeirri ræðu, sem hann flutti á fundi utanrrh. Atlantshafsbandalagsins í Brüssel í gær, minnst á það einu orði að breski flotinn sendi nú skip inn í sjálfa landhelgi okkar, inn í íslenska firði til þess að granda varðbátunum okkar. Ræðan liggur ekki fyrir, eins og ég segi, en sé þetta rétt sem sagt er í opinberum fjölmiðlum sem ég vona vissulega að reynist ekki rétt, sem sagt að hæstv. utanrrh. hafi ekki komið inn á þetta mál í ræðu sinni á NATO-fundinum í Brüssel í gær eftir þó að hæstv. forsrh. hafði sagt honum frá þessu, þá mun ekkert það sem hann kann ella að hafa sagt í þessari ræðu sinni og ekkert það sem hann kann að hafa sagt á NATO-fundi í dag nægja til þess að geta flokkast undir það sem kalla má öflug mótmæli. Og eitt er þó ótalið enn sem er verst og gerir það að verkum að allt tal af hálfu ríkisstj., allar yfirlýsingar um Pólitískar aðgerðir í þessu máli á alþjóðavettvangi, allar staðhæfingar ráðh. um einurð í málinu með viðeigandi raddblæ og svipbrigðum, allt þetta verður marklaust fyrir bragðið, ef rétt reynist sem af Brüssel-fundinum er hermt um enn annað mál. Það er sagt í opinberum fréttamiðlum, þ. á m. í aðalmálgagni ríkisstj., Morgunblaðinu, og í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöld tvisvar, að Einar Ágústsson hafi klykkt út með því á Brüssel-fundinum í gær að bjóða bretum að veiða 65 þús. tonn á miðunum okkar. Í fyrri fréttasendingu íslenska Ríkisútvarpsins var að vísu sagt að hann hefði boðið þeim 75 þús. tonn, en það var leiðrétt skömmu síðar og sagt að það hefðu ekki verið nema 65 þús. tonn. Þetta hafði hann boðið utanrrh. breta. Þetta hafði hann sagt og ítrekað í viðtali sínu við fréttamenn í Brüssel í gær. Svo að ég vitni aðeins í frásögn aðalmálgagns ríkisstj., Morgunblaðsins, af fundi hæstv. utanrrh. Einars Ágústssonar með blaðamönnum að loknum viðræðunum við Callaghan, utanrrh. breta, í gær, þá greindi hann frá því, segir í Morgunblaðinu, að boð íslendinga um að bretar fengju að veiða 65 þús. lestir við Ísland hefði verið harðlega gagnrýnt á Íslandi sem allt of rausnarlegt, bretar hefðu viljað fá 110 eða 100 þús. lestir. Síðan sagði hæstv. utanrrh. Einar Ágústsson: „Ef farið er fram á meira en 65 þús. lestir hlýtur svarið að verða nei,“ að því er aðalmálgagn ríkisstj., Morgunblaðið, hermir. Þetta sagði hæstv. utanrrh. Einar Ágústsson í Brüssel í gær.

Ég fer þess hér með á leit að hæstv. dómsmrh. Ólafur Jóhannesson segi þm. í þessari hv. d. nú þegar hvort hér sé rétt frá greint., að hæstv. utanrrh. hafi gert utanrrh. breta þetta boð í gær. Svo sem hv. þm. þessarar d. má vera í fersku minni, þá lýstu hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson og hæstv. utanrrh. Einar Ágústsson yfir því ljósum orðum hér í þinginu fyrir nokkrum dögum, í Sameinuðu bingi í umræðunum um þýska samninginn, þegar rætt var um innrás breska hersskipa í auðlindalögsögu okkar, að 65 þús. tonna tilboðið til breta stæði ekki lengur. Þeir lýstu yfir því með ljósum orðum og það sem meira er, ýmsir af stuðningsmönnum ríkisstj. í þessu máli hér á hv. Alþ. létu í ljós að þessi yfirlýsing hæstv. ráðh., forsrh. og utanrrh., um að 65 þús. tonna boðið til breta stæði ekki lengur, þessi yfirlýsing af þeirra hálfu ætti sinn þátt í því að þeir treystu sér til að greiða atkv. með þýska samningnum. Þá var það ítrekað æ ofan í æ í þeim umræðum að ekki yrði rætt við breta meðan þeir beittu herskipum á Íslandsmiðum, og forsrh. og utanrrh. sögðu báðir ljósum orðum að 65 þús. tonna tilboðið til þeirra stæði ekki lengur. Svo fáum við þær fréttir að Einar Ágústsson utanrrh., — sem lýsti eindregið yfir því, svo sem hæstv. ráðh. Ólafur Jóhannesson forðum, að hann færi alls ekki utan þeirra erinda að semja, — að Einar Ágústsson utanrrh. hafi í gær, eftir að fréttin barst honum um atferli breta í Seyðisfjarðarmynni gert breska ráðh. tilboð um 65 þús. tonna afla í landhelginni okkar. Reynist þessi frétt sönn, þá skulum við hætta að tala um öll mótmæli, þá getum við sparað okkur allar kærur til alþjóðlegra stofnana og þá er okkur líka best að binda varðskipin okkar inni á höfnum. Ég vona svo sannarlega að þessi frétt reynist röng og ef vera skyldi að þessi tala, 65 þús. tonn, skyldi af áráttu rétt einu sinni — bara af áráttu — hafa dottið upp úr hæstv. utanrrh. eins og áður hefur verið gefið í skyn, þá verði því lýst yfir af hálfu ríkisstj.hæstv. utanrrh. hafi ekki haft umboð til þess að nefna þessa tölu og gera hana að tilboði.

Við skulum gera okkur grein fyrir því hvernig þetta tilboð hæstv. utanrrh. — ef rétt reynist — hlýtur að verka og skulum þá í bili alveg sleppa þeirri staðreynd að stjórnarflokkarnir hafi dreift þeim sögum milli óánægðra fylgismanna sinna að bretum yrðu ekki heimilaðar neinar fiskveiðar á miðunum okkar. Við skulum sleppa því alveg í bili, en gera okkur grein fyrir því hvernig svona tilboð af hálfu íslensku ríkisstj. muni verka á breta núna.

Það var ljóst eftir umr. hér á Alþ. á dögunum að ríkisstj. hafði afturkallað tilboð sitt um 65 þús. tonna afla handa bretum vegna valdbeitingar þeirra innan 200 mílnanna. Þetta var ljóst, það heyrði allur þingheimur, og bretar höfðu fengið þau skilaboð gegnum sendiráð sitt og bresk blöð sem höfðu greint frá þessum ummælum ráðh. að 65 þús. tonna tilboðið gilti ekki lengur vegna þess að bretar sendu herskip inn á fiskislóðina okkar. Og af skiljanlegum ástæðum var það túlkað á þá lund að ef eitthvað gilti, ef eitthvað kæmi til mála, þá væri það eitthvað miklu minna, en 65 þús. tonna tilboðið gilti ekki lengur.

Síðan þessi yfirlýsing var birt af hálfu hæstv. ráðh., forsrh. og utanrrh., vörðu íslensku varðskipin landhelgina svo knálega með klippum sínum og sjómennsku í nokkra daga að bresku togararnir gátu lítið sem ekkert veitt þrátt fyrir vernd herskipa og dráttarbáta. Þá sendu bretar þrjá dráttarbáta með tilvísan njósnavéla sinna inn í landhelgi okkar, inn í mynni Seyðisfjarðar, til þess að sitja fyrir einu varðskipanna og koma því fyrir kattarnef og sá leikur tókst að verulegu leyti. Og hver eru svo hin raunverulegu viðbrögð íslensku ríkisstj. að öllu hjali slepptu? Hæstv. utanrrh. bregst þannig við, í sömu andránni og hann hefur heyrt tíðindin í síma af vörum hæstv. forsrh., hann bregst þannig við í sömu andránni og hann fær þessi tíðindi að hann býður bretum að veiða 65 þús. tonn innan nýju fiskveiðilögsögunnar, innan 50 sjómílnanna. Þetta 65 þús. tonna tilboð er sem sagt uppskera breta af því sem þeir höfðu sáð í mynni Seyðisfjarðar í gær. Þetta var árangurinn. Svör breta við tilboðinu komu fram hjá Callaghan utanrrh. breta á blaðamannafundinum í Brüssel í gær þegar hann greindi frá íslenska tilboðinu — eins og hann kallaði tölu þá, 65 þús., sem hraut af vörum íslenska utanrrh. Þegar hann greindi frá íslenska tilboðinn sagði hann að enn bæri mikið á milli, bretar færu fram á 100–110 þús. tonn, íslendingar byðu ekki nema 65. Þetta voru viðbrögð breta við tilboði Einars Ágústssonar utanrrh.

Hér erum við sem sagt að fjalla um hin öflugu mótmæli íslensku ríkisstj., eins og hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson hefur orðað það.

Afleiðingin af þessum alvarlegu mótmælum íslensku ríkisstj., þessu tilboði um 65 þús. tonn, verður einfaldlega sú að breskir togaraeigendur með flota hennar hátignar að baki sér segja einfaldlega sem svo: Þetta tókst prýðilega. Hér erum við búnir að koma íslendingum aftur upp í 65 þús. tonn af þorski. Við erum búnir að fá út úr þeim aftur tilboð um 65 þús. tonn af þorski, Nú höldum við bara áfram og tökum eitt varðskip í viðbót og sjáum hvort við komum þeim ekki upp í 75 þús. tonn, ef ekki beinlínis upp í 90 þús. tonn eða miðlínuna á milli kröfu breta og tilboðs íslenska utanrrh.

Er þetta satt, að hæstv. utanrrh. hafi svarað árásinni á Þór í gær með því að bjóða bretum 65 þús. tonna afla á miðunum okkar — eða, eins og hæstv. ráðh. kynnu kannske heldur að vilja orða það, að hann hafi nefnt töluna 65 þús. tonn í þessu sambandi?

Við erum í Atlantshafsbandalaginu og erum búnir að vera þar lengi, hernaðarbandalagi með bretum. Ég hef spurt síðan veturinn 1949: Til hvers? Síðari árin hefur ekki þurft að spyrja af því að ég hafi ekki vitað svarið sjálfur. En ég hef spurt stundum í þeirri von að aðrir fengju að heyra svarið. Til hvers? Ég nenni ekki að vitna í fjölmargar yfirlýsingar forustumanna þessarar þjóðar í senn 27 ár um tilganginn með því að vera í Atlantshafsbandalaginu og tilgang okkar með því að heimila því kompaníi herstöðvar á Íslandi. Ég veit ekki um Nd. En ég efast um að það finnist svo heimskur og fávís íhaldsmaður í Ed. að hann viti ekki hvers vegna, að hann hafi ekki haft spurnir af þeim yfirlýsingum íslenskra ráðamanna í 27 ár, enda þótt slíkir menn láti sig sjálfsagt að öðru leyti litlu skipta ástæðurnar. Ég er ekki beinlínis að fiska eftir játningu af hálfu þessara manna nú, þeirri játningu að við séum í Atlantshafsbandalaginu í allt öðrum tilgangi en þeim að verja Ísland, að við höfum hér herbækistöðvar í allt öðrum tilgangi en þeim að tryggja öryggi landsins gegn vopnuðum óaldarlýð, – ég er ekki að fiska eftir þess háttar játningum. Og ég ætlast raunar ekki til þess að formælandi ríkisstj. segi hér neinn sannleika um neitt sem máli skiptir annað en þetta: Hæstv. ráðh , er það satt að utanrrh. Einar Ágústsson hafi í gær boðið breska utanrrh. 65 þús. tonna afla af miðunum okkar eða — svo að við orðum það öðruvísi — nefnt 65 þús. tonn af íslenskum fiski sem hugsanlegan samkomulagsgrundvöll í deilu okkar við breta?