12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu persónubundið hvað menn telja eðlileg og náttúrleg fyrstu viðbrögð af hálfu stjórnvalda við þeim atburði sem gerðist á Seyðisfirði í gær. En ríkisstj. og hv. utanrmn. voru sammála um að þær aðgerðir, sem þar voru samþykktar: að kæra til Öryggisráðsins og einnig að kæra til Atlantshafsráðsins, væru eðlileg fyrstu viðbrögð. En jafnframt komu fram á fundi utanrmn. ábendingar um fleiri atriði og frá því skýrði ég Ríkisútvarpinu, sagði hins vegar að ég gæti ekki gefið upp hver þau hefðu verið, en bætti því reyndar við að á Alþ. hefði það komið fram í umr. í gær að bent hefði verið á stjórnmálaslit. Ég held að það hafi verið skýrt alveg rétt frá þessu í útvarpinu og þess vegna fannst mér þetta skolast dálítið til hjá hv. fyrirspyrjanda þegar hann skýrði frá því. Ég sagði aldrei að ég mundi skýra frá þessum atburðum þegar utanrrh. kæmi heim, heldur að ég teldi eðlilegt að það væri ekki tekin ákvörðun um þessi atriði fyrr en utanrrh. væri kominn heim.

Þó að það sé hægt kannske að segja að ég afgreiði eða skrifi undir eitthvað sem þarf að gera þegar utanrrh. er ekki við, þá er hér um svo stutta dvöl hjá honum að ræða erlendis að það hefði verið mjög óeðlilegt að mínum dómi — og þá tek ég enga afstöðu til þess hvort það eigi að gera það eða ekki — en það hefði verið mjög óeðlilegt að fara að ákveða stjórnmálaslit við ríki að utanrrh. fjarverandi. Það verður vafalaust haldinn fundur í utanrmn., þegar utanrrh. er kominn heim og þar verða þau atriði vafalaust rædd sem komu fram á fundi í utanrmn. En ég skal ekkert segja um það hvernig ákvarðanir verða um það efni. Ég læt því algjörlega ósvarað hér. En sem sagt, um þessi viðbrögð sem hin fyrstu viðbrögð voru allir nm. á einu máli.

Það er misskilningur hjá fyrirspyrjanda að hæstv. forsrh. hefði talað við utanrrh. áður en hann flutti ræðu sína í gær. Það stóð einmitt svo á þegar forsrh. náði sambandi við utanrrh. að hann hafði flutt sína ræðu, og þess vegna gat hann ekki í þeirri ræðu komið að frásögn um þá atburði sem átt höfðu sér stað á Seyðisfirði. Það gerði hann hins vegar í ræðu sem hann hélt í morgun á fundinum og skýrði frá þeim, að ég ætla rækilega, og ég vona að það hafi einnig komið fram í fréttum að það hafi hann gert.

En aðalatriðið og það sem hv. þm. Stefán Jónsson spurðist fyrir um, var þetta: hvort utanrrh. hefði gert bretum eða breska utanrrh. eitthvert tilboð um 65 þús. tonna afla. Því get ég svarað alveg hiklaust að hann hefur ekkert tilboð gert — ekkert tilboð gert um neinn afla, og ég hygg að bað hafi reyndar komið skýrt fram í viðtali sem utanrrh. átti við fréttamann útvarps og flutt var hér í dag. (Gripið fram í.) Hann tók fram, eftir því sem ég veit best, í ræðu sinni í gær að þetta tilboð — ef menn vilja segja að það hafi verið tilboð — á sínum tíma um 65 þús. tonn væri afturkallað og stæði ekki lengur. Og ég hygg að það sé það sem hefur komið fram í ræðu hans. Ég hygg að hið sama hafi komið fram á blaðamannafundi sem hann hélt á eftir. Má þó vel vera að frásagnir af þeim fundi séu með eitthvað mismunandi hætti eða blæ, og ég tek að sjálfsögðu enga ábyrgð á því hvað fram hefur komið í frásögnum blaðamanna. Þar getur sannast hið fornkveðna, að seint er um langan veg að spyrja um sönn tíðindi og það getur margt skolast í slíkum frásögnum. En hitt er mér óhætt að fullyrða, að hæstv. utanrrh. hefur engin tilboð gert á þessum fundi og ekki tekið þátt í neinum samningum.