12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

98. mál, lækkun lögbundinna framlaga á fjárlögum

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. d. hefur fjallað um frv. til l. um lækkun lögbundinna framlaga á fjárlögum. Frv. þetta gerir ráð fyrir því, að heimilt sé að lækka tiltekin framlög á fjárlögum áranna 1976 og 1977 um allt að 5%. Í hvaða tilgangi þetta er gert hefur hins vegar ekki fengist upplýst, hvorki frá þeim, sem flytja þetta frv., né af hv. frsm. meiri hl. n., sem var ákaflega stuttorður í sinni ræðu, og verð ég að segja að mig undrar að þetta einkennilega frv. skuli fram komið.

Í n. var óskað upplýsinga um það hvaða afleiðingar þetta frv. hefði ef það yrði að lögum. Ráðuneytisstjóri fjmrn. gaf þær upplýsingar að ætlunin væri að spara 276 millj. kr. með samþykkt þessa frv. á árinu 1976, þar af 100 millj. vegna ýmissa lögbundinna framlaga og 175 millj. vegna framlaga til vegagerðar. Þó var það helst að heyra á umræðum manna á fundinum að allt væri í óvissu um það hvort um yrði að ræða niðurskurð á framlögum til vegagerðarmála, eins lítil og þau eru nú orðin, og ef svo yrði, þá yrði þarna aðeins um 100 millj. kr. sparnað að ræða. Ég verð að segja það að mér finnst þessi sparnaðarviðleitni ríkisstj. afskaplega tilviljunarkennd og einkennileg, að ekki sé meira sagt.

Til þess að upplýsa svolítið frekar um það, hvað hér er haft í huga, vil ég nefna hér nokkur þau sparnaðaráform sem liggja að baki þessu frv. Í fyrsta lagi hugsar ríkisstj. sér að spara framkvæmd sundskyldu í skólum, sem nemur 1905 þús. kr. Hún ætlar að spara framlag í Húsfriðunarsjóð sem nemur 217 þús. kr. Hún ætlar að spara framlag til Kristnisjóðs sem nemur 315 þús. kr. og spara framlag í Kirkjubyggingasjóð sem nemur 500 þús. kr. Eins ætlar hún að draga við sig framlög til ýmissa sjóða, svo sem Iðnrekstrarsjóðs, Iðnlánasjóðs, Lífeyrissjóðs bænda, Atvinnuleysistryggingasjóðs, Bjargráðasjóðs, Lánasjóðs sveitarfélaga, Byggingarsjóðs verkamanna, Fiskveiðasjóðs, Aflatryggingasjóðs og fleiri sjóða. Það eru aðallega ýmiss konar sjóðir af þessu tagi sem verða fyrir barðinu á þessu einkennilega frv., og það eru sem sagt 5% sem skorið er niður um í öllum tilvikum.

Ég vil minna hv. þm. á það að í verðbólguþjóðfélagi gerist það að sjóðir verða smærri og smærri, og einmitt þeir sjóðir, sem ég hef nú nefnt, líða fyrir það að eiginframlag ríkisins til þeirra hefur farið hlutfallslega mjög minnkandi miðað við umsvif sjóðanna. Fyrir tveim árum var ákveðið að hækka verulega framlög ríkisins til Iðnlánasjóðs og til Fiskveiðasjóðs. Þau voru hækkuð upp í 50 millj. í hvorn sjóð og þótti ekki af veita. Síðan sú ákvörðun var tekin hefur verðbólgan í þjóðfélaginn aukist um líklega nærri 100%, en í stað þess að nú er bersýnilega þörf á því að auka við eigið fé þessara sjóða og að bæta við framlög ríkisins til þeirra þannig að þeir geti raunverulega gegnt skyldu sinni og rýrni ekki úr hófi fram vegna þess að þessir sjóðir þurfa að greiða mikla vexti og verða fyrir ýmiss konar skakkaföllum, — það getur verið mjög varasamt að eigið fé þeirra sé mjög lítið, — en í staðinn fyrir að reyna að tína eitthvað fjármagn til svo að hægt væri að bæta við eigið fjármagn sjóðanna, sem er bersýnilega það sem er brýnast í svipinn, þá kemur hér till. um að skera niður 1/20 part af framlagi ríkisins í hvern sjóð. Það þarf áreiðanlega ekki mikla fjármálaspekinga til að sjá að þetta er algjörlega tilviljunarkennd ákvörðun sem styðst ekki við nein skynsamleg rök, heldur er bara sett á blað af einhverjum skrifborðsmönnum sem hugsa með sér: Við höfum ákveðið að fjárlögin skuli lækka hlutfallslega. Við þurfum að skera af öllum liðum. Eigum við ekki bara að taka alla þessa sjóði og skera þá niður um 5%, hvort sem við munum svo í raun og veru gera það eða ekki. — Þó að ég geti nú ekki sagt að álit mitt sé mikið á núv. ríkisstj., þá hef ég samt ekki svo slæmt álit á henni að halda að hún láti sér detta í hug að láta þessi lög koma til framkvæmda. Svo vitlausir eru okkar ágætu ráðh. ekki. En hitt er annað mál, að mönnum þykir það henta í áróðurstilgangi að veifa plaggi eins og þessu, að það sé verið að lækka þessi framlög, og þess vegna er Alþ. látið samþykkja þessi heimildarákvæði.

Ég sem sagt undirstrika það hér, að það er ekki nóg með að þetta sé afskaplega heimskuleg löggjöf sem hér er farið fram á að hv. Alþ. samþykki, heldur eru þetta líka vafalaust hrein sýndarvinnubrögð og ekkert annað. Af þessum ástæðum teljum við, sem skipum minni hl. n., að eðlilegast sé að fella þetta frv.