12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

98. mál, lækkun lögbundinna framlaga á fjárlögum

Frsm. meiri hl. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Þegar frv. til fjárlaga fyrir árið 1976 var lagt fram skýrði hæstv. fjmrh. í framsöguræðu sinni með frv. frá ýmsum ráðstöfunum sem þyrfti að gera og þyrfti að lögfesta til þess að sú stefnumörkun, sem felst í frv., næði fram að ganga, og þar á meðal var að afla sér heimilda Alþ. um lækkun á lögbundnum framlögum í fjárlögum. Þetta frv., sem hér er til umr. og hefur verið lagt fram, er eingöngu staðfesting á þessari ákvörðun ríkisstj. í sambandi við það að reyna að hafa einhvern hemil á vexti ríkisútgjaldanna, er einn liðurinn í því.

Ég vil benda hv. dm. á að hér er fyrst og fremst um heimildarlög að ræða. Okkur var það ljóst öllum sem eigum sæti í hv. fjh.- og viðskn. þessarar virðulegu d. að ef þessi heimild yrði notuð til hins ítrasta mundu margir liðir, sem að vissu leyti eru mjög þarflegir, verða fyrir skerðingu, og við vorum einhvern veginn þess meðvitandi og höfðum það mikið traust á hæstv. núv. fjmrh. að við töldum að hann og ríkisstj. mundu beita þessum heimildarlögum af víðsýni og skilningi þannig að þau yrðu ekki notuð til hins ítrasta.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að lýsa stuðningi mínum við þá miklu umhyggju fyrir kristnihaldi og kirkjubyggingum í þessu þjóðfélagi sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, og skal ég af veikum mætti styðja það að þar verði sem minnst skert fé úr hinum almenna ríkissjóði.

Að öðru leyti held ég að við verðum, eins og ég tók fram áðan, að vísa til ræðu hv. fjmrh. og stefnumörkunar ríkisstj. þegar fjárlagafrv. var lagt fram. Þetta frv. er bein afleiðing af þeirri stefnu sem þá var mörkuð, og því taldi ríkisstj. nauðsyn að afla sér þessarar heimildar. Ég legg áherslu á að hér er um heimild að ræða og fer það að sjálfsögðu fyrst og fremst eftir ákvörðun hlutaðeigandi yfirvalda að hve miklu leyti slík heimild verður notuð.