12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka hér upp deilur við hv. þm. Albert Guðmundsson um tekjujöfnun og jöfnun á aðstöðumun í þessu þjóðfélagi. Ég þykist vita að við séum þar ekki á sama máli, og ég er því vissulega fylgjandi að innheimta skatta og það allmikla skatta til þess að jafna mun fólksins í landinu. Það ætla ég ekki að fara dult með hvort sem hv. þm. vill kalla það sósíalisma eða eitthvað annað. En það, sem ég lagði áherslu hér á varðandi eignarskattinn, var í sjálfu sér ekkert nýtt. Það er sú skilgreining sem er viðurkennd af öllum varðandi eignarskatt, að hann er í fyrsta lagi skattur á þær tekjur, sem af eignum koma, sem sagt viðbótarskattur við tekjuskatt í einn og öðru formi, vegna þess að fyrir þeim tekjum, sem af elgnum koma, þarf ekki að hafa eins mikið og að vinna fyrir sér í annarri vinnu. Og í öðru lagi — og það viðurkenndi hann líka — skapa eignir ákveðið öryggi og gera það að verkum að þeir, sem hafa það öryggi, eru fremur bærir til þess að greiða skatta. En aftur á móti hinir, sem hafa ekki slíkar eignir, þurfa að reyna að kaupa sér slíkt öryggi á einhvern annan hátt, annaðhvort í formi trygginga eða reyna að spara.