12.12.1975
Neðri deild: 28. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

Umræður utan dagskrár

Gils Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör, sem hann gaf við fsp. minni, og fagna því að þau skuli vera ákveðin og eindregin. Ég mun hins vegar geyma mér að ræða þau tvenn ummæli sem höfð eru eftir hæstv. utanrrh. þangað til hann kemur heim og útskýrir þau sjálfur. Hins vegar féllu þau á þá leið, eins og ég rakti í þeim orðum sem ég sagði áðan, að það væri ekki á neinn hátt hægt að skilja hann öðruvísi en á þá lund að hann væri að gefa undir fótinn með að 65 þús. tonna tilboðið yrði endurnýjað. Því miður tel ég þetta afar óheppileg ummæli eins og á stóð, en ég mun geyma mér þær umræður, sem ástæða væri til að fram færu um þessi ummæli hæstv. utanrrh., þangað til hann kemur heim.

Ég endurtek svo þakkir mínar til hæstv. forsrh.