12.12.1975
Neðri deild: 28. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Það er enginn vafi á því, að eins og fréttin var flutt í útvarpi, þ. e. frásögnin um það hvað hæstv. utanrrh. hefði sagt í þessu máli, þá var ekki hægt að skilja fréttina á aðra leið en þá, að utanrrh. hefði tekið upp á ný tilboð um 65 þús. tonna ársafla. En ég vil sem sagt segja það, að ég vil ekki trúa því að þetta sé rétt eftir hæstv. utanrrh. haft, og ég fagna því að hér kemur alveg greinileg yfirlýsing frá hæstv. forsrh. um að þetta tilboð hafi ekki verið tekið upp. Ég vona þá að fréttamiðlar komi því áleiðis, ekki aðeins hér innanlands sem er auðvitað sjálfsagt, heldur einnig á framfæri erlendis, að þetta er rangur skilningur, þetta tilboð stendur ekki lengur.

En það er aðeins eitt atriði sem mér finnst að skorti hér á og ég hefði viljað óska eftir að hæstv. forsrh. léti koma hér fram, og það er að hann segi alveg afdráttarlaust að þetta boð verði ekki endurtekið, það verði ekki samið um nein 65 þús. tonn, þetta verði ekki boðið aftur, — ekki aðeins að það hafi ekki verið gert, þetta hafi verið tekið til baka, heldur einnig að þetta verði ekki boðið hér eftir, svo að það geti ekki leikið neinn vafi á því að það liggur ekkert tilboð fyrir og 65 þús. tonn verða ekki boðin aftur. Ég vil mjög fara fram á við hann að hann bæti þessu við þá ágætu yfirlýsingu sem hann gaf áðan um að það mætti ekki skilja ummæli hæstv. utanrrh. svo að þetta gamla tilboð hefði verið tekið upp aftur.