21.10.1975
Sameinað þing: 5. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

11. mál, dagvistunarheimili

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson) :

Herra forseti. Hv. þm. spyr hér um dagvistunarheimilin. Spurningin er í fjórum liðum og skal ég reyna að svara henni lið fyrir lið.

Fyrst: Hvaða dagvistunarheimili hafa hlotið byggingar- og rekstrarstyrki samkv. lögunum? Á landinu öllu eru nú starfandi 76 dagvistar heimili sem njóta rekstrarstyrkja skv. lögum nr. 29 1973 og eru þau í 33 sveitarfélögum. Dagheimilin eru 28, skóladagheimilin 3 og leikskólar 46. Dagvistarheimili á eftirfarandi stöðum hafa hlotið rekstrarstyrk, eitt á stað nema annars sé getið: Akureyri 3, Akranes 2, Borgarnes, Egilsstaðir, Eskifjörður, Flateyri, Garðahreppur, Hafnarfjörður 3, Hellissandur, Húsavík, Höfn í Hornafirði, Hveragerði, Ísafjörður, Keflavík 2, Kópavogur 3, Krógasel, Hábæ 28, Reykjavík, Mosfellssveit, Neskaupstaður, Ólafsvík, Ólafsfjörður. Ós við Dugguvog, Reykjavíkurborg 32, Sauðárkrókur, Selfoss, Seltjarnarnes, Seyðisfjörður, Siglufjörður, Stykkishólmur, Suðureyri, Vestmannaeyjar 3, Ytri-Njarðvík, Æsufell 2–6, Reykjavík, Blönduós, Dalvík, Hálsakot, Bergstaðastræti 81, Reykjavík.

Fyrsta heila árið eftir gildistöku laganna, árið 1974, greiddi ríkissjóður vegna rekstrar heimilanna um 79 millj. kr, en af þeirri fjárhæð voru 23 millj. kr. fyrirframgreiðsla vegna ársins 1975. Ein umsókn um rekstrarstyrk frá Kvenfélaginu Gefn í Garði hefur ekki verið afgreidd.

Stofnkostnaður: 39 dagvistarheimili hafa nú verið tekin á fjárlög. Árið 1974 voru í fjárlögum 40 millj. kr. vegna stofnkostnaðar dagvistarheimila samkv. 12. gr. laga nr. 29 1973. Greiðsla heimila samkv. 12. gr. laga nr. 29 1973. Greiðsla á árinu nam 30 millj. kr. Á fjárlögum 1975 eru 60 millj. kr. veittar til stofnkostnaðar. Þegar hafa 40 millj. kr. verið greiddar 1975.

Þessir aðilar hafa fengið greiddan byggingarstyrk á árunum 1974 og 1975: Akureyri. Borgarnes, Hafnarfjörður, Húsavík, Kópavogur, Ólafsvík, Byggingarfélag atvinnubifreiðastjóra, Reykjavik, Æsufell 4 og 6 í Reykjavík, Reykjavíkurborg, Sauðárkrókur, Seyðisfjörður, Siglufjörður, Vatnsleysustrandarhreppur, Garðahreppur, Borgarsjúkrahús, Áhugafélag, Hábæ 28, Reykjavík, Skagaströnd, Bíldudalur.

Allar umsóknir, sem hafa uppfyllt skilyrði laga nr. 29 1973 og reglugerðar nr. 128 1974 og menntmrn. hefur mælt með, hafa verið teknar í fjárlög. Vegna fjárlaga 1976 liggja nú fyrir beiðnir um þátttöku ríkisins í byggingu 10 nýrra heimila, sem rn. hefur mælt með fjárveitingu til. Það eru Búðahreppur, Egilsstaðir, Grundarfjörður, Hálsakot, Bergstaðastræti 81, Reykjavík, Ísafjörður, Ólafsfjörður, Reykjavík vegna Krummahóla, Patreksfjörður, Tálknafjörður, KFUM og KFUK í Reykjavík.

Þá er önnur spurning: „Hversu mörg börn geta þessi heimili (dagheimili, skóladagheimili og leikskólar) vistað?“

Svarið er: Heimilin gátu alls vistað við síðustu áramót: dagheimili 1398 böru, leikskólar 3144 börn, skóladagheimili 68 börn. Rétt er að geta þess, að mikið vantar víðast hvar á að heimilin geti tekið við öllum þeim börnum sem dagvistar er óskað fyrir.

Þá er þriðja spurningin: „Hefur menntmrn. í þjónustu sinni sérmenntaðan starfsmann til að fjalla um dagvistunarmál, eins og fyrir er mælt í umræddum lögum?“

Í 16. gr. laga nr. 29 1973, um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistunarheimila, segir: „Rn. skal hafa í þjónustu sinni starfsmann, sem lokið hefur námi í Fósturskóla Íslands eða í sambærilegum skóla og hlotið framhaldsmenntun. Auk þess skal hann hafa reynslu í uppeldisstarfi. Þessi starfsmaður skal athuga allar umsóknir um húsaskipan og rekstur dagvistunarheimila, áður en leyfi er veitt. Ber honum að hlutast til um að fullnægt sé öllum ákvæðum sem lög þessi og reglugerðir mæla fyrir um varðandi byggingu og rekstur dagvistunarheimila. Hann skal vera stjórnendum dagvistunarheimila til ráðuneytis um starfsemi heimilanna og annast eftirlit með þeim.“

Í samræmi við þetta auglýsti rn. stöðuna lausa til umsóknar og réð síðan til starfans Svandísi Skúladóttur fóstru frá ársbyrjun 1974, en hún hefur til viðbótar fóstrumenntun hér stundað framhaldsnám í Danmörku og víðar.

Þá er fjórða spurningin: „Hefur verið gerð áætlun um heildarþörf fyrir dagheimili í landinu miðað við að fullnægja þörfum einstæðra foreldra og námsfólks og tryggja öðrum foreldrum jafnan rétt og aðstöðu til að starfa utan heimilis, ef þeir þurfa þess eða óska?“

Svarið er á þessa leið: Könnun á heildarþörf fyrir dagvistarheimili yfir landið allt hefur ekki verið gerð, en tvímælalaust er æskilegt að gera slíka könnun: Frumkvæðið um stofnun sjálfra heimilanna er í höndum sveitarfélaga og áhugahópa. Í nokkrum sveitarfélögum hefur verið gerð slík könnun, t. d. í Reykjavík, Kópavogi og Borgarnesi, sem rn. er kunnugt um. Rn. telur hins vegar æskilegt að gerð verði samræmd könnun á þessu efni um land allt og mun leita eftir samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga um það mál.

Þá hef ég svarað, eftir því sem ég tel nú unnt í fyrirspurnatíma, þeim spurningum sem fram hafa verið bornar. En ég vil einnig geta þess, vegna þess að þetta mál er þýðingarmikið og eðlilegt að menn vilji fylgjast með framvindu þess, þm. og aðrir, að í fréttabréfi menntmrn. nr. 6, sem út kom 5. febr. s. l., eru gefnar upplýsingar um þetta mál á bls. 5–9, að ég ætla nokkru mikið fyllri en þær sem ég hef getað gefið sem svar við þessum fyrirspurnum. Ég vil benda hv. þm. öðrum, sem áhuga hafa á að kynna sér þetta nánar, á þessar upplýsingar í fréttabréfi rn. nr. 6 frá í febr. Ég hef raunar með mér eintak sem ég skal afhenda fyrirspyrjanda.