12.12.1975
Neðri deild: 29. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

105. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Hæstv. forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. n. hefur gert grein fyrir, er það meginefni þessa frv. að þau 2 söluskattsstig, sem samkv. gildandi lögum áttu að falla niður við n. k. áramót, en innheimt hafa verið undanfarið sem tekjustofn fyrir Viðlagasjóð, skuli innheimt áfram, en tekjur af þessum 2 söluskattsstigum skuli framvegis renna í ríkissjóð til þess að mæta almennum útgjöldum ríkissjóðs. Þessu erum við þm. Alþfl. algjörlega andvígir, og stendur það í beinu sambandi við það að við höfum gerst talsmenn róttækrar og gagngerðrar stefnubreytingar í skattamálum ríkisins sem ég skal ekki eyða tíma hv. þd. nú til að rekja í einstökum atriðum, enda gafst tilefni til þess við 1. umr. málsins. Þar gerði ég grein fyrir því að það væri kjarni hinnar nýju stefnu, sem Alþfl. gerðist talsmaður fyrir, að ríkissjóður hætti algjörlega að innheimta tekjuskatt af launatekjum, en bætti sér tekjumissinn af því fyrst og fremst með því að halda þessum 2 söluskattsstigum, sem nú eiga að ganga til ríkissjóðs til þess að mæta almennum útgjöldum, og svo með því að halda áfram innheimtu þess eina stigs sem nú gengur til þess að lækka verðlag á olíu þegar Alþ. telur fært að hætta að innheimta sérstakt söluskattsstig í því skyni. en eins og bent hefur verið á verður það eflaust ekki á næsta ári. Auk þess höfum við bent á mögulega tekjuöflun með réttlátri skattlagningu atvinnurekstrar í landinu til þess að mæta því sem enn kynni á að vanta, þó að haldið yrði áfram að innheimta 3 söluskattsstig og nauðsyn reyndist að efla nokkuð almannatryggingar og aðra opinbera þjónustu við hina lægst launuðu í sambandi við þá breytingu á skattformi sem í því felst að horfið yrði frá tekjuskattsinnheimtu á laun og í staðinn tekin upp greiðsla neysluskatta í formi söluskatts eða öllu heldur virðisaukaskatts.

Ég hef áður, við 1. umr., gert svo rækilega grein fyrir þeim rökum sem fyrir þessari stefnubreytingu felast að ég tel ástæðulaust að endurtaka þau hér.

Það siglir gróflegt félagslegt misrétti í kjölfar þess forms á skattheimtu sem nú á sér stað. Tekjuskatturinn er orðinn skrípamynd, hrein skrípamynd af eðlilegri stighækkandi tekjuskattsheimtu. Skattstigin eru orðin aðeins 2 fyrir einstaklinga, skattstig er aðeins eitt fyrir félög, og einstaklingar reynast greiða langmestan hluta tekjuskattsins. Félög og atvinnurekendur greiða sáralítinn hluta hans og mjög verulegur hluti þeirra, sem stunda atvinnurekstur, bæði félög og einstaklingar, borgar bókstaflega engan tekjuskatt. Það þarf í raun og veru ekki langt mál og engan frekari rökstuðning til þess að leiða athygli þm. og þjóðar að því að slíkt skattkerfi hefur gengið sér algjörlega til húðar og þess getur ekkert beðið annað á næstu árum en algjört afnám, og það er sú stefna sem Alþfl. boðar. Þess vegna erum við andvígir því að ríkissjóður fái að halda þessum 2 söluskattsstigum til að mæta almennum útgjöldum sínum. Við mundum vera fúsir að fallast á að hann héldi þessum 2 söluskattsstigum, ef jafnframt væri um að ræða skuldbindingu um að lækka tekjuskatt um sömu upphæð eða réttara sagt ef áframhald þessara 2 söluskattsstiga yrði liður í kerfisbreytingu úr ranglátum og úreltum tekjuskatti yfir í heilbrigðara, skynsamlegra og réttlátara skattkerfi.

Þetta er meginástæðan fyrir því að við þm. Alþfl. munum greiða atkvæði gegn þessu frv. Þó er í frv. eitt atriði sem við erum samþykkir, og það er bað að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái 8% af öllum innheimtum söluskatti, eins og hann hefur fengið af þeim söluskatti sem innheimtur var áður en viðlagagjaldið og olíugjaldið komu til sögunnar. Til þess að við getum látið í ljós samþykki við þennan þátt málsins vil ég leyfa mér að óska eftir því að síðari málsliður 1. gr. sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkissjóður greiðir Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 3% — átta af hundraði — skatts þess sem um ræðir í 1. mgr.“ — verði borinn upp sérstaklega vegna þess að við þm. Alþfl. óskum eftir því að láta í ljós stuðning við þennan þátt frv. þó að við séum meginefni þess andvígir.