12.12.1975
Neðri deild: 29. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

112. mál, Lánasjóður dagvistunarheimila

Flm. (Svava Jakobsdóttir) :

Hæstv. forseti. Ég hef ásamt tveim hv. þm. öðrum, þeim Lúðvík Jósepssyni og Vilborgu Harðardóttur, leyft mér að flytja frv. til laga um Lánasjóð dagvistunarheimila sem er birt á þskj. 137. Þetta frv. er flutt vegna þess að ljóst er að þörf er meira fjármagns til uppbyggingar dagvistunarheimila en nú er varið til þeirra mála og brýnt að örva til meiri framkvæmda.

Fram til ársins 1973 höfðu sveitarfélög og áhugamannafélög allan veg og vanda af byggingu og rekstri dagvistunarheimila. Þetta eru, eins og allir vita, kostnaðarsamar framkvæmdir. Það er áætlað að kostnaðurinn sé 125 þús. kr. á fermetra. En það er vitað að sveitarfálög höfðu ekki bolmagn til að sinna þessu verkefni þótt þörfin væri mjög brýn. Þannig var ástatt þegar lög voru sett um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistunarheimila árið 1973, í tíð vinstri stjórnar.

Þótt stutt sé síðan lögin komu til framkvæmda má þegar greina hver lyftistöng þau hafa verið sveitarfélögum. Þetta sést á eftirfarandi samanburði: Árið 1973 voru dagheimili í 10 sveitarfélögum og leikskólar í 25 sveitarfélögum, en í 7 þeirra starfaði leikskóli aðeins hluta af árinu. Það ár greiddi ríkið 10 millj. í stofnkostnað. Árið 1974 var greitt upp í stofnkostnað 19 heimila í 11 sveitarfélögum. Fjárframlag ríkisins til stofnkostnaðar það ár var 40 millj. kr. Árið 1975 er á fjárl. 60.1 millj. sem renna á til 39 heimila í 18 sveitarfélögum. Vegna fjárl. 1976 liggja nú fyrir umsóknir vegna byggingar 10 nýrra heimila. Verði þeim umsóknum sinnt eru heimilin orðin 49 í 25 sveitarfélögum. Á fjárl. 1976 er áætlað að verja 68.4 millj. til stofnkostnaðar dagvistunarheimila, en till. menntmrn. hljóða hins vegar upp á 164 millj. 468 þús. krónur. Til fróðleiks get ég talið upp þau dagheimili sem hafa sótt um að vera tekin inn í fjárlög næsta árs, en þan eru: Búðahreppur, Egilsstaðir, Grundarfjörður, Reykjavík, Ísafjörður, Ólafsfjörður, Patreksfjörður og Tálknafjörður. Þessi samanburður sýnir stórkostlega framför. Á árunum 1963–1973 voru reist 8 ný heimili á 6 stöðum utan Reykjavíkur og 10 í Reykjavík, en alls voru dagheimili í landinu 26 í árslok 1973 og leikskólar 40. Á þessum tveim árnun síðan lögin tóku gildi hefur því hafist bygging fleiri heimila en alls voru til á landinu áður. Ég held að þetta sýni svo að ekki verði um villst að þörf sveitarfélaga fyrir frekara fjármagn til þessara mála sé mjög brýn og stofnun sjóðs í þessu skyni mundi hjálpa sveitarfélögunum til þess að hefja þessar nauðsynlegu framkvæmdir og til þess að halda í horfinu.

Í frv. er gert ráð fyrir að sjóðurinn verði fjármagnaður með 0.25% almennum launaskatti af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum er launagreiðendur greiða samkv. reglum laga um launaskatt. Ef miðað er við launaskattsupphæðina 3 milljarða 50 millj., eins og fjárl. gera ráð fyrir, má ætla að þessi viðauki muni skila tæpum 220 millj. á næsta ári.

Við leggjum til að menntmrn. fari með yfirstjórn sjóðsins og teljum það eðlilegt með hlíðsjón af því að það rn. fer með stjórn þessara mála. Og samkv. lögum um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistunarheimila er framlag ríkisins bundið ýmsum skilyrðum og eðlilegt er að lán úr þessum sjóði verði háð sömu skilyrðum og ríkisframlag, bæði um undirbúning og framkvæmd og svo um innri gerð alla eins og hún er sett fram í reglugerð. Þetta sjónarmið okkar, kemur einnig fram í 5. gr. frv. Þá gerum við ráð fyrir því að lán, sem sveitarfélögum yrði veitt í þessu skyni, megi nema allt að 30% áætlaðs stofnkostnaðar fullbúins húsnæðis fyrir dagvistunarheimili og skuli þau tryggð með veði í því.

Herra forseti. Ég held að það þurfi ekki að fjölyrða mjög um rök fyrir því að launaskattsgreiðendur leggi sitt af mörkum til þessara mála. Ástæðurnar fyrir kröfum fólks um dagvistunarheimili, bæði fleiri og fullkomnari, eru svo kunnar að það er varla þörf á því eð fjölyrða um þær. En þær ástæður eru vissulega margþættar. En mjög veigamikil rök eru vissulega atvinnuþátttaka beggja foreldra, aukin atvinnuþátttaka kvenna, og þetta fólk gerir strangar kröfur um að þjóðfélagið sjái börnum þeirra fyrir hinni bestu umönnun meðan það stundar vinnu sína. Mörgum starfsgreinum væri varla hægt að halda uppi án þátttöku kvenna, það er viðurkennt, og því er í fyllsta máta eðlilegt að atvinnurekendur leggi sitt af mörkum. Ég legg á það áherslu að þessi atvinnuþátttaka beinlínis eykur þjóðartekjur og því er fyllilega sanngjarnt að sjóður sem þessi verði settur á stofn og sveitarfélögum gert þannig kleift að koma upp þessum nauðsynlegu menningar- og uppeldisstofnunum.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og menntmn.