12.12.1975
Neðri deild: 29. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

115. mál, íslensk stafsetning

Magnús T. Ólafasson:

Herra forseti. Með frv. á þskj. 140 er lagt til að horfið verði frá hefð sem er ekki bara hálfrar aldar gömul, heldur jafngömul afskiptum íslenskra stjórnvalda af stafsetningarmálum. Þennan tíma hefur það verið óslitin hefð að ákvörðun um þá stafsetningu, sem kennd er í íslenskum skólum og viðhöfð í opinberum plöggum, eigi sér stað með ráðherraúrskurði, og ævinlega þegar slíkir úrskurðir hafa átt sér stað hefur verið leitað þeirra ráðunauta sem hollastir voru taldir í þessu máli. Nú er hins vegar lagt til að stafsetningu sé skipað með lagasetningu á Alþingi um hvert og eitt það stafsetningaratriði sem til álita er talið koma á hverjum tíma. Án tillits til þess hvaða skoðanir menn hafa á einstökum stafsetningaratriðum kemur hér að mínu viti til álita í fyrstu röð hvort rétt er og nauðsynlegt að breyta svo um starfsaðferðir í þessu máli sem hér er lagt til.

Ég álít að áður en farið væri alfarið að hverfa gersamlega frá hinni fyrri hefð og taka upp lagasetningu um einstök stafsetningaratriði, hvern stafkrók og kommu í þeirri stafsetningu sem kennd skal í skólum og viðhöfð í opinberum plöggum, bæri að líta á það hvort ekki kæmi alveg eins til mála að skipa því með lögum hver vinnubrögð skuli höfð við breytingar stafsetningar þótt með hinum fyrri hætti væri, sem sagt að Alþingi tjái sig um það hvernig og hjá hverjum ráðh. skuli leita ráða og till. áður en stafsetningarbreyting er gerð, því að ég tel að ef svo alger breyting frá fyrri starfsháttum er gerð sem hér er lagt til, þá sé nauðsyn að leiða hugann að því hvað af mundi hljótast. Það gæti farið svo að stafsetning og einstök stafsetningaratriði yrðu deiluefni og ágreiningsefni og tillöguefni þing eftir þing. Og þing eru auðvitað misjafnlega skipuð og menn á Alþ. hafa misjafnar skoðanir á stafsetningarmálum. En ég tel það borna von að þing verði skipað nema að takmörkuðu leyti mönnum sem hafa sérþekkingu á undirstöðufræðum stafsetningarákvarðana. Þau fræði eru einkum tvenn, annars vegar málvísindi og hins vegar kennslufræði, þegar ákveða á hvað sé eðlileg kennslustafsetning í skólum.

Ég tel að hér sé síður en svo verið að tryggja festu og samhengi í þessum málum, heldur sé hér verið að bjóða heim mun tilviljanakenndari vinnubrögðum við stafsetningarákvarðanir heldur en hingað til hafa þó tíðkast, því að menn skyldu ekki gleyma því að við þær stafsetningarákvarðanir, sem teknar voru síðastar, var í öllum meginatriðum nema einu byggt á fyrri ákvörðunum sem teknar voru hálfri öld áður. Það, sem hins vegar var gert, var að fylla í ýmsar eyður sem voru í fyrri reglum frá 1928, að kveða á um ýmis atriði sem samkv. þeirri auglýsingu voru algerlega óákveðin og látin þar liggja á milli hluta, svo sem greinarmerkjasetningu, hvort rita skyldi eitt orð eða tvö o. fl. Hér var annars vegar með þeim ákvörðunum, sem síðast voru teknar, ákveðið að nema burt reglu um z úr lögboðinni stafsetningu, en hins vegar að fjalla nákvæmar eða frá grunni um ýmis atriði sem ekki hafði verið kveðið á um í fyrri reglum. Ég býst við að hv. flm. líti svo á að undir þennan leka sé sett með ákvæðinu í 3. gr., að fylgt skuli þeim meginreglum sem farið var eftir á tímabilinu frá 1929 til 1973 um atriði sem ekki er tekið á í 2. gr. En þar stendur svo á að það er ekki hægt að finna meginreglur frá þessum tíma um atriði sem ekki eru ákveðin í þágildandi stafsetningarreglum nema með mjög viðtækri könnun á rituðu máli þess tíma. Þarna er um það að ræða að atriði, sem áður voru óákveðin í lögboðinni stafsetningu og því á reiki, voru fastákveðin í þeim reglum sem nú gilda.

Og enn er haldið uppteknum hætti um hina margumtöluðu z. Í 4. gr. er ákvæði um að ekki skuli þess krafist að sá stafur sé kenndur í 1.–6. bekk grunnskóla. Hér er sem sagt haldið því sem varð raunin á tímabili stafsetningarinnar frá 1928, að nemendum og fólki er skipt í tvo flokka, þá sem tileinka sér z-stafsetningu og þá sem það gera ekki. Það kemur sem sé í ljós að fyrir flm. frv. á þskj 140 vakir ekki fyrst og fremst að koma á festu né samhengi, heldur að viðhalda því að í landinu ríki tvenns konar stafsetning, lærðra manna stafsetning og almennings stafsetning. Af þeim sökum sérstaklega er ég andvígur þessu frv., en þar að auki af þeim sökum, sem ég lýsti áður, að ég tel það fljótræði að hverfa frá hinu fyrra fyrirkomulagi áður en athugað er hvort ekki getur orðið samkomulag um starfsreglur sem farið sé eftir við stafsetningarákvarðanir héðan í frá.

Í máli hv. frsm., 9. þm. Reykv., kom ýmislegt fram sem ástæða væri til að gera aths. við og mun ég drepa á fátt eitt af því.

Hv. 9. þm. Reykv. staðhæfði hér úr þessum ræðustól, eins og hann hefur gert áður, að menningarþjóðir hreyti helst ekki stafsetningu sinni. Ég vil benda á það að þjóðir, sem ég a. m. k. tel menningarþjóðir, eins og danir, svíar og norðmenn, hafa allir breytt sinni stafsetningu á undanförnum áratugum og það jafnvel í veigameiri atriðum en breytingarnar sem áttu sér stað á íslenskri stafsetningu nú siðast. Af þessu leiðir að rökin um að stafsetningarbreyting eyðileggi að meira eða minna leyti bókakost þjóðarinnar falla um sjálf sig og fá ekki staðist. Það hlyti að vera jafnmikið óhagkvæmnisatriði og kostnaðaratriði fyrir þessar þjóðir að gera stafsetningarbreytingu eins og okkur. Og það er síður en svo að stafsetningarbreytingar sem þær gerðu, og var hin danska einna mest, hafi valdið vandræðum. Þær hafa síður en svo komið í veg fyrir, að þessum þjóðum notist bókakostur frá undanförnum áratugum eða valdið því, að þar eigi sér ekki stað ljósprentanir handbóka og uppsláttarrita án þeirrar dýru uppsetningar á prentuðu máli sem veifað er hér sem grýlu.

Þá er sérstök ástæða til að víkja að þeirri röksemd hv. 9. þm. Reykv., að einstakir rithöfundar og/eða einstök útbreidd málgögn hafi ekki þegar í stað tekið upp hina nýju stafsetningu, að það geri hana óhæfa með öllu og skaðlega. Slík töf á sér auðvitað stað við allar stafsetningarbreytingar. Það tekur nokkurn tíma að þær nái þeirri útbreiðslu sem auðvitað er stefnt að. Hv. 9. þm. Reykv. nefndi sérstaklega Morgunblaðið, að það gerði stafsetninguna, sem nú gildir, gersamlega óhæfa, skaðlega fjölskyldunum og friðspilli á heimilum, að Morgunblaðið skuli ekki hafa tekið hana upp. Minnist hv. þm. þess ekki hversu langan tíma það tók Morgunblaðið að taka upp stafsetninguna frá 1928? Ef ég man rétt söðlaði Morgunblaðið ekki um og tók upp þá stafsetningu fyrr en árið 1953 eða 1954, svo að sú stafsetning sem þá var lögfest þurfti sannarlega töluverða bið eftir því að halda innreið sína í Morgunblaðið. Og vissulega gerðist það líka á því tímabili að einstakir rithöfundar fylgdu ekki hinni lögboðnu stafsetningu og reyndust sumir hverjir góðir rithöfundar samt. Hér er nefnilega ekki um það að ræða og getur ekki verið að það, sem kallað er lögboðin stafsetning, sé fortakalaust notuð á öllu prentuðu máli. Það, sem máli skiptir, er hvaða stafsetning er kennd í skólum, hvaða stafsetningu nemendur, sem lokið hafa almennu skyldunámi, eru taldir þurfa að tileinka sér til að verða það sem kallað er sendibréfsfærir. Það er mergurinn málsins, en ekki hvort einhver tiltekinn rithöfundur eða tiltekið málgagn fylgir lögboðinni stafsetningu eða ekki. Það varð líka raunin á hjá nágrannaþjóðum okkar þegar þær breyttu stafsetningu sinni að sum málgögn og þá gjarnan hin íhaldssömustu blöð í þeim löndum urðu miklu seinni en aðrir til þess að fylgja stafsetningarbreytingu.

Ég tel að það, sem hér þarf fyrst og fremst að líta á, sé eðli máls, en ekki undirskriftasafnanir, hvort sem þær eiga sér stað utan þingsala eða innan, og tel ég reyndar að það muni hafa verið næsta einstæður viðburður í þingsögunni þegar það gerðist í lok síðasta þings að tveir af flm. frv. á þskj. 144 skutust milli þingbekkja að safna undirskriftum undir áskorunarskjal alþm. á hæstv. menntmrh. Ég fyrir mitt leyti tel ekki að slík vinnubrögð sé rétt að viðhafa við málatilbúnað á Alþ. Og hvað varðar þær undirskriftir, sem komið hafa fram frá ýmsum mönnum sem margir hverjir hafa sannarlega sýnt að þeim er annt um tunguna og hafa sýnt mikinn málssmekk, þá finnst mér satt að segja að áskorun þeirra og mótmæli gegn stafsetningarbreytingunni séu nokkuð seint fram komin, því að margir þessara manna áttu á sínum tíma við mig alltíð samskipti þegar vitað var að stafsetningarmálin voru í endurskoðun og til athugunar. Ég minnist ekki að einn einasti úr þeim hópi hafi séð ástæðu til að láta uppi við mig andstöðu við þær breytingar sem þá voru á döfinni og voru ákveðnar með auglýsingu sem kom í minn hlut að undirrita.