21.10.1975
Sameinað þing: 5. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

11. mál, dagvistunarheimili

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir mjög greinargóð og skýr svör við þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar. Það var að sjálfsögðu ástæða fyrir því að þessar spurningar voru lagðar fram, og hún kemur fram í þeim ályktunum sem menn draga af svörunum. Sjálfur lét ráðh. fylgja með eina eða tvær setningar á þá leið, að mikið vantaði á að hægt væri að taka við öllum þeim börnum sem óskað er um rúm fyrir á dagvistunarheimilum. Þessi viðurkenning hans gefur glögga innsýn í það, sem raunar kom frekar fram hjá síðasta ræðumanni, að það vantar töluvert mikið á að þróunin í þessum málum sé með æskilegu móti eða í samræmi við það sem til var ætlast með lögunum. Hér er um að ræða eitt af raunhæfustu réttindamálum kvenna, og það er nú komið í ljós að á sjálfu kvennaárinu fer stöðu okkar íslendinga í þessu máli ört hrakandi. Vænti ég að hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar íhugi þessa hlið málsins.