12.12.1975
Efri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

107. mál, snjóflóð á Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til þess að veita heimild til að verja úr Viðlagasjóði allt að 200 millj. kr. af eign hans til þess að standa að fullu við skuldbindingar sjóðsins vegna snjóflóða í Norðfirði 20. des. 1974. Frv. fylgja allítarlegar aths. og skal ég því stytta mál mitt til skýringar á frv.

Eins og fram kemur í aths. þá telur stjórn Viðlagasjóðs ekki endanlegar upplýsingar vera fyrir hendi varðandi þær fjárskuldbindingar sem sjóðurinn hefur tekið á sig vegna snjóflóðanna í Neskaupstað og Vestmannaeyjaeldgossins. Sjóðsstjórnin áætlar í þessum aths. að það skorti um það bil 100 millj. kr. á að Norðfjarðardeild sjóðsins hafi nægilegt fjármagn til þess að standa við skuldbindingar sínar. Þriggja manna þingmannanefnd, sem skipuð var til þess að hafa milligöngu milli Viðlagasjóðs og heimaaðila í Neskaupstað, hefur í bréfi talið að það skorti allt að 250 millj. kr. á næsta ári í þessu skyni. Stjórn Viðlagasjóðs getur fallist á að þessi upphæð verði eitthvað hærri en 100 millj. kr., og þriggja manna þmn. getur fallist á að heimild allt að 200 millj. kr. sé nægileg á þessu stigi málsins. Því er óskað eftir heimild í því skyni að á tímabilinu upplýsist það til fullnustu hve fjárupphæðin þarf að vera há.

Þá kemur spurningin hvort Viðlagasjóður hafi efni á að greiða þessa upphæð, og er svarið að það er undir því komið á næsta ári hvernig sjóðurinn stendur að endurgreiðslum til Seðlabankans. Í greiðsluyfirliti kemur það fram að sjóðurinn hefði greitt til Seðlabankans á næsta ári rúmar 400 millj. kr. miðað við áætlaðar greiðslur vegna fjárskuldbindinga við Vestmannaeyjar. Það hlýtur því að lækka þessar endurgreiðslur til Seðlabankans, að svo miklu leyti sem þarna er um að ræða fjárgreiðslur vegna Neskaupstaðar, sem fara fram úr tekjuáætlun Norðfjarðardeildar Viðlagasjóðs.

Í árslok nú 1975 er gert ráð fyrir að staðan við Seðlabankann verði neikvæð um rúman milljarð, en átti að batna um rúmar 400 millj. á næsta ári samkv. yfirlitinu. Og í árslok næsta árs var talið að sjóðurinn skuldaði Seðlabankanum 624 millj., en ætti þá í ýmsum eignum, að vísu þar á meðal skuldabréfum til nokkurs tíma, rúmlega 1600 millj. kr.

Skuldbindingarnar gagnvart Vestmannaeyjum eru á þá lund að sjóðsstjórnin telur að þetta greiðsluyfirlit geti staðist þegar búið er að gera upp helstu tjónin. En þá er eftir óleyst fjárþörf bæjarsjóðs Vestmannaeyja eins og forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja og bæjarstjóri gera grein fyrir í bréfi sínu, en þar er um að ræða að þeirra áliti um það bil 1000 millj. kr. fjárþörf í einu eða öðru formi á næstu 4 árum. Hér er því ljóst að ekki eru öll kurl komin til grafar. Gerð er tillaga um að sérstök úttekt fari fram á fjárhag Vestmannaeyjakaupstaðar og áætlun verði gerð um, hvernig hann megi standa við skuldbindingar sínar, um leið og endanlega sé gengið frá bótagreiðslum og uppgjöri bæði gagnvart Vestmannaeyjum og Norðfirði.

Það er gert ráð fyrir því að Viðlagasjóður hætti störfum í árslok 1976 og Viðlagatrygging taki við samkv. sérstökum lögum sem um hana hafa verið samþykkt. Það er margra hluta vegna mjög mikilvægt að skýra þessi mál sem allra fyrst, og ráðstafanir hafa verið gerðar til þess. En meðan ekki eru til staðar fyllri upplýsingar að þessu leyti en ég hér hef gert grein fyrir er nauðsynlegt að umbeðin heimild sé í lögum.

Ég vil svo aðeins að lokum ítreka þá yfirlýsingu sem ég gaf við framsögu málsins í Nd., að staðið verður við allar þær skuldbindingar og yfirlýsingar sem gefnar hafa verið um að bæta tjónið af völdum eldgossins í Vestmannaeyjum og tjónið af völdum snjóflóðanna í Neskaupstað, og sambærilegar reglur verða viðhafðar varðandi þær tjónabætur, bæði í Vestmannaeyjum og í Norðfirði.