12.12.1975
Efri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

107. mál, snjóflóð á Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. forsrh. Hún ásamt þessu frv. gerir það að verkum að ég hlýt að fylgja frv. Ég vil aðeins benda á að það hefur verið mér á þessu ári og sérstaklega nú upp á síðkastið nokkurt undrunarefni, hversu mjög hefur munað á áætlunum um útgjöld vegna Neskaupsstaðar hjá stjórn Viðlagasjóðs annars vegar og hjá þingmannanefndinni hins vegar sem byggir á bestu upplýsingum heimamanna. Það er mjög eðlilegt að þarna hljóti einhver mismunur að vera á, en hér er sem sagt um að ræða að Viðlagasjóður telur að deildina skorti um 100 millj. kr. til að standa við skuldbindingar sínar en n. telur að a. m. k. þurfi að tryggja 250 millj. til þess að bæta sama tjón. Ég undrast þennan mikla mun og mér sýnist á öllu að stjórn Viðlagasjóðs hafi verið furðulega lág í sínu mati.

Miðað við sögu þessa máls á þessu ári má með nokkrum rétti segja að ekki hafi sjóðsstjórnin í öllu með glöðu geði farið að skýlausum yfirlýsingum hæstv. ríkisstj. Hún hefur frekar verið knúin til þess. Ég bendi á það t. d. að þetta hefur skapað norðfirðingum ákaflega mikla aukafyrirhöfn, sá bardagi næstum að segja við stjórn Viðlagasjóðs á köflum sem þessi málsmeðferð Viðlagasjóðs hefur leitt af sér. Hefði þetta orðið sem stjórn Viðlagasjóðs gerði ráð fyrir, þessar 100 millj. verið látnar standa, þá hefðu t. d. óbærilegar byrðar að mínu viti verið lagðar á það atvinnufyrirtæki sem verst fór út úr þessu, Síldarvinnsluna, sem var mjög vel stætt fyrirtæki áður og án efa eitt best rekna fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi. Hins vegar hefur ríkisstj. haldið fast við fyrri yfirlýsingar og ber sannarlega að þakka það. Þetta frv. sýnist mér vera í góðu samræmi við það.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram og lýsa við þessa 1. umr. stuðningi við frv. þetta.