15.12.1975
Neðri deild: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

98. mál, lækkun lögbundinna framlaga á fjárlögum

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Þetta frv. er eitt af mörgum sem boðuð voru í fjárlagafrv. því sem nú liggur fyrir Alþ., og það má raunar furðulegt teljast að ekki merkilegra plagg en hér er á blaði hjá hv. þm., þ. e. a. s. 6 lína frv., skuli ekki koma til umr. hér í þinginu, þessari hv. d., fyrr en nú á síðustu dögum þingsins fyrir jólaleyfi. Maður skyldi ætla að það hefði verið tækifæri til þess að koma ekki merkilegra plaggi en þetta er inn á Alþ. miklu fyrr en hér er gert. En þetta er auðvitað eins og annað í vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. Það er raunar furðulegt að Alþ. skuli láta bjóða sér vinnubrögð sem þessi. Þetta hefði verið skiljanlegt hefði verið meiningin, eins og hv. síðasti ræðumaður var að minnast á, að gefa þm. upplýsingar um það í fyrsta lagi hvaða lög hér væri um að ræða með upptalningu í frv. og í öðru lagi hvaða upphæðir þetta væru. En ekkert slíkt yfirlit liggur fyrir.

Það er auðvitað lágmarkskrafa til hæstv. ríkisstj. þegar slíkt er lagt fram að þm. fái um það vitneskju um hvað er í raun og veru að ræða. Slík almenn heimild, eins og hér er farið fram á, án þess að vita nokkur skil á hvað um er að ræða, er að mínu viti mjög varhugaverð. Hæstv. fjmrh. gat þess að vísu að hann reiknaði með að sú hv. n., sem málið fær til umfjöllunar, fengi upplýsingar um hvað hér væri að gerast eða ætti að gerast. En mér finnst það lágmarkskrafa þm. að það sé birt skrá yfir það hvaða lagabálkar hér eru og þær upphæðir sem kunna að skerðast við það að að þessu verði horfið.

Ég átel harðlega þau vinnubrögð sem höfð hafa verið að því er varðar afgreiðslu fjárlagafrv. Ég skal ekki fara út í það hér frekar. 2. umr. fjárlaga fer fram á morgun og þá verður að því vikið, að ég hygg örugglega, með hverjum endemum að hefur verið staðið vinnubrögðum varðandi fjárlagafrv. og umfjöllun þess. Þetta frv. er einn angi af því, eins og var boðað. Sum af þeim frv., sem fjárlagafrv. á að byggja á, hafa ekki enn séð dagsins ljós hér á Alþ., og allt bendir e. t. v. til þess að þau hafi ekki verið lögð fram í þinginu áður en 2. umr. fjárlaga fer fram. Slík vinnubrögð eru auðvitað forkastanleg og á allan handa máta fordæmanleg.

Ég skal ekki hafa öllu fleiri orð um þetta, en ég tek undir það, sem hv. þm. Benedikt Gröndal kom inn á áðan: það er lágmarkskrafa að þm. fái að vita — grg. hefði átt að vera í þessu frv. — hvaða lagabálkar þetta eru og hvaða upphæðir er um að ræða. Það er ekki þar með sagt, þó að þm. vilji spara á einhverjum liðum um 5%, að það sé fært. Hér er um fjölda framlaga að ræða sem hafa verið skert stórkostlega á undanförnum árum, ekki síst á árinu í ár, sem brýn nauðsyn er til þess, ekki að halda í sömu krónutölu, heldur beinlínis að hækka. Það gæti vissulega komið til að menn vildu þá breyta gagnvart öðru, menn gætu hugsað sér að skera niður um 10–15% einhvern ákveðinn lagabálk, en ekki annan eða jafnvel hækka hann. Svona alhliða niðurskurður er a. m. k. mjög hæpinn.