15.12.1975
Neðri deild: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

98. mál, lækkun lögbundinna framlaga á fjárlögum

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Öðruvísi mér áður brá, kom mér í hug þegar hv. síðasti ræðumaður vék að afgreiðslu fjárlaga nú og sagði að meira að segja hefðu sum frv., sem afgreiðsla fjárlaga ætti að byggjast á, ekki séð dagsins ljós. Ég man ekki betur en þessi hv. þm. stæði að fjárlagagerð fyrir árið 1972 án þess að veigamikil frv. hefðu séð dagsins ljós áður en fjárlagaafgreiðslan fór fram. Þau frv. sáu ekki dagsins ljós fyrr en 2–3 mánuðum eftir að fjárlagaafgreiðslan átti sér stað. Þessi hv. þm. átaldi ekki þá afgreiðslu fjárlaga, það gerði hins vegar ég.

Mín hugsun er sú, að þau frv., sem afgreiða þarf vegna fjárlaganna, verði afgreidd áður en lokaafgreiðsla fjárlaganna fer fram, en ekki að það verði geymt til útmánaðanna eins og þegar fjárlögin fyrir 1972 voru samþ. Að því stóð hv. 5. þm. Vestf. sem einn af stjórnarsinnum þá.

Þetta er árvisst hér í Alþ., að upp standa menn og segja að það sé afbrigðilegt hvernig vinnubrögð séu, það hafi aldrei verið eins og nú. Þetta hef ég heyrt áður frá þeim sem hafa viljað hafa uppi gagnrýni. En gjarnan er það svo að á síðustu dögum þings er mikið að gera, það hafa verið rædd mál og þau lögð fram. Það má vel vera að hér sé hægt að koma einhverju betra skipulagi á, en ég minnist þess ekki þegar þessi hv. þm. stóð að meiri hluta hér á Alþ. að hann hafi haft uppi einhverja tilburði í þeim efnum.

Þeir véku síðan, hann ásamt 2. landsk. þm., að því frv. sem hér liggur fyrir og átöldu harðlega að hér væri komið og ætti með nánast einu pennastriki að skera niður um 5%, alveg án þess að nokkuð væri skoðað hvað um væri að ræða, þeir væru jafnvel tilbúnir að skera sumt niður um 10% og annað um 15%. Ég á þá von á því að þeir komi með till. þar um. Mergurinn málsins er sá að hér er um heimildarlög að ræða. Það verður heimilt að skera niður um 5%, og það verður að sjálfsögðu fjvn. sem leggur till. um breytingar á fjárlagafrv. fram við 2. og 3. umr. Það hefur hins vegar verið byggt á þessu frv. og þar er ákveðinn niðurskurður og hann birtist í fjárlagafrv. Þar hefur engu verið leynt, eins og hv. 2. landsk. þm. vill láta í skína. Þar er sá niðurskurður sem talað er um í fjárlagafrv. Hins vegar er það Alþingis hvort það vill nota þá heimild, sem hér er verið að afla, til þess að skera niður um 5%. Ef þessir hv. þm. vilja fara með heimildina upp í 15% og gera þá einhverjar sérstakar tilfæringar þar á í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna, þá efast ég ekkert um að þeir koma með þá brtt. og hv. 5. þm. Vestf. geri síðan þá till. í fjvn. varðandi þær breytingar sem hann vildi þar á gera.

Ég vek athygli á því að hér er um að ræða heimild til þess að á árunum 1976 og 1977 lækki lögbundin framlög um 5%. En það er auðvitað Alþ. sem setur fjárlög og tekur endanlega ákvörðun um hvort heimildin er nýtt og hvar hún verður notuð.

Þær tölur, sem skornar hafa verið niður eða færðar niður í fjárlagafrv., er að sjálfsögðu hægt að fá á einu blaði til þess að það taki þm. styttri tíma í skoðun. Það er sjálfsagt að þm. fái það. Þar sem hér var um að ræða heimildarlöggjöf, þá var ekki talið eðlilegt að slík upptalning væri sérstaklega í þessu frv. Allar þær breytingar, sem hér er byggt á, komu fram í fjárlagafrv. sem var lagt fram í byrjun þings, og ljóst var af grg. fjárlagafrv. að slíkt frv. yrði flutt sem hér er til umr., þannig að málið kemur þm. með engum hætti á óvart.