15.12.1975
Neðri deild: 31. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Hæstv. forseti. Frv. til l. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt er lagt fram á Alþ. nú í beinum tengslum við fjárlagafrv. ársins 1976, þar sem gert er ráð fyrir hækkun tekna af eignarskatti einstaklinga og félaga frá fjárl. þessa árs úr 443 millj. í 952 millj. kr. Til að þeirri tekjuaukningu eignarskatts verði náð er nauðsynlegt að hækka gildandi fasteignamat til eignarskattsálagningar, en enn í dag miðast það við verðlag fasteigna árið 1970. Koma til greina í því sambandi tvær leiðir: annars vegar hækkun fasteignamats til eignarskattsálagningar á breyttum skattstiga og hins vegar hækkun matsins samhliða breyttum skattstiga eignarskatts. Eins og frv. þetta ber með sér er síðari leiðin farin, enda hefði hin fyrri haft það í för með sér að gjaldendum eignarskatts hefði fjölgað mjög verulega frá því sem verið hefur.

Það er ljóst að á undanförnum árum hafa eignarskattar, sem að stofni til eru langmest innheimtir af fasteignum, ekki fylgt verðlagsþróun fasteigna í landinu. Sem dæmi má nefna að vísitala byggingarkostnaðar frá viðmiðunartíma gildandi fasteignamats 1. jan. 1970 til 1. nóv. s. l. hefur hækkað um 464%. Verður því tæplega haldið fram, að hér sé um nýja eða stóraukna skattheimtu að ræða, heldur er hér fyrst og fremst verið að færa skattheimtu til samræmis við þróun verðlags.

Á Alþ. hefur samhliða þessu frv. verið lagt fram nýtt frv. um skráningu og mat fasteigna sem gerir ráð fyrir árlegri hækkun fasteignamats til samræmis við þróun verðlags fasteigna. Slík almenn hækkun matsins getur þó af framkvæmdaástæðum ekki tekið gildi fyrr en 1. des. á næsta ári og er því þetta frv. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt flutt til þess að brúa það tímabil þar til af almennri hækkun fasteignamats getur orðið.

Ég vil að lokum undirstrika að frv. þetta felur ekki í sér almenna hækkun fasteignamats, heldur einungis hækkun matsins til eignarskattsálagningar og hefur því ekki áhrif til hækkunar annarra skatta og gjalda sem byggjast á fasteignamati. Hins vegar hefur félmrn. skv. ákvæðum laga nr. 11/1975, um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga, heimild til álags á aðalmat fasteigna til notkunar þess til ákvörðunar gjalda sveitarfélaganna á árinu 1976, og með auglýsingu frá 14. nóv. s. l. hefur sú heimild verið nýtt til 1.73% hækkunar, sem er svipuð hækkun og hér um ræðir í sambandi við grundvöll til eignarskatts.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um frv., en legg til, hæstv. forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.