15.12.1975
Efri deild: 28. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

121. mál, almannatryggingar

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég get haft sama formála og ýmsir sem á undan mér hafa talað, að það er varla við því að búast að menn geti mikið rætt frv. sem kemur fram samdægurs og það er tekið til 1. umr. Það væri kapítuli út af fyrir sig að ræða um vinnubrögð í Alþ. þessa dagana, en ég ætla að geyma mér það og kann að vera að ég ræði það á öðrum vettvangi seinna í þessari viku.

Fyrstu viðbrögð mín við þessu frv. eru kannske léttir, því að ég var búinn að heyra að það ætti að skera niður almannatryggingarnar að verulegu leyti og þótti því vænt um að heyra orð hæstv. ráðh. hér áðan, að það hafði aldrei hvarflað að honum að takmarka lífeyristryggingarnar, en þær tel ég það víðkvæmt mál að ekki megi á þeim miklar breytingar gera án þess að það sé vandlega athugað. En ég vil taka það fram, að ég er að vissu marki samþykkur þeirri stefnu sem felst í þessu frv., þ.e. að jafnvel sjúklingarnir sjálfir og sveitarfélögin taki meiri þátt í sjúkratryggingum en verið hefur. En ég þykist sjá á öllu að þetta sé ekki það vel undirbúið að það sé réttlætanlegt að afgreiða það eins og hér er hugsað.

Áðan var bent á það, að t. d. þessi hækkun á sveitarfélögunum væri lögð á gjaldstofn sem er í raun og veru ákaflega óréttmætur, en framtöl þau, sem við höfum orðið að byggja á fram að þessu, eru þannig úr garði gerð að útsvör og tekjuskattur eru farin að liggja á launþegum með svo gífurlegu álagi að engu tali tekur. Þess vegna gel ég ekki annað en andmælt þessu frv., þó að ég sé að vissu marki samþykkur þeirri hugsun sem í því felst, að það sé sanngjarnt og eðlilegt að sveitarfélög og jafnvel einstaklingar taki meiri þátt í sjúkratryggingunum heldur en verið hefur. En mér finnst undirbúningurinn og hvernig gjaldstofninn er fenginn fyrir þessari hækkun þannig úr garði gert, að ég get ekki mælt með frv. eða fylgt því eins og það er. Auk þess felast í því gífurlegar nýjar álögur sem mér finnst vera andstætt þeirri stefnu sem núv. ríkisstj. hefur boðað, að hún vilji lækka útgjöld ríkisins, en þá ætti hún líka að vilja lækka útgjöld sveitarfélaganna, en þetta frv. gengur þvert á það.

Að öðru leyti mun ég geyma mér til 2. umr. að fjalla nánar um þetta frv. Ég vil aðeins endurtaka það sem ég sagði áðan, að í grundvallarstefnu er ég ekki á móti því að sveitarfélög og jafnvel einstaklingar taki meiri þátt í sjúkratryggingum en verið hefur, en mér virðist undirbúningur frv. og sá gjaldstofn, sem hér er boðaður, þannig úr garði gerður að ég verð að andmæla frv.