16.12.1975
Sameinað þing: 34. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

1. mál, fjárlög 1976

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hv. 11. landsk. þm., Geir Gunnarsson, form. minni hl. fjvn. hefur hér gert grein fyrir viðhorfum okkar í stjórnarandstöðunni til þess máls, sem hér er til umr., bæði að því er varðar vinnubrögð og afstöðu til mála. Hann gerði það, eins og hans var von og vísa, vel og drengilega. Það, sem helst mætti segja af minni hálfu um það, er að hann var að mínu viti um of mildur í þeirri gagnrýni sem fram kom á þau vinnubrögð og málsmeðferð sem viðhöfð hafa verið varðandi fjárlagaafgreiðsluna. Ég hygg, að það verði varla svo sterklega að orði kveðið um vinnubrögð hæstv. ríkisstj. varðandi umfjöllun fjárlagafrv., að það megi segja að of sterkt sé að orði kveðið í þeim efnum.

Ég hygg að allir hv. þm. hafi heyrt þá skoðun, að Alþ. sé orðið og sé í æ ríkara mæli að verða afgreiðslustofnun fyrir viðkomandi ríkisstj. Ég persónulega er á hraðri leið að verða mjög sannfærður um að svo sé, ekki síst eftir að hafa reynt það sem hér hefur gerst á hv. Alþ. nú á þessu hausti og ekki hvað síst í sambandi við meðferð og afgreiðslu þá sem út litur fyrir að verða á fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj.

Nú þykist ég vita, að öllum hv. þm. sé um það kunnugt með hvaða hætti undirbúningur fjárlagafrv., ekki bara þessarar hæstv. ríkisstj., heldur og annarra, hefur átt sér stað, þ, e. a. s. þar koma til ráðh., sem nú eru 8 að tölu, og að öllum líkindum formaður fjvn. sá níundi. Þessir aðilar ráða í raun og veru því, hvernig það fjárlagafrv., sem lagt er fram í byrjun þings, er úr garði gert. Nú hefur það verið svo, a. m. k. þau ár sem ég hef haft kynni af þessum málum, að allverulegar breytingar hafa átt sér stað á fjárlagafrv. í meðförum fjvn. og Alþ. frá því það er lagt fram. Má því segja að allt til þessa hafi þm. haft til þess aðstöðu og fengið til þess tækifæri að gera breyt. á fjárlagafrv. frá því sem það er þegar það kemur úr höndum hæstv. ríkisstj. Nú blasir þetta á allt annan hátt við. Það fjárlagafrv., sem hér er verið að ræða, er, eins og ég sagði áðan, fjárlagafrv. 9 hv. stjórnarþm., 8 ráðh. og formanns fjvn., en hinir 33 hafa hvergi nærri því komið eða eiga nærri því að koma, að fá eitt eða neitt um það að segja hvort eða hvaða breytingum það á að taka í meðförum. Og ég held, að þegar menn hafa þetta í huga, þá sé augljóst að slík meðferð mála á löggjafarsamkomu í lýðræðis- og þingræðisríki undirstrikar það, svo að ekki verður um villst, að Alþ. er á hraðri leið að verða eins konar afgreiðslustofnun fyrir hæstv. ríkisstj. Því er ætlað að hafa stimpilinn og setja hann á að beiðni hæstv. ríkisstj. Ég fyrir mitt leyti verð að segja það, að mér finnst það furðulegt.

Nú eru að vísu svo fáir stjórnarliðar í þingsalnum að það má kannske taka það svo að það sé verið að skamma aðra en þá sem raunverulega ættu við skömmunum að taka. Að vísu er hæstv. fjmrh. við, sem kannske mestu máli skiptir nú. Hann er, sá eini af hæstv. ráðh. sem hefur séð ástæðu til þess hér í dag að vera við umr. um fjárlagafrv., svo merkilegt plagg sem það nú annars er. En mér finnst það furðulegt af hv. þm. stjórnarliðsins að þeir skuli láta hafa sig til slíks, láta setja sig í það hlutverk eitt að segja já og amen við því sem hæstv. ráðh. lögðu til á aflíðandi sumri að gert yrði í sambandi við fjárveitingar og fjárlagafrv. í heild. Hér er verið að ráðstafa fjármunum upp á um 57 milljarða kr. og aðeins 9 af 42 þm. stjórnarliðsins fá þar um að segja eitt eða neitt við endanlega afgreiðslu málsins. Þetta eru hörmuleg tíðindi, en eigi að síður sönn.

Það er því ekki furða þó að upp komi í huga manna spurningin um það, hvort lýðræðinu og þingræðinu í landinu sé virkilega svo komið sem hér blasir við. Og ég fyrir mitt leyti, því miður, verð að svara þeirri spurningu játandi. En ekki er nú nóg með þetta. Eins og var rakið í framsögu hv. þm. Geirs Gunnarssonar, þá hefur það verið stór þáttur í störfum fjvn. að veita viðtöl hinum ýmsu aðilum, forsvarsmönnum ríkisstofnana, félagasamtaka, einstaklinga og sveitar- og bæjarstjórna, — veita þeim viðtöl á þeim tíma sem fjvn. hefur haft fjárlagafrv. til umfjöllunar. Þessum viðtölum er ætlað að gefa hinum ýmsu aðilum tækifæri til að koma á framfæri við fjvn. óskum sínum og athugasemdum í sambandi við hinar ýmsu fjárveitingar sem þeim eru ætlaðar. Að þessu sinni var þetta sviðsett á sama hátt og áður að því leytinu til, að viðtölin áttu sér stað, en fyrir fram ákveðið að ekkert tillit skyldi tekið til einna eða neinna óska þeirra sem á fund fjvn. komu til þess að gera grein fyrir sínum málum. Í þessu tilviki var ákveðið að hlusta, en neita öllum óskum þessara aðila um leiðréttingar eða breytingar, hvernig svo sem mál stóðu eða að hversu miklu leyti sem viðkomandi aðilar gátu sýnt með rökum fram á að breytinga væri þörf. Ég harma það, að meirihlutamenn í fjvn., sem að mörgu leyti eru góðir drengir, skuli láta hafa sig til slíkrar sýndarmennsku eins og hér hefur verið sett á svið.

Það kom einnig fram í framsögu Geirs Gunnarssonar að í tíð fyrrv. ríkisstj. var talsverð vinna í það lögð að vinna að úrræðum til sparnaðar í ríkisrekstrinum. Sú vinna var innt af hendi af undirnefnd fjvn. þar sem sæti átti einn fulltrúi úr hverjum þingflokki, og var sú vinna í nánu samstarfi við fjárlaga- og hagsýslustofnun. Allri slíkri vinnu hefur í tíð hæstv. núv. ríkisstj. verið kastað fyrir borð, og það sem meira er: fulltrúa fjárlaga- og hagsýslustofnunar hefur verið kippt út úr því eðlilega samstarfi sem sú stofnun hefur verið í við fjvn. á þeim tíma sem fjvn. hefur haft fjárlagafrv. til meðferðar. Það heyrir til undantekninga og mætti telja á fingrum annarrar handar þau skipti sem fulltrúi fjárlaga- og hagsýslustofnunar hefur setið á fundum fjvn. nú á þessu hausti. Ég hef ekki svör á reiðum höndum við því hver ástæða þessa er, en kannske er sú skýringin að með hliðsjón af því að fyrir fram var ákveðið að breyta engu, þá væri það tímasóun fyrir fulltrúa fjárlaga- og hagsýslustofnunar að eyða í það tíma að sitja á fundum fjvn., þar sem fyrir fram var búið að ákveða, hvað ætti að gera, án tillits til alls annars sem kynni að koma fram.

Þá er það og, eins og hér hefur komið fram áður, með ólíkindum að fjvn., a. m. k. fjvn. í heild, hefur í tiltölulega litlum mæli farið yfir erindi sem send hafa verið á þeim tíma sem eðlilegt hefur verið talið og auglýst var á sínum tíma að ættu að berast rn. frá þeim aðilum sem óskuðu fjárveitinga á næsta fjárlagaári. Þessi erindi hafa, að ég hygg, á undanförnum árum skipt hundruðum. Ótrúlega mikill fjöldi þessara erinda liggur nú óhreyfður í fjvn., að sumu leyti og kannske að verulega meira leyti óhreyfður í viðkomandi rn., þannig að fjvn. í heild hefur ekki séð talsvert mikinn fjölda þessara erinda.

Við afgreiðslu fjárlaga þessa árs voru útgjöld á rekstrarliðum þanin langt umfram verðlagshækkun og fjárlagaútgjöld í heild voru hækkuð meira en nokkru sinni hafði áður þekkst. Þetta er athyglisvert og menn gefa því gaum þegar slíkt gerist undir handarjaðri hæstv. fjmrh. sem nokkrum mánuðum áður en hann settist í ráðherrastól taldi vel framkvæmanlegt að skera niður rekstrarútgjöld ríkissjóðs um nokkrar þúsundir millj. kr. En til þess að ná endum saman í þessu dæmi núv. hæstv. ríkisstj. fyrir árið í ár voru lántökur stórauknar og tekjuhlið áætluð af algjöru óraunsæi og auðsærri óskhyggju, og það var ljóst að ekkert samhengi var milli kjaraskerðingarstefnu núv. ríkisstj. og áætlunar um tekjur af neyslusköttum. Hinar gífurlegu hækkanir rekstrarútgjalda og stórauknar lántökur gengu þvert gegn því loforði hæstv. ríkisstj. að hamla gegn verðbólguþróun og styrkja fjárhag ríkissjóðs. Það var ljóst, að ætti að takast að afla ríkissjóði tekna til að standa undir risahækkun fjárlaga ársins 1975 varð ríkisstj. í raun að kynda undir verðbólguþróun. Og það var líka óspart gert, þegar í ljós kom að með óbreyttum tekjustofnum gátu tekjur ekki skilað sér í þeim mæli sem gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Öllum er ljóst hvað gerðist þegar eftir síðustu áramót, en þá kom í ljós að spilaborg fjárlagaafgreiðslunnar var hrunin. Þá var gripið til ráða eins og gengislækkunar, hækkunar innflutningsgjalds af bifreiðum, hækkunar verðs á tóbaki og áfengi, lögfestingar 12% vörugjalds. Þessar ráðstafanir hæstv. ríkisstj. byggðust á því að láta hverja einingu seldrar vöru skila hærri fjárhæð í neysluskatta til ríkissjóðs þegar reynslan sýndi að veltan hafði verið stórlega ofmetin. Það hefur t. d. komið í ljós að áætlanir um innflutning á bilum voru um 70% hærri en eðlilegt mátti teljast. Þessar aðgerðir voru því gerðar til þess að pína inn í ríkissjóð tekjur til að standa undir risahækkun útgjalda á fjárlögum þessa árs.

Þessar ráðstafanir dugðu þó ekki til þess að tryggja hallalausan rekstur ríkissjóðs. Þrátt fyrir niðurskurð á útgjöldum ríkissjóðs um 2 milljarða kr., sem að langmestu leyti var framkvæmdur vegna verklegra framkvæmda og sjóða, mun greiðsluhalli ríkissjóðs á þessu ári nema um 4 milljörðum kr. eða 5 sinnum hærri upphæð en spáð er í fjárlagafrv. Þetta eitt út af fyrir sig sýnir, hver hæfni þeirra hæstv. ráðherra, sem ráða ferðinni hér, er í stjórn fjármála. Algert stjórnleysi í innflutnings- og gjaldeyrismálum veldur á þessu ári ríflega 20 þús. millj. kr. viðskiptahalla við útiönd. En fáum dögum eftir að þessar staðreyndir blöstu við lýsir hæstv. ríkisstj. því yfir að hún hafi enn aukið á skuldasúpuna með um 7 þús. millj. kr. erlendu neysluláni sem tekið er til þess að unnt sé að halda áfram algjöru stjórnleysi við notkun erlends gjaldeyris.

Mér varð óvart, þegar þetta blasti við, hugsað til þeirra orða sem hæstv. núv. fjmrh. viðhafði í upphafi sinnar fyrstu fjárlagaræðu hér á hv. Alþ. í fyrrahaust. Þá sagði hæstv. fjmrh., með leyfi forseta: „Við gerð frv. til fjárlaga fyrir árið 1975 hefur verið lögð áhersla á þrjú meginatriði: Í fyrsta lagi að sporna við útþenslu ríkisbúskaparins miðað við önnur svið efnahagsstarfseminnar í landinu. Þetta hlýtur að samræmast staðreyndunum sem við blasa nú. Í öðru lagi að stilla opinberum framkvæmdum svo í hóf að ekki leiði til óeðlilegrar samkeppni um vinnuafl, án þess að atvinnuöryggi sé stefnt í hættu eða það komi niður á þjóðhagslega mikilvægustu framkvæmdunum.“ Ætli hæstv. fjmrh. hafi ekki líka haft þetta að leiðarljósi, annan punktinn í sinni fyrstu fjárlagaræðu, eða hvað sýnist mönnum blasa við í dag? — „Og í þriðja lagi“ — sem líklega hefur verið merkasti punkturinn og einn mikilvægasti í þessari upphafsræðu hæstv. núv. fjmrh. — „að styrkja fjárhag ríkissjóðs og stuðla jafnframt að efnahagslegu jafnvægi í víðari skilningi, en það verður eitt meginviðfangsefnið á næsta ári“ — þ. e. a. s. árinu í ár — „að stuðla að efnahagslegu jafnvægi þjóðarbúsins“.

Nú er þetta efnahagslega jafnvægi röskir 20 þús. millj. kr. viðskiptahalli í ár.

Í þjóðhagsáætlun fyrir næsta ár er gert ráð fyrir því að afleiðingar þeirrar stefnu, sem menn hafa nú orðið varir við, verði 14–16 þús. millj. kr. viðskiptahalli á næsta ári. Og í skýrslu Þjóðhagsstofnunar frá 28. nóv. s. l. segir að viðskiptahallinn verði svo mikill að gera verði ráð fyrir mjög miklu innstreymi erlends fjármagns á næsta ári. Þetta er það sem við blasir vegna stefnu hæstv. ríkisstj. sem hefur í stefnumótun látið hagsmuni innflytjenda og annarra gróðaafla ráða ferðinni algerlega.

Við afgreiðslu fyrstu fjárlaka núv. hæstv. ríkisstj., fjárlaga ársins 1975, var áætluð skattheimta ríkissjóðs hækkuð um 63.2% frá fjárlögum ársins 1974 eða 50% meir en nam verðlagsbreytingum á undanfarandi ári. Útgjöld hækkuðu þá í heild um 60.5% og einstakir þættir þó enn meir. T. d. hækkuðu liðirnir önnur rekstrargjöld um 86.2%. Til viðbótar þessari stórfelldu hækkun er í fjárlagafrv. fyrir árið 1976 gert ráð fyrir ríflega fimmtungshækkun heildarútgjalda til viðbótar, þannig að fjárlög næsta árs verða um 100% hærri en fjárlög ársins 1974, þ. e. a. s. þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við.

Við umr. um fjárlagafrv. fyrir árið 1975 var af okkur stjórnarandstæðingum mjög gagnrýnt að breytingar á einstökum þáttum þess fjárlagafrv. voru fyrst og fremst í þá átt að rekstrarliðir hækkuðu hlutfallslega meira miðað við heildarútgjöld heldur en aðrir liðir sem eru til framkvæmda. Í fjárlagafrv., sem hér er til umr., er sömu stefnu fylgt, en þó virðist þetta vera í enn ríkara mæli en áður. Það fékkst nokkur breyting á þessu við meðferð fjárlagafrv. fyrir árið 1975 í fjvn. og á Alþ., en með þeirri stefnu, sem nú virðist hafa verið upp tekin af hálfu

hæstv. ríkisstj., hefur allt frá upphafi í haust verið lokað á svo til allar breytingar varðandi þessi mál.

Það er því ljóst að enn er haldið áfram að lækka í raungildi og í krónutölu í sumum tilvikum verklegar framkvæmdir, og nú er einnig stefnt að því að draga mjög verulega úr hinum félagslegu réttindum almennings með alls konar niðurskurði á fjárlagaliðum sem þeim tilheyra. En þrátt fyrir að þetta hafi gerst hefur raungildi fjárveitinga til verklegra framkvæmda og tryggingamála minnkað í heild miðað við þjóðarframleiðslu. Aðaleinkenni fjárlagaafgreiðslu hæstv. ríkisstj. eru því þau, að ríkisútgjöld í heild verða því fyllilega sama hlutfall af þjóðarframleiðslu og áður, en verulegar breytingar verða milli einstakra þátta, þar sem jákvæðustu þættirnir eru skornir niður til þess að mæta útþenslunni á rekstrarliðunum. Sú útþensla stafar fyrst og fremst af stefnu hæstv. ríkisstj. þ. e. gengislækkun, söluskattshækkunum, vaxtahækkunum og álagningu vörugjalds.

Nú þegar 2. umr. fjárlaga fer fram 16. des., sem er síðasti mögulegi dagur til þess að umr. geti farið fram ef ljúka á afgreiðslu fjárlaga fyrir jól, eru miklu fleiri stórir málaflokkar fjárlagafrv. óafgreiddir og bíða 3. umr. heldur en áður hefur verið. Það er, að því er mér virðist a. m. k., miklu erfiðara að sjá út yfir það hver endanleg niðurstaða kann að verða, þó að óhætt sé að fullyrða að verði haldið áfram í sama dúr og hingað til við afgreiðsluna, þá sjá menn nokkuð fyrir að ekki á að leyfa miklar breytingar frá því sem gert hefur verið ráð fyrir, þ. e. a. s. ef hlekkirnir halda í handjárnum stjórnarliða.

Við 1. umr. fjárlagafrv. í haust gagnrýndi ég nokkuð meðferð mála í sambandi við þann niðurskurð sem ákveðinn var af hæstv. ríkisstj. á þessu ári. Ég gagnrýndi það t. d. að þá hafði fjvn. ekki fengið neina vitneskju eða greinargerð um það með hvaða hætti hinar ýmsu ríkisstofnanir höfðu staðið að niðurskurði á mörkuðum fjárveitingum til hinna ýmsu framkvæmda, eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Ég gagnrýndi það harðlega að t. d. stofnun eins og Póstur og sími hafði ekki þá gert grein fyrir því í fjvn. að neinu leyti hvernig framkvæmdur hafi verið niðurskurður á fjárfestingarliðum í þeirri stofnun árið 1975. Þess var óskað strax við póst-og símamálastjóra og þá, sem ráða ferðinni í fjvn., að fá um það upplýsingar með hvaða hætti hefði hér verið staðið að málum, en þær upplýsingar liggja ekki fyrir enn og er þó kominn 16. des.

Hæstv. fjmrh. sagði í gær, í sambandi við annað mál að vísu, að það væri aðeins um að ræða heimildarákvæði til þess að skera niður þetta eða hitt, en fjvn. mundi síðan fá það til umfjöllunar. Ég vil mótmæla því að einstökum ríkisstofnunum skuli líðast að framkvæma niðurskurð í stórum stíl á framkvæmdum, sem búið er að afmarka í fjárlögum, án þess einu sinni að gera fjárveitingavaldinu grein fyrir því með hvaða hætti það er gert, hvað þá heldur að fá að fjalla um það á hvern hátt það er gert. Það á a. m. k. ekki að mínu viti að vera í höndum einstakra embættismanna víðs vegar í kerfishringnum að ákveða hvaða framkvæmdir skuli unnar eða unnar ekki. Þar á fjárveitingavaldið að segja síðasta orð. Þetta á ekki bara við um Póst og síma, þetta á líka við um Rafmagnsveitur ríkisins. Það hefur engin skýring verið gefin á því með hvaða hætti var staðið að niðurskurði á framkvæmdum hjá Rafmagnsveitum ríkisins á árinu 1975, og þrátt fyrir margítrekaðar beiðnir og óskir fjvn.- manna hefur slík skýring ekki fengist enn í dag frá hvorugu þessara fyrirtækja. Og ég vil nota þetta tækifæri enn einu sinni til þess að mótmæla slíkum vinnubrögðum. Ég tel að fjárveitingavaldið eigi heimtingu á að fá að vita með hvaða hætti embættismannakerfið stendur að þessu. Það er lágmarkskrafan. En auðvitað á fjárveitingavaldið að ráða því, hvernig með þessi mál er farið.

Það eru ótalmörg önnur atriði að því er varðar upplýsingar um fjárlagafrv. og um framkvæmdir í ár, sem voru á fjárlögum, sem fjvn. hefur alls ekki fengið neinar upplýsingar um þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Ég bið menn ekki að taka það svo að ég sé að drótta því að stjórnarliðum í fjvn. að þeir vilji endilega liggja á þessu. Ég efast um að þeir hafi sjálfir fengið þær upplýsingar. En embættismannakerfinu er látið líðast að neita Alþ. eða starfsnefndum Alþ. um þær upplýsingar sem óskað er eftir. Ég a. m. k. vil ekki sætta mig við slíkt. Og ég vil biðja hæstv. fjmrh. að minnast þessa í framtíðinni. Ég þykist vita að það er ekki hans meining að ekki liggi fyrir allar upplýsingar sem óskað er eftir, en þetta hefur þó gerst, því miður, að ekki hafa fengist þær upplýsingar sem fjvn.- menn hafa um beðið. Hverjum það er að kenna, það get ég ekki fullyrt á þessu stigi máls.

Eins og ég sagði áðan, þá er fjöldinn allur af stórum málaflokkum sem enn hafa enga umfjöllun fengið í fjvn., og eftir því sem mér sýnist mál standa í dag, þá verður það rösklega einn sólarhringur sem fjvn. fær til að fjalla um alla þessa stóru málaflokka milli 2. og 3. umr. ef á að afgr. fjárlögin fyrir jólahlé. Ég vil því taka miklu sterkar til orða en hv. þm. Geir Gunnarsson í sambandi við að átelja slík vinnubrögð. Það er ekki boðlegt að bjóða Alþ. og alþm. upp á slíkt stjórnleysi og vinnubrögð í sambandi við afgreiðslu svo stórs máls sem fjárlagagerðin er, eitt stærsta verkefni hvers Alþ. Það er forkastanlegt að þurfa að segja svo til sömu orð í þessum dúr ár eftir ár. Menn vorkenndu hæstv. ríkisstj. í fyrra vegna þess hversu seint hún settist í hina langþráðu stóla. En í ár er engri slíkri vorkunnsemi fyrir að fara. Hér er fyrst og fremst um að ræða stjórnleysi, skipulagsleysi sem á að uppræta, hvaða meiningar sem menn svo hafa í sambandi við óstjórn á öðrum sviðum hjá hæstv. ríkissj. Ég held að þegar svo er komið að aðeins einn til tveir dagar gefast til þess að ræða stóra málaflokka, marga milli 2. og 3. umr., þá megi í raun og veru segja, að þessir málaflokkar fái enga athugun sem að gagni kemur eða vit sé í. Það verður hafður sami háttur á og við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1975. Menn rjúka upp til handa og fóta og hrista mál af óathuguð, óskoðuð kannske, og síðan lendir allt í einni vitleysu og menn hafa ekki hugmynd um hvaða mál er búið að afgr. og hvaða mál eru eftir. Sú var raunin á í fyrra og mér sýnist allt stefna í sömu átt nú.

Ég skal ekki telja upp þá málaflokka sem mest ber á í sambandi við það sem óafgreitt er, það hefur verið gert hér áður. En ég ítreka það, að það eru svo veigamiklir málaflokkar og stórir að það er nánast óverjandi að ætla ekki lengri tíma en einn til tvo daga til þess að ræða þau mál og komast að niðurstöðu.

Eins og öllum hv. alþm. er kunnugt byggist það fjárlagafrv., sem hér er til umr., á því að nokkuð mörgum núgildandi lögum verði breytt. Frv. þar að lútandi hafa verið að koma fram. Þau hafa verið slitin upp eins og ber, eitt og eitt á stangli, með ákveðnu millíbili, og dreift í þinginu allt fram á daginn í dag, síðast núna rétt áðan var að koma eitt af þeim frv. sem gert var ráð fyrir að yrðu fylgifiskar fjárlagafrv. Það er auðvitað algjörlega vonlaust mál og getur varla verið að hæstv. ríkisstj. ætlist til þess, að samtímis því að verið er að afgr. alla þá málaflokka sem eftir eru í fjvn. varðandi afgreiðslu sjálfs fjárlagafrv., þá sé á sama tíma verið að fjalla hér um öll þessi lagafrv. sem fyrir báðum deildum liggja, en þó eru í tengslum við fjárlagafrv. Það getur ekki verið meining hæstv. ríkisstj. Ég þykist vita, að það er a. m. k. ekki meining hæstv. fjmrh. að öll þessi mál verði afgr. Það er gjörsamlega vonlaust mál. Ef það er meining hæstv. ríkisstj. t. d. að ætla að keyra hér í gegn það mál, sem nú er verið að útbýta, um breyt. á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þá er hæstv. ríkisstj. vísvitandi að stefna að því að fjárlög verði ekki afgr. fyrir jól. Ég á a. m. k. eftir að sjá það að þm., meira að segja hv. stjórnarþm. sumir hverjir, fáist til þess að keyra svo á í þessum málum að þau verði afgr. á einum eða tveimur dögum. En ef þetta er meining hæstv. ríkisstj., þá vinnur hún að því leynt og ljóst að koma í veg fyrir að fjárlög verði afgr. fyrir jólahlé.

Ég get ekki stillt mig um þó að það kannske heyri betur undir umr. síðar, vegna þess frv. sem nú er til meðferðar í hv. Nd., að nefna hér eitt mál sem ég held að allir þeir ræðumenn, sem tóku til máls við 1. umr. fjárlagafrv., gerðu að umtalsefni, en það var sú ætlan hæstv. ríkisstj. að skera niður framlög til almannatrygginga um 2 milljarða á næsta ári. Það var talið liggja mjög á að koma á fót nefnd til að gera skynsamlegar till. í sambandi við þennan niðurskurð. A. m. k. var óskað eftir því við þingflokk Samtaka frjálslyndra og vinstri manna 20. okt., ef ég man rétt, að hann tilnefndi með hraði fulltrúa til að gera till. um hvernig ætti með þetta mál að fara. Að sjálfsögðu var orðið við þessu og svo hygg ég að hafi orðið um aðra. Fyrsti fundur í þessari n., sem átti að gera till. um með hvaða hætti ætti að gera þær breyt. á almannatryggingalögunum sem hæstv. ríkisstj. vildi láta gera, — fyrsti fundur í þessari nefnd, frá því að hún var skipuð 20. okt., var kallaður saman s. l. föstudag, og þá, eftir því sem mér skilst, lágu engar till. fyrir um það, með hvaða hætti ætti að gera þetta. Það er svo furðulegt að slíkt skuli geta átt sér stað, að það er varla að menn geti komið sér til að tala um þessa hluti. Tveimur dögum eftir að þessi fyrsti fundur er haldinn er dreift á borð hv. þm. frv., sem mætti kalla frv. til l. um breyt. á almannatryggingalögum og skattheimtu sveitarfélaga, því að allan tímann frá 20. okt. til 11. eða 12. des. hafa hv. stjórnarþm. haft þann starfa m. a. að þreifa sig þrep af þrepi yfir á hugsanlega samningaleið um það með hvaða hætti skyldi leysa það mál sem hæstv. ríkisstj. vildi leysa á allt annan veg en nú virðist blasa við að eigi að gera. Okkur hinum er síðan ætlað að taka afstöðu til þessa máls á einum til tveimur dögum.

Svona mætti halda áfram að telja fjöldann allan af atvikum sem sýna fram á algjört stjórnleysi, óskynsamleg vinnubrögð og óvirðingu, vil ég segja, við hv. Alþ. af hæstv. ríkisstj., eins og hún stendur að málatilbúnaði hér á Alþ. nú. Þetta virðist því miður látið óátalið af hv. þm. stjórnarflokkanna. Þeir, sem þar voru bitastæðir áður, virðast vera af þingi farnir og hinir, sem eftir eru og nú skipa meiri hl., virðast fáanlegir til svo að segja hvers sem er ef hæstv. ráðh. biðja um. Mér sýnist það vera hörmulegt hvað flokksþjónkunin virðist ná langt inn í hug og hjarta hv. núv. stjórnarliða hér á Alþ. og mér finnst það furðulegt ef þeir 33 stjórnarþingmenn, sem ekkert hafa fengið að ráða við gerð fjárlaga ársins 1976, ætla að leggja blessun sína yfir gerðir hinna 8 eða 9, — eftir því hvort við tökum formann fjvn. með, við tökum a. m. k. ráðh. þó að það sé nú talinn vafi á því að þeir viti allir um hvað er að gerast, en við skulum hafa þá alla með, — það er furðulegt ef hinir 33 stjórnarliðar hér á hv. Alþ. ætla að sætta sig við það að fá að segja bara já og amen við því sem hinir 9 eru búnir að gera í allt haust.

Nú við 2. umr. þessa máls, eins og ég hef áður vikið að, er ekki tækifæri til þess að ræða fjölda þeirra málaflokka sem vissulega væri ástæða til, en það er talið heldur óæskilegt að vera að ræða hér nú við 2. umr. málaflokka sem ekki hafa fengið neina umfjöllun í fjvn. og bíða endanlegrar afgreiðslu til 3. umr. Þó eru hér örfáir málaflokkar sem ég vil aðeins víkja að.

Það liggur t. d. fyrir að í sambandi við hafnarframkvæmdir á að verja á árinu 1976 rösklega 500 millj. kr. til nýrra framkvæmda í höfnum. Þessar 500 millj. eiga að fara í framkvæmdir á ca. 37 höfnum svo að það er ekki stór biti ef skipt væri upp eftir neyðarreglunni, eins og hv. þm. meiri hl. fjvn. orðuðu svo. Þeir telja hér um neyðarúthlutun að ræða í sambandi við hafnarframkvæmdir. Sjá það allir í þeirri gífurlegu þörf, sem hafnir hinna ýmsu staða víðs vegar í kringum landið eru í fyrir framkvæmdir, að þá verður ekki mikið gert fyrir 500 millj. á árinu 1976. Það held ég að öllum sé ljóst.

Hafnaáætlun, 4 ára áætlun var lögð hér fram á Alþ. í fyrrahaust og var meiningin að afgr. hana þá, en hún fékk aldrei frekari afgreiðslu en það að hún fékk hér eina umr. og var síðan vísað til fjvn. Þar hefur aldrei verið litið á hana síðan, fyrr en núna að upp kom sú staða að það þurfti að fara að ákvarða fjárveitingar til framkvæmda í hinum ýmsu höfnum. Þá eftir eitt ár fóru menn að taka hana upp og skoða hvað hefði verið talið mest knýjandi og þurfti að gera á árinu 1976, sem var fyrsta ár þessarar 4 ára hafnaáætlunar. Þá kom í ljós að hefði átt að halda við þá áætlun, þá þurfti að verja til framkvæmda í höfnum á árinu 1916 1300 millj. kr., en það eru 500 í till. núv. meiri hl. fjvn. Hér er um að ræða annað árið í röð sem stórkostlegur niðurskurður á sér stað í framkvæmdum við hafnir víðs vegar í kringum landið, — stórkostlegur niðurskurður annað árið í röð, þrátt fyrir þá brýnu nauðsyn sem ber til að gera verulegt átak í endurbótum og uppbyggingu hafna víðs vegar vegna hins nýja skuttogaraflota sem hefur verið að koma til landsins á undanförnum árum. Og það verður að teljast furðulegt, því að ég hygg að a. m. k. nokkrum, ef ekki mörgum hv. stjórnarþm. ætti að vera kunnugt um að staða hafnarsjóðanna í landinu er slík, að það verður ekki undan því vikist, að gera stórátak til þess að lagfæra þau mál.

Í núgildandi hafnalögum er ákvæði til bráðabirgða sem gerir ráð fyrir því að veitt sé sérstök fyrirgreiðsla til þeirra hafnarsjóða sem verst eru settir í sambandi við skuldir og lántökur. Ekkert hefur verið gert í þessu efni í 2 ár, þ. e. a. s. í tíð núv. hæstv. ríkisstj., — ekkert gert. Mér þykir sárt að hæstv. samgrh. skuli ekki vera í salnum, því að það væri full ástæða til að minna hann á þetta ef hann er búinn að gleyma því. Í fjárlögum bæði ársins 1974 og 1975 var heimild til lántöku til þess að sinna þessu brýna verkefni hafnarsjóðanna, að létta greiðslubyrði þeirra, en í hvorugt skiptið var það notað og alltaf borið við fjárskorti. En síðan gerist það á árinu 1975, að það er ekki meiri fjárskortur hjá hæstv. ríkisstj. en það, að hún telur sér fært að verja með sérstökum hætti, fyrir utan lög og reglur í landinu, fjármunum til Reykjavíkurhafnar. Það er ekki meiri fjárskortur en það. En gildandi lögum um aðrar hafnir er í engu sinnt. Hér er því vísvitandi, eins og í mörgu öðru, stefnt í gjörsamlegt óefni, og verður að teljast furðulegt að það skuli ekki takast að opna svo augu ráðandi manna í þjóðfélaginu að þeir fái sýn í þessum efnum og geri sér grein fyrir hvernig málum er komið.

Í sambandi við grunnskóla, einn af þeim málaflokkum sem búið er að afgr. í fjvn., er gert ráð fyrir nákvæmlega sömu krónutölu og var á fjárlögum ársins 1975, — nákvæmlega sömu krónutölu þrátt fyrir þá geigvænlegu hækkun kostnaðar sem átt hefur sér stað og fyrst og fremst er um að kenna stjórnleysi hæstv. ríkisstj. Og það er ekki ómyndarlegar að því staðið en það, að ekki einn einasti aðili sem hefur á fyrri árum bara haft undirbúningsfjárveitingu, — enginn af þessum aðilum, sem eru margir, fær heimild til að hefja framkvæmdir á árinu 1976, ekki einn einasti. Það er ekki ómyndarlega að staðið hinni nýju löggjöf í sambandi við grunnskóla. Það er lítið grettistakið sem hæstv. menntmrh. lyftir í sambandi við uppbyggingu eftir þeirri löggjöf á árinu 1976. Ég man ekki betur en að ég hafi heyrt bæði hæstv. menntmrh. og fjöldann allan af hv. stuðningsmönnum núv. ríkisstj. leggja á það höfuðáherslu á undanförnum árum að brýnasta verkefnið í uppbyggingu menntamálanna væri að auka veg verkmenntunar í landinu, og ég átti ekki von á öðru en að menn væru um þetta almennt sammála. Og það er ekki amalega staðið við þessi gefnu fyrirheit eða töluðu loforð og hugsjónir hæstv. ríkisstj. í sambandi við verkmenntun í landinu. Það er staðið að því með þeim hætti að skera niður í krónutölu. Menn fárast nú yfir því að það skuli vera skorið niður í sambandi við framkvæmdir, og vissulega er það efni til að harma. En það eru skornar niður í krónutölu fjárveitingar til iðnskóla í landinu á árinu 1976 frá því sem er í fjárl. ársins í ár.

Ef áfram verður haldið í sama dúr og hingað til í sambandi við afgreiðslu mála í fjvn., þá væri hægt að taka þessa málaflokka svo til hvern og einn út af fyrir sig og tala um þá í sama dúr og ég hef hér gert, því að allt eru þetta nauðsynlegar framkvæmdir sem allar eru meira og minna skornar niður á sama tíma og rekstrarútgjöld ríkissjóðs eru stórkostlega aukin.

Einn af þeim fáu þáttum, sem búnir eru að fá umfjöllun í fjvn. og liggja nú fyrir afgreiddir, er í sambandi við íþróttamál, og svo hörmulega sem að mörgum málum er staðið af fjvn., þ. e. a. s. meiri hl. hennar, og hæstv. ríkisstj., þá er nú hvað hörmulegast, að því er mér sýnist, hvernig á að fara með það sem búið var þó að koma í lag í tíð fyrrv. ríkisstj. í sambandi við íþróttamál. Þegar fyrrv. ríkisstj. tók við völdum var skuldahali upp á 80 millj. kr. frá „viðreisn“, sem ríkið átti eftir að standa skil á til sveitarfélaga í landinu vegna byggingar íþróttamannvirkja. Skv. lögum 1973 var gert samkomulag um að eyða þessum hala. En nú er ljóst, eins og málið hefur verið afgr. frá meiri hl. fjvn., að strax á næsta ári verður búið að hlaða upp skuldahala í þessum málaflokki upp á 76 millj. kr. — strax á árinu 1976, og mér þykir slæmt að hafa ekki enn hæstv. samgrh. hér, því að við 1. umr. fjárlagafrv. fyrir árið 1975, þegar ég ásamt fleiri stjórnarandstæðingum vorum að gagnrýna með hverjum hætti við óttuðumst að hæstv. ríkisstj. ætlaði að standa að fjárveitingum til þessara aðila, þá sagði einmitt hæstv. samgrh., sem oft síðan 1974 féll í þá gröf að tala sem fjmrh., — hann sagði þá, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil líka segja það út af því, sem hefur verið rætt hér um þátt íþróttamála og félagsmála almennt, að ég treysti því fastlega að haldið verði við þá stefnu, sem fyrrv. ríkisstj. tók upp, að sinna íþróttamannvirkjum með þeim hætti að það verði ekki meira um framkvæmdir en að það verði greitt til þeirra jafnharðan og framkvæmdir eiga sér stað og haldið verði við þann samning að greiða upp gömlu skuldina, sem ég veit líka að verður gert.“

Og hæstv. ráðh. heldur áfram og segir: „Þess vegna verður að vera samband á milli þeirra íþróttamannvirkja, sem á að vinna á næsta ári, og þeirra fjárveitinga, sem verða í fjárl. þegar þau verða afgr.

Þetta var skynsamlega mælt hjá hæstv. samgrh. fyrir ári og í alla staði eðlilegt. En nú standa mál sem sagt þannig, að það á að hverfa frá þessum skynsamlegu vinnubrögðum. Ég ætlaði því að nota tækifærið til þess að beina þeim tilmælum til hæstv. samgrh., að sé hann sömu skoðunar enn, sem ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en sé, að hann reyni nú að koma því inn í höfuðið á sínum meðrh. og samrh. og stjórnarþm. almennt að það verði horfið að því aftur núna að standa við þessar greiðslur og standa að málum á þann hátt sem búið var að ákveða, en ekki hranna upp svo að milljónatugum skiptir skuldum við sveitarfélögin í landinu bara vegna þessa eina þáttar, þ. e. íþróttamannvirkja.

Nú er víst á sama hátt og kannske enn meira áberandi staðið að því við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1976 að skerða stórlega fjárveitingar til hinna ýmsu félagslegu samtaka einstaklinga sem vinna að menningar- og mannúðarmálum. Ég fyrir mitt leyti vil gagnrýna það harðlega, á sama hátt og hæstv. ríkisstj. þenur út ríkisreksturinn, að þá notar hún tækifærið til þess að ráðast að þessum aðilum ásamt mörgum öðrum málaflokkum og skera þá svo að segja niður við trog. Hæstv. samgrh. tjáði sig líka í þessu máli við 1. umr. fjárl. í fyrra og sagðist ekki hafa neina trú á því þá, hæstv. ráðh., að þó að fjárlagafrv. þáv. væri lagt fram með sömu tölu í upphafi og gert var ráð fyrir í fjárl. ársins 1974, þá sagðist hann ekki vera í neinum vafa um að þetta tæki breyt. í meðförum fjvn. og beinlínis ætlaðist til þess. Það skal viðurkennt að í örfáum undantekningaratriðum fengust á þessu breytingar við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1976. En mér sýnist því miður að hér eigi svo til engar breyt. að eiga sér stað við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1976, þar eigi allt að vera í járnum. Ég hefði einnig viljað beina þeim tilmælum til hæstv. samgrh. að hann minnti sína samherja einnig í þessu tilviki á það, að hér væri óskynsamlega að farið og hér væri einungis verið að safna upp skuldum fyrir framtíðina, enginn vandi leystur, nema síður sé.

Að síðustu skal ég aðeins víkja örfáum orðum að einum þætti sem ekki hefur hlotið afgreiðslu í fjvn. nú fyrir 2. umr., en það er í sambandi við flugmál. Ég vil nota þetta tækifæri, sem gefst nú við 2. umr., áður en málið verður afgr. í n., til þess að gera tilraun til þess að vekja hv. stjórnarþm. til umhugsunar um það í hversu mikið óefni er stefnt ef þeir ætla að láta hæstv. ríkisstj. hafa sig til þess að vera handjárnaðir einnig í þessu máli. f blaði sjálfs hæstv. samgrh., Tímanum, er s. l. föstudag viðtal við flugmálastjóra sem ber yfirskriftina, með leyfi hæstv. forseta: „Verðum að loka flugvöllunum úti á landi ef við fáum ekki fé.“ Í þessu viðtali gerir flugmálastjóri á skilmerkilegan hátt grein fyrir því hvernig ástandið er í raun og veru í þessum málum ef á að halda sér við það að skera svo stórkostlega niður fjárveitingar til flugmála eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Ef ekki verður hægt að opna augu eða fá upp hendur hv. stjórnarþm. í atkvgr. um málið til hækkunar frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, þá blasir við algjört neyðarástand í sambandi við flugþjónustuna í landinu. Það er stefnt í stórkostlega aukna slysahættu í flugi ef ekki verður hægt að vekja rækilega athygli stjórnarliða á því að hér verður að fást breyting á. Í fjárl. ársins 1975 var fjárveiting upp á 202 millj. kr. til flugmálanna. Það mun síðar hafa verið skorið niður. Hæstv. fjmrh. var svo elskulegur að gauka að mér fyrr á þessum þingfundi lista yfir framkvæmd þess niðurskurðar sem hann óskaði eftir á þessu ári, hvernig það yrði framkvæmt. Því miður hef ég ekki haft tíma til þess að fara yfir hann, en þetta var eitt af þeim plöggum sem löngu var búið að biðja um í fjvn. og fengust þó ekki fyrr en þetta. Það skal þó þakkað að þetta kom, þó að seint sé, hæstv. ráðh. En óskir flugmálastjórnar í sambandi við fjárfestingar og viðhald við gerð fjárlaga ársins 1976 voru upp á 979 millj. kr. Síðan voru þessar óskir endurskoðaðar, og síðast þegar við í fjvn. vissum til voru þessar óskir komnar niður í 450 millj. kr. sem var algjört lágmark að áliti flugmálastjóra að yrði að fást til þess að væri hægt með eðlilegum hætti að sinna þeirri þjónustu sem nú er í sambandi við flugmálin. í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 252 millj. Það sjá því allir að hér er um svo alvarlegt og mikið mál að ræða, að það verður ekki komist hjá því að fá hér hækkun á fjárframlögum til flugmálanna, ef ekki á að stiga stórt skref aftur á bak í sambandi við þjónustu í lofti. Það má vel vera að einhverjum hv. þm. þyki að hér sé dökk mynd upp dregin. En ég hef sjálfur persónulega orðið fyrir því að flugferðir hafa verið felldar niður vegna þess að ekki hefur verið hægt að greiða vinnulaun vegna ákveðins starfs sem þurfti að vera fyrir hendi svo að flug gæti átt sér stað. Þetta hefur þegar gerst, þannig að ég hygg að flugmálastjóri dragi ekki upp of dökka mynd af því ástandi sem kemur til með að verða ef hæstv. ríkisstj. ætlar að halda á þessu máli eins og allt bendir til nú í dag að hún ætli að gera.

Ég segi því enn og aftur: Hér er vísvitandi stefnt að því að skerða stórkostlega þá þjónustu, kannske ekki síst við landsbyggðina, sem verið hefur í sambandi við flugið, og það sem verra er, því miður virðist vera stefnt að stórkostlega aukinni slysahættu ef ekki er hægt að fá hér breytingu á.

Herra forseti. Ég skal ekki fara öllu fleiri orðum um þetta nú og er raunar orðinn nokkuð miklu laugorðari en ég ætlaði í fyrstu. En ég vil ítreka það, að ég fordæmi í fyllsta máta þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í sambandi við afgreiðslu málsins í fjvn. og að það skuli hafa staðið á svo að vikum og jafnvel mánuðum skiptir upplýsingum, sem nm. hafa óskað eftir. Og ég vænti þess, — enn verð ég að tala við hæstv. fjmrh. því að hann er hér einn af hinum 8, enginn annar sést, — ég vænti þess að hann komi því til leiðar, — og ég hef þann fyrirvara á: verði hann í embætti að ári — að hann komi því til leiðar að skynsamlegri vinnubrögðum verði beitt við afgreiðslu mála og umfjöllun, ekki bara í fjvn. heldur og í sambandi við þingstörfin.

Ég vil svo að síðustu vekja athygli á því, að mér sýnist, eins og málum er komið í dag, að þá sé ekki nema tvennt til í sambandi við afgreiðslu fjárl. Annaðhvort er að þau verði afgr. með greiðsluhalla, sem allir hæstv. ráðh. hafa svarið og sárt við lagt að ekki mætti eiga sér stað, eða að það verði að afla nýrra tekna með einhverjum hætti. Núna þegar aðeins eru eftir 3–l dagar af starfstíma þingsins fyrir jólahlé, þá hefur ekkert sést um það enn eða nein vitneskja um það fengist enn að það séu í bígerð af hálfu hæstv. ríkisstj. nýjar tekjuöflunarleiðir.

En það verður þá líklega í fyrsta skipti, ef það gerist, sem það á sér stað að fjárl. verði afgr. með þeim hætti að gert sé ráð fyrir tekjuöflun með nýjum sköttum án þess að frv. um þá hafi sést á Alþ. Ef það verður, þá verða þau vinnubrögð til þess að kóróna allt það sem hér hefur gerst, þó að slæmt sé, nú á þessu herrans ári 1975. En þetta er sem sagt ljóst, og því hygg ég að enginn beri á móti. Það er ekki nema tvennt til: Annaðhvort verður að afgr. fjárl. með greiðsluhalla eða gera ráð fyrir nýjum tekjustofnum með skattheimtu, og kannske er það það sem hæstv. ríkisstj. stefnir á.