21.10.1975
Sameinað þing: 5. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

289. mál, rannsókn á reki gúmbjörgunarbáta o.fl.

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Þær fsp., sem hér er um að tefla, eru þessar:

„1. Eru einhverjar aðgerðir fyrirhugaðar til þess að tryggja og auðvelda húsbyggjendum að fá endurgreiddar þær fjárhæðir sem verðlagsráð hefur nýlega upplýst að óleyfilega hafi verið af þeim hafðar með röngum útreikningum á launatengdum gjöldum vegna ákvæðisvinnu iðnmeistara?"

Svarið er: Að lokinni athugun verðlagsskrifstofunnar á útreikningum seldrar ákvæðisvinnu ýmissa iðnmeistara og að lokinni athugun hjá viðskrn. hefur verðlagsstjóri kært málið til saksóknara ríkisins sem tekur frekari ákvarðanir um framhald málsins. Væntanlega fer fyrst fram rannsókn fyrir dómi og að henni lokinni verður svo tekin ákvörðun um það, hvort mál verður höfðað á hendur þeim sem kærðir verða, en hér getur þurft að greina á milli einstakra aðila og svo aftur stjórnar félaga og stjórnar sambands sem fyrst og fremst fer með útreikninga af þessu tagi. Verði sök sönnuð í máli, þá ætti að skapast grundvöllur til að byggja á endurkröfu vegna oftekinnar greiðslu fyrir ákvæðisvinnu. Það munu nú vera fyrir hendi gögn sem hægt er að reikna slíkar kröfur út eftir, en þó er hér um umfangsmikinn útreikning að tefla. Það verður að gera ráð fyrir því, að hver sem endurgreiðslu krefst hefjist sjálfur handa um innheimtu hennar, en líklegt er, að ef til slíks kæmi, þá mundi verða rekið það sem kallað er prófmál í þessu sambandi og yrði þá væntanlega gjafsókn veitt til þess að reka það mál og á þann veg greitt fyrir því að hlutaðeigandi gæti komið fram þeirri endurgreiðslukröfu sem hann telur sig eiga.

Í öðru lagi er spurt:

„Verða gerðar einhverjar sérstakar ráðstafanir af hálfu verðlagsyfirvalda til þess að tryggja betur en gert hefur verið að alvarleg verðlagsbrot af þessu tagi eigi sér ekki stað?“

Svar: Verðlagsskrifstofan mun að sjálfsögðu leitast við að koma í veg fyrir hvers konar verðlagsbrot hér eftir sem hingað til og kæra þau brot sem upp komast. En eins og hv. fyrirspyrjandi gerði grein fyrir, þá eru þessi brot — meintu brot, skulum við segja — sem þarna er um að tefla fólgin í þessum þremur liðum sem hann drap á, þ. e. a. s. helgidögum, sem eru tvíreiknaðir, í þessu iðnaðargjaldi og í því að lífeyrissjóðsgjöld hafa verið reiknuð hærra en verðlagsstjóri telur rétt vera. Þessum útreikningum er þannig háttað að það er engan veginn auðvelt fyrir aðila á verðlagsskrifstofu að sjá að þannig hafi verið farið að, a. m. k. í sumum tilfellum, og það er auðvitað lengi hægt, ef vilji er til að fremja brot, að gera það. En við sérstaka athugun, sem fór fram á þessu nú í sumar, taldi verðlagsstjóri sig komast að því að þarna hefðu þessi meintu brot átt sér stað. En það er að sjálfsögðu verðlagsstjóri og verðlagsskrifstofan sem annast verðlagseftirlitið, en aftur á móti ekki verðlagsnefnd. Hún hefur ekkert um það að segja. Þess vegna er aldrei hægt að gefa neina tryggingu fyrir því að ekki komi til þess að brot séu framin. En auðvitað er mikilvægt, eins og sést á þessu dæmi, að reynt sé að fylgjast sem best með í þessum efnum, en eftir því sem næst verður komist virðist mega rekja þessa aðferð allt aftur til ársbyrjunar 1972.

Eins og ég sagði, þá er þetta mál þannig vaxið að þó að það hefði út af fyrir sig mátt kæra það til verðlagsdóms, þá hefur þótt eftir atvíkum réttast að kæra það til saksóknara og láta það fara þangað. Verður síðan að sjá hver niðurstaða fæst af meðferð þeirri sem hann tekur ákvörðun um.