16.12.1975
Sameinað þing: 34. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

1. mál, fjárlög 1976

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun flytja hér mjög stutt mál um fjárlagafrv., þó e. t. v. örlítið lengra en við hæfi.

Ég get tekið undir með hv. þm. Steingrími Hermannssyni, að ósanngjarnt hafi verið að kenna hv. Alþ. um að fjárlög þessa árs reyndust ekki annað en pappírsgagn. Það var ríkisstj. sem bar ábyrgð á samningu þeirra fjárlaga með lítilli fyrirhyggju og stóð að framkvæmd þeirra af litlum heilindum. Og fjárlagafrv. það, sem hér liggur nú fyrir til umr., er ekki líklegt til þess að verða öllu merkilegra.

Ég kem hingað í ræðustól til þess að gera grein fyrir tveimur brtt., sem ég flyt við fjárlagafrv., og raunar þeirri þriðju, auk þess sem ég flyt brtt. ásamt hv. þm. Jónasi Árnasyni. Ég mun byrja á því að gera grein fyrir þeirri tillögu.

Það er brtt. við 4. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að 285 millj. kr. framlag á fjárlögum til málmblendiverksmiðjunnar falli niður. Eins og fram hefur komið opinberlega, þ. á m. í umr. hér á hv. Alþ., hefur hæstv. ríkisstj. séð sér þann kost vænstan að fresta framkvæmdum við verksmiðjuna miklu á Grundartanga um a. m. k. tvö ár, þessa nýju stoð undir efnahag íslendinga, sem einkum og sér í lagi átti nú að reisa á þegar fiskafli brygðist. Þegar í ljós kæmi að ekki væri hægt að taka miklu meiri björg úr sjó, þá átti þessi stoð að rísa undir fjárhag þjóðarinnar. En vegna þess að nauðsynlegt reyndist að láta sérfræðinga ríkisstj. í verkfræðilegum og hagfræðilegum efnum, sem voru búnir að gera tvær skakkar áætlanir um ágæti þessarar verksmiðju, láta þá nú fara ofan í málið rétt einu sinni, eins og einn hv. þm. orðaði það við umr. hér á dögunum — og ummæli hans vöktu raunar í brjóstum sumra okkar ofurlitla von um að þessir sérfræðingar kæmu kannske ekki upp úr þessu máli aftur, — en vegna þess að það þurfti að láta sérfræðingana fara ofan í málið allt, eins og það var orðað, rétt einu sinni, þá var ákveðið að fresta framkvæmdum við þessa byggingu í a. m. k. tvö ár. Og það er skoðun okkar, flm. þessarar brtt., að ekki sé hæfilegt, fyrst þessum framkvæmdum á að fresta, að verja 285 millj. kr. á biðreikning handa Union Carbide í bili, þar sem ljóst er að fyrir þessa peninga er ærin þörf til annarra og arðgæfari nota.

Í beinum tengslum við þessa brtt. okkar Jónasar Árnasonar um að niður falli 285 millj. kr. fjárveiting til mógrafarinnar á Grundartanga ber ég síðan fram till. um 15 millj. kr. fjárveitingu til fjárfestingar í graskögglaverksmiðju í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu. Hér er um að ræða fyrirhugaða 2500 tonna verksmiðju, — verksmiðju sem framleiðir 2500 tonn af graskögglum á ári, sem ætti að aflétta 75% af kjarnfóðurinnflutningi handa þingeyskum bændum. Heildarkostnaður við verksmiðjuna er áætlaður 210 millj. til þess að hún geti tekið til starfa, eða 75 millj. kr. minna en nú mun vera búið að leggja í jarðrask á Grundartanga í Hvalfirði. Við vekjum athygli á því að samkv. útreikningum sérfræðinga er heykögglaverksmiðja af þeirri stærð, sem fyrirhuguð er í Saltvík, fjórfalt arðbærari en járnblendiverksmiðjan, sem áður var um getið, var talin á meðan því var enn þá trúað af meiri hluta hv. alþm. að hún yrði nokkur máttarstoð.

Ég vil víkja síðan að þriðju brtt., eða 2. brtt. á þskj. 181, sem er við 4. gr. fjárlaga, þar sem svo er ráð fyrir gert að líður, sem mælir fyrir um 3 millj. kr. fjárveitingu til Kaupmannasamtakanna vegna hagræðingarstarfsemi, falli niður. Það er skoðun mín að koma megi því til leiðar að kaupmenn reyni þann möguleika að færa eigin kostnað við hagræðingu til frádráttar á skattskýrslu sinni til að vega upp á móti þeim kostnaði sem þeir hafa af því að greiða hagræðingarkostnaðinn sjálfir. Hugsanlegt væri að þær 3 millj., sem hér um ræðir, nægðu til þess að standa straum af heimilisútgjöldum sjúkraflugmannsins sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði okkur frá að sennilega yrði að hætta björgunarstarfi sínu fyrir vestan um áramótin, vegna þess að ríkisstj. ætlar að synja um nauðsynlega hækkun til þess að styrkja sjúkraflugið þar. Vel má vera að þessar 3 millj. nægðu til þess að hægt væri að halda uppi nauðsynlegu öryggisstarfi í öðrum héruðum á Íslandi. En vegna þess að fram kom í ræðu hv. þm. Steingríms Hermannssonar að 3 millj. — nákvæmlega 3 millj. kr. — vantar til þess að hægt sé að standa við skuldbindingar um ylræktarrannsóknir, þá hef ég ákveðið að bera fram brtt. við 4. gr. á þá lund að liðurinn um 3 millj. framlagið til Kaupmannasamtakanna vegna hagræðingarstarfsemi falli niður, en upphæðinni, sem þar er ráð fyrir gert, verði varið til ylræktarrannsókna. Fáist ekki vegna þreytu þm. samþykkt afbrigði um þessa brtt., þá mun ég óska þess að hún verði dregin aftur til 3. umr. Af sömu ástæðum mun ég taka aftur til 3. umr. brtt. við 4. gr. varðandi hagræðingarfé Kaupmannasamtakanna.

Svo að ég víki enn í lokin að brtt. okkar hv. þm. Jónasar Arnasonar um niðurfellingu á 285 millj. kr. fjárveitingu til járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði, þá ætla ég að úr þeim sjóði, sem þar fæst til ráðstöfunar, megi finna peninga sem nægi til ýmissa bráðnauðsynlegra, lífsnauðsynlegra framkvæmda á næsta ári sem ella yrðu skornar niður.