16.12.1975
Sameinað þing: 34. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

1. mál, fjárlög 1976

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Í sjálfu sér er ekki mörgu við að bæta vegna orða hæstv. fjmrh., en ég vil þó undirstrika að það, sem við sögðum í stjórnarandstöðunni um að sjaldan komu fulltrúar frá hagsýslustofnuninni á fund nú, miðað við áður, er staðreynd. Ef það er bókað í fundargerðarbók okkar, hve oft þeir mæta, þá er hægt að fletta því upp. Þessu verður ekki móti mælt. Að við í stjórnarandstöðunni eigum að biðja um mennina á hvern einasta fund tel ég ekki eðlilegt. Ég tel það skyldu að þeir mæti ef þeir hafa til þess nokkurn minnsta möguleika, því að þegar embættismenn ríkisins fyrir stórum stofnunum koma og eru að gera grein fyrir niðurskurði á beiðnum sínum, þá verða þeir að mæta til fundar sem framkvæma þann niðurskurð, þannig að þetta liggi alveg á hreinu. Ég er ekki og við í stjórnarandstöðunni að ásaka neina sérstaka embættismenn eða hæstv. ráðh. í þessu efni. Kann að vera að fjvn. og þá kannske form. n. hafi ekki fylgt þessu nógu fast eftir vegna mikilla anna hjá þeim í hagsýslustofnuninni. En þetta eru staðreyndir fyrir því og það er hægt að telja það saman, þarf ekki að vera að þrasa um það lengi, heldur bara leggja það fram.

Það mætti spyrja hæstv. fjmrh. þegar svigrúm er lítið, sem við viðurkennum allir, til hvers sé verið að taka inn í heimildagr. ákvæði eins og um það að fella niður þinglýsingargjald t. d. af skipi sem heitir Grjótjötunn. Hverjir eiga skipið, hvers vegna kemur allt í einu í fjárl. slík beiðni og hvert er stefnumarkmið ríkisstj. með því að fella slíkt niður? Og það er beðið um hið sama fyrir 2 eða 3 togara í heimildagr. Við höfum beðið um skýringar á þessu atriði. Þær hafa ekki komið enn þá. Við höfum líka beðið um nákvæma skýrslu um kaupin á Baldri, um skuldir og þar fram eftir götunum, og í dag barst inn á borð undir þessari umr. stuttaraleg grg. í því efni, en hvergi nærri í samræmi við það sem við báðum um, og ég tel það sáralítið svar við því sem við báðum um. Við segjum aðeins frá þessu sem einu atriði. Við óskuðum eindregið eftir því að það væri allt lagt fram sem fylgdi þessum kaupum, og ég sé ekkert athugavert við slíka beiðni, ekki á nokkurn hátt, miklu fremur að það sé skylda okkar í fjvn. að fá nákvæma skýrslu um málið. Hér er um mjög stórar upphæðir að ræða og ég tel eðlilegt, segi það a. m. k. persónulega, að ég tel eðlilegt að ég sjái allt sem fylgdi skipinu og hvíldi á því, nákvæma sundurliðun, þegar kaup fóru fram, og allan kostnað við breytingar og annað. Ég tel það skyldu okkar í fjvn. að spyrja eftir slíku. Við höfum fengið grg. frá öðrum stofnunum í þessu efni, og embættismenn eða forsvarsmenn stofnana telja það skyldu sína, ef spurt er eftir slíku, að leggja það á borðið.

Auðvitað er það rétt hjá hæstv. fjmrh. að ekki er unnt að verða við öllum beiðnum. Það hefur jafnan verið svo og verður svo. En það er þó með ólíkindum í ár hversu mörgum raunverulega litlum beiðnum, en nauðsynlegum vegna félagsstarfsemi verður að öllum líkindum synjað, og það hörmum við í stjórnarandstöðunni. Þetta eru tiltölulega fáar millj., kannske megi telja þær í tugum millj., þetta eru tiltölulega fáar millj. í fjárl. sem eru yfir 50 milljarða, en er afar nauðsynlegt að geta liðsinnt félagsstarfsemi í landinu, þar sem fólk vinnur af áhuga og er að biðja um 100, 200 eða 300 þús. kr. til hjálpar mjög mikilvægu starfi út um allt land. En mér og okkur í stjórnarandstöðunni virðist svo sem eigi að salta allar slíkar beiðnir á einu bretti, eða jafnvel verra en það, kasta þeim alveg fyrir borð. Þetta er slæmt.

Síðan tíundaði hæstv. ráðh. að stefnumörkun stjórnarinnar kæmi vel fram í frv. og árangurinn væri slíkur, að við stjórnarandstæðingar þyrðum varla að orða verðbólgu í því efni, og nefndi svo að s. l. 6 mánuði hefði verðbólgan numið 30%. Mikið er nú afrekið! Ég segi: Mikið er nú afrekið! Í stefnuræðu hæstv. forsrh., ekki nú í haust, heldur í fyrra, settu þeir markmiðið innan árs 15%. Umframeyðsla hjá þjóðarbúinu var svo stór að það tók 6 ár að komast að núllinu eftir yfirlýsingum hæstv. viðskrh., og það mun þá a. m. k. taka 3 ár, ef ekki meira, að komast að markmiði sem var boðað í fyrstu stefnuræðu hæstv. ríkisstj., svo að við í stjórnarandstöðunni teljum ekki af mjög miklu að státa í þessu efni, farið er nú skref fyrir skref í staðinn fyrir í stökkum.

Frv. sýnir, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, í prósentum talið ekki ýkjamikla hækkun, rúmlega 21%, kannske niðurstöðutölur kunni að sýna 22–24% þegar allt verður komið sem samþ. á. En það er bara mjög mikið utan við frv. sem hefur verið í fjárl. undanfarin ár og lækkar því þessa eftirsóknarverðu hlutfallstölu á pappírnum. Svo vil ég enn ítreka það, að mér segir svo hugur um að þegar menn þurfa eftir 2–3 ár að koma með frv. og fá samþ. viðbótartölur, þá munu þær tölur vegna fjárlagaársins 1976 nema hundruðum millj. og þær koma ekki inn í neinn hlutfallsreikning, því að það er liðinn tími og ekki hægt að bera það saman.

Það, sem við gagnrýnum í þessu frv., er að það er ekki í samræmi við þann raunveruleika sem við sjáum strax í dag, hvað þá að við hugleiðum að það verði í samræmi við það sem okkur býr í bug að muni ske á næstu mánuðum. Ég nefndi eitt dæmi áþreifanlegt, launaþáttinn. Hann hefur ekki verið endurreiknaður í frv. Aðra þætti hefur verið fjallað hér um, eins og landhelgisgæsluna og ýmsa aðra starfsemi í landinu sem tekur til sín stórfé og er ekki búið að ákveða neitt í því efni enn þá, en er óhjákvæmilegt að hlusta á.

Það er sameiginlegt markmið allra alþm. að draga úr spennunni hér í verðbólguþjóðfélaginu og jafnframt hafa það að markmiði að ekki komi til atvinnuleysis. En þrátt fyrir þessa viðleitni og þrátt fyrir góð áform ríkisstj. hafa mörg fyrirtæki nú sagt upp fjölda manns, eru í vandræðum með vinnulaunagreiðslur og vita ekki hvernig halda eigi áfram starfrækslu eftir áramót. Á þessu ári voru gerð skuldaskil eða breytingar lána hjá útflutningsatvinnuvegum, bæði fisköflun og fiskvinnslu, er námu mikið á 4. milljarð kr. Þau fyrirtæki, sem fengu þetta fé, eiga að byrja að borga af þessu nú eftir áramótin, því að þessi lánastarfsemi byggðist á því að menn skiluðu fjármagninu að verulegu leyti aftur á þremur árum. En ég veit ekki til þess að nokkurt einasta fyrirtæki treysti sér að standa í skilum, þegar að fyrsta greiðsludegi kemur, á þessari fyrirgreiðslu. Ástandið er því uggvænlegt, enda er einn liður sem er óleystur enn þá, en nemur um 500 millj. kr. Það er loforð um að leggja fram fé í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og einnig stór upphæð til togaranna. Ég nefndi nokkra liði áðan. Samtals losa þessir liðir um 1000 millj. kr., sem við vitum fyrir fram að eiga eftir að koma inn fyrir 3. umr., og það er ætlun okkar í stjórnarandstöðunni að nokkrir fleiri liðir enn komi inn og hækki þessa tölu um verulegar upphæðir sem allir menn sjá að er óhjákvæmilegt að taka tillit til ef eðlileg starfsemi á að eiga sér stað í þjóðfélaginu. Sumt af þessari hækkun kemur erlendis frá. Um það deila menn ekki. En sumt er einnig heimatilbúið, og það er nöturleg staðreynd að þær stórvirkjanir, sem við höfum haft í gangi á þessu ári, hafa verulega stuðlað að verðþenslu og uppboði á launamarkaðnum og haft að því leyti til neikvæð áhrif. Það þarf að veita meira aðhald í því efni en gert hefur verið með uppboði á vinnuafli, og alls konar sögusagnir koma á kreik frá þessum stórframkvæmdum um óeðlilega há laun fyrir takmarkað vinnutímabil á stað upp til fjalla eða á öðrum stað þar sem þessar virkjanir og stórframkvæmdir eiga sér stað.

Það er erfitt fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að ræða um vissa þætti sem hafa ekki fengið afgreiðslu enn þá og við vitum að bíða til 3. umr. og fjallað verður um næstu daga — næstu 2 daga. Það er erfitt vegna þess að við vitum ekki hvort eitthvað verður hlustað á þær þarfir sem fyrir liggja í þessum þáttum. Við getum því sparað okkur þá fyrirhöfn að vera með vangaveltur um þessa þætti og verðum heldur að eyða tíma í umr. um þá þegar lokatill. koma fram við 3. umr. Þá mun vonandi liggja ljóst fyrir, ef þarf ekki að hafa hálfa umr. í viðbót við þá þriðju, hvað hæstv. ríkisstj. ætlar að gera — eða láta reka á reiðanum og svo fari eins og gerðist á yfirstandandi ári, að samþykkt fjárlaga verði með þeirri fljótaskrift að frv., þegar það er orðið að lögum, verði að verulegu leyti pappírsplagg og innan fárra vikna sjái allir að betra hefði verið að líta raunhæft á málin og viðurkenna staðreyndir í þjóðfélaginu, en ekki berjast við svo eftirsóknarverða prósentutölu á hækkunum á milli ára að það eina markmið væri æskilegra en margt annað.

Herra forseti. Mér þótti rétt að þetta kæmi fram vegna orða hæstv. ráðh. Hér hafa menn ekki deilt hart í þetta sinn, sem er að vonum þar sem svo stórir þættir liggja enn óafgreiddir. En eðlilegt er að við bendum á vissa agnúa við afgreiðsluna nú við 2. umr. Þess vegna hafa þessar umr. verið nokkuð friðsamar og litið um hnútukast, eins og oft hefur átt sér stað. Ég man að hæstv. sjútvrh., sem átti sæti í fjvn. á vinstristjórnartímabilinu, flutti hér mjög hvassa ræðu í síðasta sinn er hann sat í n. við 2. umr. og fór á kostum oft og tíðum í því efni að gagnrýna þá stefnu, sem þá var uppi, og verðbólgudrauginn og fjármagnsskortinn. En við í stjórnarandstöðunni nú förum fremur með landi og kannske í hlé, vegna þess að þetta er hvergi nærri ljóst enn í dag þrátt fyrir að við erum að ræða þetta 16. des.