17.12.1975
Efri deild: 31. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Frv. það, sem hér hefur verið lagt fram og er til umr., er af ættkvísl þeirra kvikinda sem nefnd eru bandormar, og þetta er óvenjulega langur bandormur. Hér er um að ræða breytingar á ekki færri en 7 lögum í einu og sama frv. allt heldur smávægilegar breytingar og tíndar hver úr sinni áttinni. Þær eiga það þó sameiginlegt, að yfirleitt er tilgangur þeirra að skapa skýrari verkaskiptingu milli ríkisins og sveitarfélaganna. Þetta markmið hafa sveitarstjórnarmenn lengi lagt áherslu á að stefnt væri að, og að því leyti má segja að tilgangurinn með þessu frv. sé jákvæður. Hitt virðist nokkuð ljóst, að undirbúningur að þessu frv. er nokkuð fljótfærnislegur. Frv. kemur fram á seinustu dögunum áður en þm. fara í jólaleyfi, og hér er aðeins hreyft við örfáum atriðum af þeim sem raunverulega koma til greina.

Eins og hæstv. ráðh. nefndi áðan þá hefur Samband ísl. sveitarfélaga lagt fram ekki færri en 100 till. í þessum málum og óskað eftir því að þær verði skoðaðar í sérstakri samstarfsnefnd, en hér aðeins hreyft við 7 atriðum. Mér sýnist því að hyggilegast væri að fara sér hægt í þessum efnum og gefa sér tíma til þess að skoða þetta mál í ró og næði, og ég tel alveg fráleitt að reynt verði að afgreiða þetta mál nú á tveimur eða þremur dögum.

Eins og fram kemur í grg. frv. er hér um að ræða tilfærslu á 500 millj. kr. frá ríkissjóði til sveitarfélaganna. Nú er það öllum kunnugt að fjárhagur sveitarsjóða er mjög þröngur og mörg sveitarfélög hafa orðið að leita á náðir bankakerfisins um stórfelld lán til þess að sinna verkefnum sínum. Það virðist því einsýnt að sá tekjuauki, sem sveitarfélögunum er hér ætlaður, kæmi í góðar þarfir án þess að verið væri að hlaða á sveitarfélögin nýjum útgjaldapóstum, og þegar af þeirri ástæðu sýnist mér eðlilegast að þessi tilfærsla á verkefnum sé látin bíða, en sveitarfélögin fái hins vegar þessar tekjur nú þegar því að þau hafa fulla þörf fyrir þær.

Um frv. sjálft og efni þess að öðru leyti vil ég segja um afstöðu mína gagnvart einstökum liðum að þrír þeir fyrstu eru bersýnilega mikilvægastir. Þá á ég við þrjá þá fyrstu sem nefndir eru í talnaupptalningunni í aths., þ. e. a. s. viðhald skólamannvirkja, dagvistunarheimili og elliheimili. Samanlagt nema þessir póstar 400 millj. kr. og ég vil fara fáeinum orðum um hvern af þessum liðum.

Ég tel í sjálfu sér alls ekkert fráleitt að viðhald skólamannvirkja sé yfirtekið af sveitarfélögunum þannig að hreinni skil skapist milli sveitarfélaga og ríkissjóðs í þessum efnum. En ég tel samt að ekki megi rasa um ráð fram og þetta mál þurfi að skoða niður í kjölinn. Ég bendi á það að sveitarfélögin eru mjög missett hvað þetta atriði snertir. Sum þeirra reka eingöngu heimangönguskóla, önnur reka skóla í tengslum við heimavistarskóla og á þessu er töluverður munur hvað viðhald snertir. Ég lít svo á að það, að sveitarfélögin hafa ekki haft viðhaldið með höndum, sé fyrst og fremst vottur þess, að talið var eðlilegt að ríkið kæmi þar inn í til að jafna þennan aðstöðumun, og ég tel að með því að sveitarfélögin verði að taka á sig allan viðhaldskostnaðinn, jafnt á skólahúsnæðinu sem heimavistarhúsnæðinu, sé verið að skapa misrétti milli sveitarfélaganna, sérstaklega gagnvart sveitahreppunum sem verða að notast við heimavistarskóla. Ég vil þess vegna mjög eindregið óska eftir því að hæstv. ráðh. og sú nefnd, sem fær þetta til athugunar, skoði það vandlega, ef menn á annað borð vilja halda því til streitu og keyra það áfram að þessi kostnaður verði fluttur yfir á sveitarfélögin, þá verði þó heimavistarkostnaðurinn undanskilinn og ekki með tekinn. Ég tel, að það væri mjög ósanngjarnt gagnvart sveitahreppum landsins ef þetta færi í gegn óbreytt, og vil sem sagt eindregið fara þess á leit að þetta verði athugað sérstaklega, að undanskilja heimavistarhúsnæði ef menn á annað borð ætla að keyra þetta áfram, því að annað er mjög ósanngjarnt og óeðlilegt.

Um dagvistunarheimilin er það að segja, að frá því að ríkisstj. fór fyrst að undirbúa þetta mál og þar til nú hefur bersýnilega orðið alljákvæð breyting á þessu frv., því eins og mörgum mun kunnugt að þá var ætlun hæstv. ríkisstj. að flytja bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað dagvistunarheimila yfir n sveitarfélögin, Frá þessu hefur ríkisstj. horfið og lætur nægja að flytja rekstrarkostnaðinn yfir á sveitarfélögin, og það tel ég einnig vera mjög til bóta vegna þess að hitt hefði verið afleitt. Hitt hefði verið mjög slæmt og hefði átt sinn þátt í því vafalaust að tefja fyrir þeirri mjög svo jákvæðu þróun í uppbyggingu dagvistunarheimila sem einmitt hófst við setningu laga um dagvistunarheimili. Hins vegar er ég síður en svo ánægður með þessa breytingu, að rekstrarkostnaðurinn sé fluttur yfir á sveitarfélögin, og mun greiða atkv. gegn því. Ég lít svo á að þátttaka ríkisins í rekstrarkostnaði dagvistunarheimila sé óhjákvæmileg til þess að halda niðri dagvistunargjöldum. Það er nauðsynlegt að halda niðri dagvistunargjöldum til þess að stuðla að því að fólk geti notfært sér þessa þjónustu og að konur séu eins mikið úti í atvinnulífinu og tækifæri og aðstæður leyfa. Ég tel að hér sé verið að stíga skref aftur á bak með því að breyta þessu á þennan veg, því að ég er sannfærður um að þetta mun hafa í för með sér mjög verulega hækkun á dagvistunargjöldum.

Í 9. gr. laganna um dagvistunarheimili segir, með leyfi hæstv. forseta:

.,Ríkisframlag til stofn- og rekstrarkostnaðar er bundið því skilyrði, að viðkomandi sveitarfélag greiði eigi minna af rekstrarkostnaði dagvistunarheimila en nemur rekstrarframlagi ríkisins.“

Hér var sem sagt sett á sínum tíma ákvæði sem skuldbatt sveitarfélögin til að leggja jafnmikið á móti til niðurgreiðslu á dagvistunargjöldum og ríkið legði fram. Það liggur því í augum uppi að með afnámi þessa ákvæðis eru sveitarfélögin alls ekki skuldbundin til þess að taka þátt í að halda niðri dagvistunargjöldum, og er því hætt við ekki aðeins að ríkisframlagið komi ekki til skila í lækkuðum dagvistunargjöldum, eins og mun þó vera hugsunin með yfirflutningi á þessu verkefni og þá um leið einhverju fjármagni til þeirra nota, heldur að þetta fari úr böndunum og að sveitarfélögin hafi þá ekki það aðhald sem þau þurfa að hafa til þess að dagvistunargjöldum sé haldið hæfilega niðrí.

Um þriðja atriðið, þ. e. a. s. dvalarheimili aldraðra, get ég verið fáorður. Í 7. gr. laga um dvalarheimili aldraðra segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú byggir sveitarfélag dvalarheimili eða hefur rekstur þess samkv. lögum þessum, og skal þá ríkissjóður greiða 1/3 hluta kostnaðar við bygginguna og kaup nauðsynlegra tækja og búnaðar.“

Þetta ákvæði á að afnema og yfirfæra þennan kostnað, sem er áætlaður nú sem stendur 60 millj. kr., yfir á sveitarfélögin. Ég er einnig andvígur þessu ákvæði. Ég tel að í fyrsta lagi sé þetta mjög hæpinn útreikningur, að hér sé aðeins um 60 millj. kr. að ræða sem verið er að flytja yfir á sveitarfélögin, vegna þess að það er aðeins að litlu leyti komið í gang að byggja ellideildir við sjúkrahús og elliheimili víðs vegar um land. Þetta er útgjaldapóstur sem á eftir að verða miklu hærri á komandi árum, kannske þrisvar, fjórum sinnum, jafnvel fimm sinnum hærri að nokkrum árum liðnum, og ég tel að þar sé verið að snuða sveitarfélögin ef það mætti komast svo að orði, að ætla þeim 60 millj. fyrir það að yfirtaka þennan útgjaldalið sem í reynd verður miklu, miklu hærri að fáum árum liðnum. Auk þess er það svo, og gildir þar hið sama og um dagvistunarheimilin, að þetta ákvæði, að ríkið greiði 1/3 hluta kostnaðar við byggingu dvalarheimila aldraðra, er mikil hvatning fyrir sveitarfélögin. Það ýtir á eftir þeim að sinna þessu bráðnauðsynlega hlutverki. Ég er sannfærður um að það er engin tilviljun, að dagvistunarheimili hafa verið í undirbúningi nú seinustu tvö árin í óvenjulega ríkum mæli um allt land eftir að lögin um dagvistunarheimili voru sett. Ástæðan er að sjálfsögðu sú hvatning, sú fjárhagslega örvun, sem sveitarfélögin fengu við setningu laga um dagvistunarheimili, einmitt eins og ég sagði áðan. Af þessari ástæðu er ég feginn að þessu hefur ekki verið breytt, því að ég væri hræddur um, hvað dagvistunarheimilin snertir, að þá hefði sú þróun stöðvast eða a. m. k. hefði verulega hægt á henni, því að sveitarfélögin hafa nú óneitanlega í mörg horn að líta. Þau hafa það mikið við sitt fjármagn að gera, og þau þurfa á hvatningu af þessu tagi að halda. En hvað snertir dvalarheimilin, þá hefur því miður ekki orðið sams konar niðurstaða. Það er ætlunin að yfirflytja þetta verkefni til sveitarfélaganna, og það tel ég mjög slæmt, því að ég óttast að uppbygging ellideilda við sjúkrahús og elliheimili muni ekki verða jafnhröð og skyldi eftir að þessi breyting hefur átt sér stað.

Ég vildi svo að lokum minna á það í þessu sambandi, að fyrir tveimur dögum var lagt hér fram á Alþ. frv. sem felur það í sér að ríkið ræðst inn á svið sveitarfélaganna hvað tekjustofna snertir. Það er ákveðið að leggja 1% gjald samsvarandi útsvarsgjaldi á alla launamenn í landinu til þess að ríkið geti lækkað sínar tekjur, og tilgangur þessa ákvæðis er augljóslega sá einn að fjmrh. geti státað sig af því frammi fyrir alþjóð að hann hafi lækkað útgjöld fjárlaga um þessar 1200 millj. sem þetta 1% nemur. Þarna er því í raun og veru verið að ganga alveg þvert á þá stefnu sem svo aftur felst í þessu frv. Það er verið að ráðast inn á svið sveitarfélaganna og ætla þeim að innheimta háar fjárhæðir fyrir ríkisvaldið. Í þessu sambandi langar mig til að leggja örfáar spurningar fyrir hæstv. félmrh.

Ég vil í fyrsta lagi leyfa mér að spyrja hann að því, hvort sveitarfélögin muni fá að leggja 10% álag ofan á útsvar á komandi ári eða ekki, þannig að útsvar til sveitarfélaganna geti þá að hámarki orðið 11% í stað í stað 10% eins og aðalreglan er? Það hefur verið allur gangur á því hvort slík heimild væri veitt, og ef slík heimild verður veitt, þá er afleiðingin sú, að útsvar og þetta sérstaka aukaútsvar, sem frv. var lagt fram um fyrir tveim dögum, gæti samanlagt orðið 12%.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. félmrh., af því að hér er um að ræða að verið er að láta sveitarfélögin fá auknar tekjur og leggja um leið á þau allmiklar byrðar: Er öruggt að gerðir verði upp nú í árslok þeir halar sem myndast hafa í samskiptum sveitarfélaga og ríkis vegna ógreiddrar hlutdeildar ríkisins í aksturskostnaði skólabarna? Ég held ég þurfi ekki að gera frekari grein fyrir þessari spurningu. Hv. þm. og hæstv. ráðh. vita vafalaust um það, að þarna hafa myndast mjög miklir halar og það er hreinlega yfirvofandi neyðarástand á þessu sviði ef ekki verður úr bætt nú í árslok, vegna þess að bílstjórar, sem hafa annast þetta verkefni, hafa hótað að gera verkfall ef ekki fáist úrlausn þessa máls. Ég vil sem sagt leyfa mér að spyrja að því hvort ríkisstj. hafi ekki tekið ákvörðun um að gera upp þennan hala. Ef ekki hefur verið ákvörðun tekin um það, sýnist einsýnt að þessi aksturskostnaður skólabarna, sem er óuppgerður, verði á þessu ári reiknaður inn í það dæmi sem hér er til umræðu, því að hér er um að ræða fjármagn sem fyrir hendi er og þyrfti þá ekki annað en að fækka eitthvað þeim verkefnum sem væru yfirfærð á sveitarfélögin til þess að koma þessum málum á hreint. Hér gefst gullið tækifæri ef eitthvað gengur illa að gera upp þennan hala innan fjárlagadæmisins.

Í þriðja lagi vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. félmrh. ellegar hæstv. menntmrh. ef hann telur sig kannske betur geta svarað þeirri spurningu. Það er nú eins með hina spurninguna, að kannske gæti hann gefið upplýsingar um það ef hæstv. félmrh. hefði þær ekki á reiðum höndum. En ég beini nú spurningunni til hæstv. félmrh. í fyrstu: Hvað verður um fræðsluskrifstofur þær sem grunnskólalöggjöfin gerir ráð fyrir að settar séu á stofn, en enn hefur ekki verið ljóst hver greiða mundi kostnað af rekstri þessara skrifstofa? Landshlutasamtökin, sem annast rekstur þeirra, en ekki hafa fengið neina tekjustofna til að mæta þeim kostnaði, hafa hótað að loka þessum skrifstofum um áramótin ef ekki fáist úrlausn þessa máls. Ég vil sem sagt leyfa mér að spyrja að því í þessu sambandi, vegna þess að málið er náskylt því sem hér er til umræðu, hvort þessi mál muni ekki fást á hreint jafnhliða.

Ég þarf svo ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vil aðeins ítreka hver er afstaða mín til þessa máls. Ég er almennt jákvæður gagnvart þeirri tilhneigingu að reyna að gera verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga skýrari en hún er nú. En atriðin, sem athuga þarf, eru ekki bara 7, eins og er fólgið í þessu frv., þau skipta mörgum tugum, kannske eru þau 100 eins og ráðh. nefndi. Þetta ætti því að skoðast allt í heild sinni.

Í öðru lagi er ég andvígur og við alþb.-menn, við erum andvígir þeim þremur atriðum sem ég nú hef nefnt, þ. e. a. s. að rekstur dagvistunarheimila sé fluttur yfir til sveitarfélaganna, að viðhald skólamannvirkja sé, án þess að nokkrar frekari breytingar séu gerðar á því hvað snertir heimavistarhúsnæði, flutt yfir til sveitarfélaganna og eins stofnkostnaðurinn við elliheimilin. Um önnur atriði ætla ég ekki að fjölyrða hér nú, þ. e. a. s. almenningsbókasöfnin, heimilishjálpina, vinnumiðlunina og húsmæðraorlofið, þar sem það eru mjög smá atriði, sem aðeins nema samtals 58 millj. kr., og gefst frekara tækifæri til að skoða þau í nefnd. Ég verð að viðurkenna það hreinskilnislega að ég hef ekki haft aðstöðu til að átta mig nægilega vel á þeim, atriðum.