17.12.1975
Efri deild: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

121. mál, almannatryggingar

Frsm. 2. minni hl. (Bragi Sigurjónsson) :

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í ræðu formanns nefndarinnar og frsm. 2. minni hl. fjallaði heilbr.- og trn. um þetta frv., sem hér liggur fyrir, á fundi sínum í gærmorgun og hafði þar til viðræðna bæði framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga og ráðuneytisstjóra heilbr.- og trmrn. Af ummælum framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga kom fram að lítið sem ekkert — og ég vil segja ekkert — samráð er haft við Samband ísl. sveitarfélaga um þetta frv. Það út af fyrir sig hlýtur að teljast afar neikvætt fyrir frv.

Ég vil hins vegar taka fram, eins og kemur fram grg. minni eða nál., að persónulega er ég ekki á móti þeirri stefnumörkun sem felst í þessu frv. hvað snertir það að einstaklingar og sveitarfélög aðhaldsskyni séu látin taka meiri þátt bæði í meðalakostnaði og sjúkrahúsarekstri. Við vitum það öll að meðalaaustur er óheyrilegur hjá sumu fólki og læknar gefa oft út ávísanir á meðul miklu meir en þörf er á. Þess vegna finnst mér persónulega, eins og ég tók fram áðan, engan veginn goðgá sem stefnumörkun, að það sé a. m. k. hækkað framlag einstaklinga til meðalakaupa og sérfræðiþjónustu eins og áður var. Og formaður heilbr.- og trn. gat um það áðan að þessi hækkun, sem nú yrði, væri út af fyrir sig ekki nema eins og áður hefði verið, en verðbólgan hefði minnkað þetta framlag prósentvís verulega.

En ástæðan fyrir því, að ég gat ekki annað en verið á móti þessu frv., er hins vegar sú, að ég tel að tíminn til að koma fram með þessa stefnumörkun sé ekki réttur. Þegar við lítum á það að kaupmáttur launa almennings hefur rýrnað miklu meir en verðbólgan hefur aukið krónutölu þá sem launþegar fá, þá finnst mér ekki koma til mála að framkvæma þessa miklu hækkun á lyfjum undir þeim kringumstæðum sem nú eru. Og annað er það sem mér finnst mikill galli á þessu frv., og það er hvernig sveitarfélögunum er ætlað að ná tekjum á móti þeim álögum sem á þau eru lögð, en það er með því að bæta 1% ofan á útsvör. Nú vitum við öll, sem nokkuð höfum skoðað hvernig útsvör eru lögð á almenning, að þau leggjast fyrst og fremst á launþega og það af svo miklu meiri þunga en nokkra aðra að það er orðinn hreinn skrípaleikur hvernig tekjuskattur og útsvör eru tekin af fólki, þegar miðað er við tekjurnar sem það hefur og þar er lagt á og miðað við tekjur sem þeir hafa sem sleppa. Þetta er höfuðástæðan fyrir því að ég tel að hér sé farið rangt að, tíminn skakkt valinn og gjöldin rangt á lögð. En hins vegar tek ég aftur fram að stefnumörkunin út af fyrir sig finnst mér ekki röng, að einstaklingar og sveitarfélög taki meiri þátt í aðhaldi í lækninga- og meðalakostnaði og sjúkrahúsarekstri.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa langt mál um þetta, það er tiltölulega einfalt hvernig þetta er lagt fyrir, og ég endurtek það sem ég sagði hér við 1. umr., að vissu marki léttir mér við þetta frv. miðað við það sem búið var að gefa í skyn að við gætum átt von á, og það var í sambandi við það að lífeyristryggingar yrðu skertar að verulegum mun. En eins og ég gat um áðan, þá tel ég tímann skakkt valinn til þessarar stefnumörkunar og útgjaldapóstinn, sem á að leggja á varðandi sveitarfélögin, ekki réttan, og því get ég ekki annað en lagt til að þetta frv. verði fellt.