17.12.1975
Efri deild: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

121. mál, almannatryggingar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Er hæstv. heilbrrh. heyrandi nær? Ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni, að hér sé verið að ræða mál sem varði nokkuð rn. hans. Ber mér að skilja það svo að ritari hafi nú gengið að leita að ráðh.? (Forseti: Það er rétt, að það er verið að athuga, hvort ráðh. er í húsinu.) Reynist það svo að ráðh. sé ekki í húsinu, þá hlýt ég að fara þess á leit að umr. verði frestað því að við hann eigum við nokkurt erindi þó að mitt sé að vísu ekki merkilegt.

Það gleður mig að hæstv. heilbrrh. hefur fengið tóm til þess að koma hingað inn, hefur fengið rétt í svipinn lausn frá störfum sjútvrh. til þess að vera hér í góðum félagsskap í Ed. Ég átti við hann erindi, að vísu ekki mjög brýnt erindi, en þó þess háttar að ég vildi heldur að hann hlýddi á það sem ég hefði um hans ræðu að segja.

Hæstv. ráðh. ræddi í upphafi máls síns um þá sérstöðu sem stjórnarandstæðingar hefðu til að tala lengi um stjórnarfrv. þótt skammur tími væri til þinghalds. Tíminn til þinghalds var ekki venju fremur skammur þegar Alþ. kom saman í okt. í haust. Hann hefur ekki heldur verið neitt óeðlilega skammur síðan, en hann hefur verið illa notaður og mér er alveg ljóst að þetta er ekki hæstv. ráðh. að skapi, enda tók hann það fram í lok ræðu sinnar að hann hefði gjarnan viljað að þetta frv. væri fyrr komið fram. En það alvarlegasta er ekki þetta, að tíminn hefur verið illa notaður. Það alvarlega er að hann hefur verið notaður til ýmissa slæmra verka. Og eitt hinna slæmu verka blasir hér við okkur í mynd frv. sem hér um ræðir. Það kemur nefnilega í ljós að skammur tími hefur ekki komið í veg fyrir það að þetta frv. væri þrátt fyrir allt þaulhugsað. Ég sleppi því að fara nokkuð út í orðaskýringar í þessari ræðu minni, vil þó aðeins vekja athygli á örlítilli hnútu í orðmynd sem hv. þm. Sverrir Bergmann sendi af hendi til hæstv. ráðh. Það minnti á sögu H. C. Andersens um nýju fötin keisarans. Þeir munu kasta þeirri hnútu á milli sín.

Hæstv. ráðh. kvaðst furða sig á því, að nokkur hv. þm. skuli bera sér það í munn að í þessu frv. sé verið að ráðast að sjúkum og þeim sem minna mega sín. Það kvaðst hann undrast. Ég viðurkenni fúslega að megninu af því fé, sem hér á til að koma, á að jafna niður á einstaklinga eftir útsvarslögunum, en talsvert af því fé á eigi að síður að koma frá þeim sem verða, svo ég noti orð hv. frsm. n., aðnjótandi læknishjálpar og lyfja.

Það gleður mig innilega að hæstv. trmrh. er kominn til okkar með betri heilsu úr sjúkraleyfi sínu, en ég hefði gjarnan viljað að hann hefði ekki dregið upp röntgenmyndatökureikninginn og veifað honum fyrir sjónum okkar þm. sem svari við athugasemd hv. þm. Helga F. Seljans um lyfjakostnað gömlu konunnar ónefndu, vegna þess að þessi tvö vandamál eru ekki sambærileg. Og hér komum við að kjarna málsins. Það er ekki sambærilegt að leggja álögur, eins og hæstv. ráðh. kom inn á, — það er ekki sambærilegt að leggja álögur á fólk ef kaupgeta er rúm, það er ekki sambærilegt að ætla rosknu fólki, sem komið er á ellilaun, að greiða nokkurn kostnað úr eigin vasa þegar þannig hefur verið búið að þessu sama fólki að það er orðið sjálfbjarga, getur lifað af ellistyrk sínum, ellegar að leggja álögur á þetta sama gamla fólk þegar svo er búið að vega að því í tryggingamálunum að það er aftur komið á vonarvöl. Það er ekki sambærilegt að leggja gjöld, álögur á alþýðu manna í þessu landi þegar hún kemst af eða þegar kjör hafa verið rýrð svo að mikill fjöldi þegnanna, jafnvel fullvinnandi manna og heilbrigðra, kemst ekki af. Upphæð álögunnar segir ekki allt málið, heldur getan til þess að standa undir henni.

Ég verð að taka undir það með hv. þm. Jóni Árm. Héðinssyni að ég hafði talsverða samúð með hv. þm. Oddi Ólafssyni þegar hann mælti með nál. og lagði til að frv. þetta yrði samþ. Ég kenndi í brjósti um hann. Ég trúi því ekki að hv. þm. Oddur Ólafsson hafi gjörhugsað þau orð sín að e. t. v. gæti talist æskilegt að þeir, sem þess njóta, taki þátt í kostnaði við læknishjálp, þótt ekki væri nema hin forna merking sagnarinnar að njóta. Hann gaf í skyn að það mætti draga úr notkun lyfja með því að sjúklingarnir tækju þátt í greiðslu þeirra. Ef það er rétt að um ofnotkun lyfja sé að ræða í svo ríkum mæli að slíkt hafi áhrif á fjárhagsgetu ríkisins, þá er þar náttúrlega ekki við sjúklingana að sakast, heldur er verið að gefa í skyn að læknar almennt brjóti mjög svo ljóslega orðuð lagaákvæði, og ef mig minnir rétt varðar slíkt brot fangelsisvist.

Það gladdi mig að heyra yfirlýsingu hv. þm. Sverris Bergmanns um það að hann vildi fremur eiga á hættu að kannske fullríflega væri tekið af lyfjum heldur en fjárhag sjúklinga yrði þannig komið að þeir veigruðu sér við því að kaupa lyf sem læknar ráðlegðu. Ég er alveg viss um að hv. þm. Oddur Ólafsson er sömu skoðunar.

Það hvarflaði að mér rétt í bili að það eru ekki liðin nema þrjú kvöld frá því að formaður þingflokks Sjálfstfl. lýsti yfir því í sjónvarpi að einstakir þm. þess flokks hefðu heimild til þess að greiða atkv. samkv. eigin samvisku. Ég leyfi mér að stórefast um að hv. þm. Oddur Ólafsson hefði greitt atkv. með svona frv. í tíð vinstri stjórnar. Ég er líka handviss um að hann hefur ekki haft samviskuskipti síðan. Ég efast ekki um að hann sé sama sinnis. En ég held að hann veigri sér við því að fara eftir eigin samvisku í tíð svartrar íhaldsstjórnar eins og þeirrar sem nú situr.

Og svo aðeins í lokin: Það hryggir mig ef svo skyldi vilja til að hv. þm. Sverrir Bergmann yrði ekki í salarkynnum þessarar virðulegu stofnunar seinna í vetur þegar íhaldsstjórnin leggur fram skattafrv. þar sem jöfnuð verða kjör ríkra og fátækra.