17.12.1975
Efri deild: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

121. mál, almannatryggingar

Frsm. 1. minni hl. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Hæstv. heilbr: og trmrh. var að tala áðan um forréttindi okkar stjórnarandstæðinga og því yrði hann að stytta mál sitt. En vitanlega varð nú hans ágæta vestfirska yfirsterkari áður en lauk, þannig að svo fór að við töluðum álíka lengi og ráðh. þó heldur betur.

Ég tók eftir því að hann minntist sérstaklega á að þarna væri ekkert verið að fela í sambandi við álögur. Það hef ég ekki heldur sagt, að álögurnar sjálfar væri verið að fela. En eins og ég segi í nál., þá á að líta svo út sem opinber umsvif séu dregin saman. Það á að láta líta út sem með þessu sé verið að fara út í minnkandi ríkisútgjöld. Þetta er einfalt og ljóst. Þetta er tilgangurinn með þessari tilfærslu frá ríki til sveitarfélaga, — það veit hæstv. ráðh. jafnvel og ég, — en ekki að álögurnar út af fyrir sig sé verið að fela. Auðvitað koma þær í ljós.

Hann minntist á það að kaldar gusur hefðu komið úr fleiri áttum en frá hans rn. nú til sveitarstjórnarmanna, og hann minnti á þá köldu gusu sem hefði yfir hann komið þegar sum sveitarfélögin fóru að leggja á elli- og örorkulífeyrisþegana til þess eins að hirða skattafslátt. Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. í því, að ég mæli þessu ekki bót. Það kom til tals í mínu sveitarfélagi að gera þetta, og ég lagðist eindregið gegn því og fékk það fram að þetta yrði ekki gert, enda álít ég slíkt í hæsta máta óheiðarlega framkomu, hreinlega, og undir það skal ég taka með hæstv. ráðh.

Ég hef vitanlega aldrei sagt að það væri ekki fjöldamargt í okkar tryggingalöggjöf sem mætti betra vera. Henni er auðvitað í mörgu ábótavant. Ég minni á frv. sem ég hef flutt hér varðandi aðstöðujöfnun þess fólks sem þarf að leita á fund sérfræðinga, og ég vænti þess sannarlega að það frv. verði tekið til skoðunar hjá þeirri n., sem fær nú það verkefni að endurskoða þessi lög í heild, og þar verði eitthvert tillit til þess tekið. En jafnframt í sambandi við það frv. minnti ég margsinnis á að ég vissi að það væri eins með þessi lög og öll önnur lög, að þau væru meira og minna misnotuð, en einmitt misnotkunin hefur verið höfð uppi sem aðalröksemd fyrir því að ekki mætti greiða hluta ferðakostnaðar til sjúklinga utan af landsbyggðinni hingað til Reykjavíkur á fund sérfræðinga.

Hæstv. ráðh. sagði að frv. væri skýrt og ljóst og einfalt fyrir alla skýra menn. Ég sagði einmitt að það væri einfalt og ljóst hvað þarna væri verið að gera. Ég túlkaði það örlítið öðruvísi og ég sný ekki frá þeirri túlkun. En þegar ég var að minnast á það, á hvaða fólk þetta legðist þyngst, bitnaði harðast á, þá var ég að tala um sjúklingana í sambandi við lyfin og sérfræðikostnaðinn, en alls ekki varðandi það sem laut að útsvörunum. Það er mesti misskilningur.

Ég verð að játa að það er auðvitað mjög hæpið alltaf að vitna í orð fjarstaddra manna, orð sem sögð eru á nefndarfundi, eins og ég gerði hér í orð framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga, og ráðh. vísaði þessum orðum hans algjörlega á bug í sambandi við aðhaldið og þá möguleika sem sveitarfélögin hefðu á því að koma við sparnaði varðandi sjúkrahúsin. En aðalatriði þess, sem framkvæmdastjórinn sagði — ég skal þá endurtaka það svo að það fari ekkert á milli mála — var að hér væri um sárafá sveitarfélög að ræða sem gætu komið þessu við, hefðu einhverja möguleika á því. Yfirgnæfandi meiri hl. sveitarfélaganna ætti ekki hlutdeild að rekstri sjúkrahúsa. Það var mergur málsins. Það kom svo í ljós hjá hæstv. ráðh. sem mér var reyndar búið að detta í hug áður, að þessar 200 millj. voru hrein framsóknartala, og kemur engum á óvart þó að hún hafi verið röng.

En varðandi lyfjagjöldin eins og þau voru ákveðin 1974, ég skal ekki fara út í deilur við hæstv. ráðh. um það, en ég fullyrði hins vegar að það hámarksgjald, sem þá var sett þarna, var á þeim tíma mikil bót. Ég veit að hæstv. ráðh. man það, að einmitt þessu var fagnað hér á Alþ. af öllum flokkum og allir voru sammála um að þetta væri til bóta, og það er mergur málsins.

Mér þykir leitt ef hv. þm. Sverrir Bergmann hefur misskilið mig gjörsamlega og talar um dapurlegar staðreyndir í sambandi við niðurstöðurnar af mínu máli hér og vitnar þar í góð lífskjör manna almennt hér á Íslandi, sem reyndar hans ágæta ríkisstj. hefur nú verið að reyna að þrýsta niður eins og henni hefur verið frekast unnt. Ég var vitanlega ekki að tala um almenning í þess orðs víðustu merkingu. Ég var að tala um það fólk sem býr við þrengstan kost í þjóðfélaginu. Og þar kom þessi hv. þm. í sínu máli að það hefði mátt skilja á því sem ég sagði, að enginn hefði í raun og veru efni á því að greiða þetta gjald til almannatrygginga. Þetta er mesti misskilningur. Ég var að deila á fyrirkomulagið á tilfærslunni, og ég fagnaði því alveg sérstaklega að áform ríkisstj. frá í haust um að skera niður framlög til almannatrygginga um 2 milljarða, það stendur svart á hvítu, ég fagnaði því alveg sérstaklega, að frá því hefði verið horfið. Ég aðeins benti á það sem sjálfsagðan hlut áfram eins og verið hefur og hv. þm. Jón Árm. Héðinsson kom rækilega inn á áðan, að það sem hér á vantaði, þessar 1667 millj. væru teknar áfram úr okkar sameiginlega sjóði og auðvitað þyrfti einhver að borga það, það yrði tekið með sömu skattheimtunni og aðrar tekjur eru teknar til þessara trygginga. Þetta fer ekkert á milli mála. Það var aðeins þessi tilfærsla, þessi broslega tilfærsla sem er í þeim eina tilgangi gerð að láta líta svo út sem fjárlögin lækki sem þessari upphæð nemur til þess svo að geta útbásúnað að nú sé verið að minnka hin opinberu umsvif og minnka ríkisútgjöldin. Þetta veit hv. þm. alveg jafnvel og ég. En út frá síðustu hugleiðingum hans um eftirgjöfina, sem ég efast ekki um að hann muni verða fremstur manna í að fara út i, eftirgjöfina handa því fólki sem læknarnir þekkja, öryrkjunum og ellilífeyrisþegunum, þá er það ábyggilega rétt að við berum þá báðir sérstaklega fyrir brjósti í þessum efnum alveg einlæglega, og hví þá ekki að láta reyna á það nú þegar að hluta?

Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — koma með brtt. við þetta frv. ásamt hv. þm. Geir Gunnarssyni um að við 1., 2. og 3. tölulið 1. gr. bætist:

„Undanskildir þessum greiðslum skulu þeir, sem njóta tekjutryggingar almannatrygginga.“

Hér er um að ræða, eftir því sem ég hef bestu upplýsingar um frá hv. þm. Geir Gunnarssyni sem á sæti í tryggingaráði, ellilífeyrisþega : 6000 einstaklinga og 1100 hjón og örorkulífeyrisþega: 2800 einstaklinga og 150 hjón. Ég sem sagt legg þessa tillögu hér fram sem skriflega brtt. við frv. nú við 2. umr. Við sjáum hver örlög þessi till. hlýtur, en við munum gera okkar ráðstafanir við 3. umr. einnig ef hún nær ekki fram að ganga.