17.12.1975
Efri deild: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

121. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Það hefur komið fram hér í umr. að menn hafa gjarnan áhyggjur og vorkenna mér að þurfa að vera meðmæltur slíku frv. sem þessu. Einhvern veginn læðist nú sá grunur að mér að verulegur hluti a. m. k. af ræðum sumra hv. stjórnarandstæðinga hafi orðið til í þeirra huga áður en þeir sáu lausnina. Það er nefnilega búið að ganga út frá því í blöðum og öðrum fjölmiðlum á Íslandi nú undanfarið að rýra ætti almannatryggingar um 2000 millj. kr. og kæmi þannig fram að það ætti að rýra kjör þeirra sem þeirra nytu. Svo kemur allt í einu hér inn frv. þar sem þessu er ekki svo farið. Ég held að þetta sé kannske afleiðing af því að þeir hafi verið búnir að hafa miklar áhyggjur af þessu. En reyndin er nú ekki sú. Ég skal svo viðurkenna það, og ég býst við að flestir eða allir alþm. séu þar á sama báti, að það er aldrei neitt sérstaklega skemmtilegt að þurfa að samþykkja álögur á fólk. Ég á ekki von á því að hv. núverandi stjórnarandstæðingum hafi verið sérstök gleði í huga þegar þeir voru að samþykkja söluskattshækkanirnar hér áður sem komu mjög við einmitt þá sjúku og fátæku. Það er svo augljóst mál að menn eru ekkert sérstaklega ánægðir yfir því. En það verður að gera fleira en gott þykir, og ég lít svo á að hér hafi fundist lausn sem ég gat sætt mig við við þær kringumstæður sem nú eru.

Ég vil ekki telja að þetta sé skref aftur á bak í almannatryggingunum, alls ekki. Skrefið hefur þá verið tekið þegar það var sett í reglugerð að það væri heimilt að breyta þessum upphæðum. Og þeim var breytt þegar í tíð fyrrv. stjórnar og þessi hækkun núna er ekki í neinu samræmi við kostnaðarauka.

Varðandi það, að hér hefur verið minnst á að það væri ósanngjarnt að taka tekjuskatt af 67 ára mönnum og eldri eða eitthvað að rýra tekjur þeirra sem ynnu eftir 67 ára aldur, þá vil ég ekki segja mikið um það að öðru leyti en því, að sé tekjumarkið nógu hátt, þá tel ég ekki að ástæða sé til að gera mikið úr því. En varðandi þá tekjurýrnun sem þeir, sem verst eru settir, verða fyrir við þessar aðgerðir, þá vil ég líka geta þess,að ég veit ekki betur en að það standi til að auka frá því, sem nú er í fjárlögum, niðurgreiðslur um 700 millj. kr. Eru það fyrst og fremst niðurgreiðslur á matvælum, og ég held að það komi fyrst og fremst vel við þá sem verst eru settir. Ég veit ekki betur en að það standi líka til að lækka tolla, en að þeir tollar, sem komi í staðinn, séu siður á nauðsynjum.

Ég mun hafa sagt áðan að það mætti draga úr lyfjanotkun án skaða, og ég stend við það. Ég skal svo viðurkenna að læknar eru ekki á einu máli um slíkt, en þó að við kannske fellum okkur ekki við skoðanir Björns L. Jónssonar eða þeirra aðila, þá er þetta nokkuð lítið umdeilt mál, held ég, og það þarf ekki að tala um misnotkun lækna beinlínis eða þeir láti undan kveinstöfum, en þetta er nú staðreynd, ekkert frekar á Íslandi en í öðrum löndum og kannske sums staðar verra. En þessu má svo ekki rugla saman við það, að viss lyf eru lífsnauðsynleg. Og þá ég vil koma að því, að stórir hópar, sem þurfa að nota lífsnauðsynleg lyf, fá þau alveg ókeypis og enn fremur að þessir hópar verða alltaf fleiri og fleiri. Það er einmitt í aths. við þetta frv. getið um það, að það er hægt að fá ókeypis lyf ef fólk þarf að nota lyf að staðaldri, þannig að ég held að það sé gert of mikið úr þeim örðugleikum sem þetta kunni að valda, fyrir utan það að sjálfsögðu að þetta kemur verst við þá sem erfiðast eiga. En þá er líka til í okkar almannatryggingalögum heimild til þess að veita þeim uppbætur á sína tekjutryggingu sem við sérstaklega erfiðar kringumstæður búa, þannig að ýmsar leiðir eru til að bæta úr þessu fyrir þá sem verst eru settir. En ég vil ekki gjarnan láta af þeirri skoðun minni, að ég held að við í þessu landi notum of mikið af lyfjum, hverjum sem það er að kenna eða hvort það er nokkrum að kenna, það vil ég ekki segja neitt um. Ég held að það mundi ekki skaða neinn þó að eitthvað væri úr því dregið ef það væri gert á réttum stað og réttum tíma.

Á sama hátt er það, að ég held nú e. t. v. að einkum úti á landi sýni það sig að hægt er að njóta góðrar læknisþjónustu þó að fólk fari ekki eins oft til sérfræðinga og fólkið hérna í Reykjavik, sem jafnvel verður að gera það vegna þess að það býr við ófullkomna heimilislæknaþjónustu. Ég lít svo á að þetta geti hvort tveggja stuðlað að því að gera árangur góðan af þessari aðgerð, og enn fremur hef ég trú á því að samkv. heimild í tryggingalögum, þar sem sjúkrasamlögum er heimilt að greiða sérstakar aukagreiðslur ef sérstaklega stendur á, þá eigi það ekki að þurfa að koma illa við þá sem verst eru settir.

En ég vil endurtaka það, að eins og útlitið er núna, þá lít ég þannig á að þessi leið sé ekki slæm og að aukin þátttaka sveitarfélaga sé einnig spor í rétta átt, því að það er rétt, sem hér kom fram áðan, að ég held, að það gæti verið til athugunar í þeirri endurskoðun, sem nú á að fara fram, að þátttaka þeirra og stjórnun í sjúkrahúsamálum verði meiri en nú er, því að höfuðkostnaður sjúkratrygginganna er við sjúkrahúsin. Þau eru með 8129 millj. af þessum 11 600 millj. sem sjúkratryggingarnar kosta, og af þessum 8129 millj. eru um 3600 millj. á fjórum stærstu sjúkrahúsunum í landinu, þ. e. a. s. Borgarspítalanum, Landsspítalanum, Landakoti og Akureyri, og þar er líka höfuðkostnaðurinn þar sem þetta eru fullkomnustu sjúkrahúsin. Þau eru með um 20% af þeim 1413 þús. legudögum sem verða í landinu árið 1976, en þau eru með um 40% af kostnaðinum þannig að það er ekki að ófyrirsynju þó að kollega minn, hv. þm. Sverrir Bergmann, segði að það væri ástæða til þess að leita betri skipulagningar og á þann hátt stuðla að sparnaði án þess að komi niður á þjónustunni.