17.12.1976
Efri deild: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

119. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 3, minni hl. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Ég ræddi þetta mál nokkuð við 1. umr. og lagði þá áherslu á að hér væri um tvenns konar tollalækkanir að ræða, annars vegar væri um að ræða tollalækkanir sem byggðust á samningum okkar við EFTA og Efnahagsbandalagið, en hins vegar um tollalækkanir sem miðuðu að því, að gera innflutt hráefni, vélar og rekstrarvörur til iðnaðarins ódýrari. Ég vil enn leggja á það áherslu að sömu rök gilda ekki um þessar tvær tegundir tollalækkana, og meðan segja má að tollalækkanir á hráefnum, vélum og rekstrarvörum til innlendrar iðnaðarframleiðslu séu brýn nauðsyn eru hinar lækkanirnar, sem byggjast á aðild okkar að EFTA og EBE, hæpin skylda.

Eins og menn vita er fríverslunarhugmyndin byggð á þeim grundvallarröksemdum, að með því að fella niður tollmúra, brjóta niður tollmúra, þá sé drepinn sá iðnaður í hverju landi sem ekki eigi neina framtíð fyrir sér, geti aldrei orðið samkeppnisfær og eigi því ekki rétt á sér til frambúðar í því skyni að opna dyr fyrir útflutningsframleiðslu viðkomandi ríkis, efla hana, stækka markað fyrir hana þannig að hún fái að njóta sín. Þessi hugsun er í sjálfu sér mjög skynsamleg og rökrétt og byggist á því sjónarmiði að eðlileg verkaskipting milli þjóða leiði af sér lægra vöruverð almennt og aukna framleiðslu hverrar þjóðar fyrir sig.

Þegar Alþ. afgreiddi samninginn um aðild Íslands að Fríverslunarbandalaginn var það mál flutt af Sjálfstfl. og Alþfl., sem greiddu atkv. með því að sá samningur yrði gerður, en Alþb. greiddi atkv. á móti og var andvígt gerð þessa samnings. Framsfl. var hins vegar eitthvað tvíbentur í afstöðu sinni, a. m. k. sat hann hjá við atkvgr. um málið, en mun hafa verið í málflutningi andvígur aðild Íslands að bandalaginu a. m. k. að svo stöddu.

Afstaða Alþb. til þessa máls á sínum tíma byggðist í fyrsta lagi á því, að við óttuðumst með réttu að aðild Íslands að Fríverslunarbandalaginn kynni að verða innganga landsins inn í forsal Efnahagsbandalagsins. Á þeim tíma var ríkjandi hin mesta óvissa um framtíð EFTA og full ástæða til að óttast að aðild að EFTA og þróun, sem af henni leiddi, mundi gera okkur torveldara að standa utan Efnahagsbandalagsins. En einnig héldum við því fram, við Alþb.menn, og það var önnur okkar aðalröksemd, að innlendur iðnaður væri alls ekki undir það búinn að mæta þeirri hörðu samkeppni sem hann ætti í vændum frá erlendum samkeppnisaðilum ef tollar væru lækkaðir á vörum frá fjölmennum voldugum iðnaðarríkjum.

Þegar síðan kom upp sú spurning, hvort Ísland ætti að gera hliðstæðan samning við Efnahagsbandalag Evrópu um gagnkvæmar tollalækkanir, þá stóð Alþb. ekki gegn því að slíkur samningur væri gerður. Ástæðan fyrir því, að Alþb. hafði nokkuð breytta afstöðu hvað snertir samninga við Efnahagsbandalagið, var sú, að við töldum að úr því að búið væri að opna dyr fyrir erlendri samkeppni frá fjölmennum voldugum iðnaðarríkjum, þá breytti litlu hvað snerti samkeppnisaðstöðu íslensks iðnaðar þó að þar bættust önnur ríki í hópinn, þó að þar bættist við innflutningur frá fleiri ríkjum, iðnaðurinn yrði í svipaðri aðstöðu og áður, hann stæði í samkeppni við volduga erlenda framleiðendur og breytti þar ekki öllu hvort þeir væru fleiri eða færri. Hins vegar væru allmiklir möguleikar fyrir íslenskan útflutningsiðnað að vinna markað í Efnahagsbandalagsríkjum og því væri ekki rökrétt að halda fast við það að gera ekki tollasamning við Efnahagsbandalagið úr því að búið væri að gera samning við EFTA, þar sem ljóst væri að útflutningsmarkaðurinn fyrir okkar útflutningsiðnað yrði við það talsvert miklu stærri, möguleikarnir meiri ef slíkur samningur yrði gerður. Það var sem sagt okkar afstaða að annaðhvort væri fyrir íslendinga að vera aðilar að EFTA og Efnahagsbandalaginu eða að hvorugu bandalaginn og þar væri mjög óskynsamlegt að velja aðeins annað bandalagið.

Þegar samningurinn um aðild Íslands að EFTA var gerður voru iðnrekendur harla bjartsýnir á það að aðild okkar að EFTA mundi koma lítt við innlendan iðnað, og þeir voru því mjög meðmæltir að íslendingar gerðust aðilar að Fríverslunarbandalaginu, næstum því án undantekninga. En eftir því sem aðlögunartíminn hefur styst og nær hefur dregið því marki að allir tollar frá EFTA-löndum yrðu felldir niður hafa iðnrekendur orðið órólegri, og nú á seinni árum hafa þeir borið fram bein tilmæli um það að aðild okkar að Fríverslunarþandalaginn yrði tekin til endurskoðunar með það fyrir augum að aðlögunartíminn yrði verulega framlengdur. Slík tilmæli komu beint fram frá Félagi ísl. iðnrekenda haustið 1974, og þessi tilmæli hafa síðan verið endurtekin hvað eftir annað og nú seinast hinn 28. okt. s. l. í sérstöku bréfi formanns Félags ísl. iðnrekenda til viðskrn. Bréf þetta er prentað sem fylgiskjal með nál. mínu og þarf ég því ekki að rekja það nánar, en þar er sem sagt minnt á margítrekaðar óskir iðnrekenda um framlengingu aðlögunartímans þar sem í ljós hafi komið, eins og þar segir, að grundvöllur nauðsynlegrar uppbyggingar á aðlögunartímanum hafi ekki verið fyrir hendi. Þórhallur Ásgeirsson ráðuneytisstjóri viðskrn. svaraði þessu bréfi iðnrekenda strax daginn eftir, hinn 29. okt., með bréfi til Davíðs Schevings Thorsteinssonar formanns Félags ísl. iðnrekenda. Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa þetta bréf ráðuneytisstjórans í heild sinni, en það athyglisverðasta, sem þar kemur fram, er sú skoðun ráðuneytisstjórans að það sé, eins og hann segir orðrétt, „hægt að fá samþykki a. m. k. EFTA fyrir því að framlengja aðlögunartíma fyrir ákveðnar vörutegundir ef sýnt er fram á það með skýrum rökum og upplýsingum að tollalækkanir hefðu valdið miklum samdrætti, atvinnuleysi eða gjaldþroti í viðkomandi iðngrein sem við teldum æskilegt að vernda“. Sem sagt hér gerir ráðuneytisstjóri viðskrn. hreinlega ráð fyrir því að aðild Íslands að EFTA muni hafa í för með sér hugsanlega þessar afleiðingar: verulegan samdrátt, atvinnuleysi eða gjaldþrot í stórum stíl og hann er náðasamlegast reiðubúinn að taka til athugunar hvort ekki sé rétt að framlengja aðlögunartímann þegar þessar hrikalegu afleiðingar eru komnar í ljós. Hann segir berum orðum: Ef sýnt er fram á með skýrum rökum og upplýsingum að tollalækkanir hefðu valdið þessum afleiðingum sem ég var nú að lýsa.

Það er því ekki að undra þó að formaður Félags ísl. iðnrekenda komist svo að orði í svarbréfi sínu hinn 5. nóv. til ráðuneytisstjórans, að réttara sé að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í, réttara sé að sækja um framlengingu áður en það sé orðið of seint.

Ég tel sérstaka ástæðu til þess að vekja athygli á þessu bréfi formanns Félags ísl. iðnrekenda því að í því koma fram ýmsar mjög athyglisverðar upplýsingar. Í bréfinu kemur m. a. fram að útflutningur til EFTA og Efnahagsbandalagsins, og er þá ál ekki meðtalið, — útflutningur til þessara ríkja hefur aukist um aðeins 577 millj. kr. milli áranna 1974 og 1975, en innflutningur frá þessum sömu ríkjum hefur aftur á móti aukist um 6000 millj. rúmar eða um 12 sinnum hærri upphæð. Hann bendir einnig á að hlutdeild þess innflutnings, sem fær þessa sérstöku tollmeðferð í samræmi við samninginn um EFTA og Efnahagsbandalagið, — að hlutdeild þess innflutnings í almennum vöruinnflutningi hafi vaxið úr 14.5% 1974 í 20.5% 1975. Hér er um stórfellda aukningu að ræða Efnahagsbandalags- og EFTA-löndum í hag. En á sama tíma eykst ekki hlutdeild útflutningsiðnaðarvara til þessara landa um meira en 0.3% eða úr 3% í 3.3%. Og formaður Félags ísl. iðnrekenda segir: „Tel ég þessar tölur sýna betur en mörg orð hvert stefnir og að markmið aðildar að EFTA og samnings við Efnahagsbandalag Evrópu, sem var að byggja upp iðnað á Íslandi, hefur ekki náðst. Virðast iðnfyrirtæki annarra aðildarríkja EFTA og Efnahagsbandalags Evrópu á hinn bóginn hafa hagnast vel á EFTA-aðild Íslands og samningi þess við Efnahagshandalagíð.“

Ég þarf ekki að hafa mörg frekari orð um þennan vanda. Hér staðfestir formaður Félags ísl. iðnrekenda það sem við Alþb.-menn vöruðum við fyrir 8 árum. Innflutningurinn hefur stóraukist og er um það bil að ganga af dauðum margvíslegum innlendum iðnaði sem ekki þolir þessa skefjalausu samkeppni, enda ekki haft aðstöðu til þess að byggja sig upp sem skyldi til að vera búinn undir aukna samkeppni, en á sama tíma virðist útflutningur til þessara ríkja sáralítið aukast og a. m. k. ekki í þeim mæli að það réttlæti þann niðurskurð á innlendum iðnaði sem bersýnilega á sér stað vegna hinnar skefjalausu erlendu samkeppni.

Í samræmi við það, sem ég hef hér sagt, og í samræmi við þær ábendingar, sem fram hafa komið frá Félagi ísl. iðnrekenda, er það skoðun mín, eins og ég lýsti hér við 1. umr. málsins, að frekari tollalækkanir á vörum frá ríkjum EFTA og EBE séu alls ekki tímabærar og þurfi að skoðast betur í ljósi þeirra vandamála sem steðja að íslenskum iðnaði. Ég hef því gert það að till. minni á þskj. 210 að það frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ. með svofelldri breytingu:

„Aftan við frv. bætist svofellt ákvæði til bráðabirgða:

Lækkanir á tollum, sem stafa af aðild Íslands að EFTA og EBE, koma ekki til framkvæmda að svo stöddu. Ríkisstj. skal leita eftir því, að aðlögunartími íslensks iðnaðar gagnvart samkeppni frá EFTA- og EBE-löndum verði framlengdur, og leggja nýtt frv. til tollalaga fyrir Alþ., þegar fengin er niðurstaða af þeirri umleitan. Áðrar lækkanir á tollum, m. a. á rekstrarnauðsynjum og fjárfestingarvörum íslensks iðnaðar, koma þegar til framkvæmda.“

Ég lýk nál. með þessum orðum: „Jafnframt áskil ég mér rétt til að fylgja eða flytja brtt. við frv.“

Í þessu sambandi er rétt að víkja að orðum hv. frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn., Halldórs Ásgrímssonar, en hann sagði í ræðu sinni hér áðan að tollalækkanir vegna aðildar Íslands að EFTA og EBE kæmu til framkvæmda, hvort sem frv. yrði samþykkt eða ekki, og virtist telja að með þessu væri því slegið föstu að ekkert þýddi um þetta að ræða frekar. Ég er ekki að andmæla þessum orðum hv. þm., þetta er alveg rétt. Tollalækkanirnar geta komið til framkvæmda hvort sem frv. verður samþ. eða ekki. En til þess að þær komi til framkvæmda verður ríkisstj. að taka um það formlega ákvörðun og hún verður að auglýsa það sérstaklega. Það er því ljóst að verði það ákvæði til bráðabirgða, sem hér er gerð till. um, samþ., þá mun ríkisstj. að sjálfsögðu ekki gefa út neina slíka auglýsingu og tollalækkanirnar koma því ekki til framkvæmda ef það verður samþykkt.

Í öðru lagi hefur það heyrst að ákvörðun af þessu tagi væri alvarlegt brot á gerðum milliríkjasamningum og þar sem íslendingum væri það mikil nauðsyn að standa við alla þá samninga sem þeir hefðu gert, þá væri slíkur möguleiki ekki til. Ég vil nú í fyrsta lagi vekja athygli á því, að það er alls ekkert brot á samningum okkar við EFTA-löndin og EBE-löndin þótt leitað sé eftir framlengingu, og áreiðanlega telst það ekki teljandi brot að beðið sé með að framkvæma tollalækkunina þar til svar við þeirri málaleitan hefur fengist, því að engum getur verið hagur í því að við séum að lækka tolla á vörum frá þessum ríkjum í fáeina daga til þess svo að hækka þá kannske aftur. En í öðru lagi vil ég benda á það, að mörg fordæmi eru fyrir því að aðildarríki EFTA hafi lagt á nýja tolla ellegar ekki fylgt þessum samningum út í ystu æsar ef það hefur verið talin brýn nauðsyn fyrir viðkomandi ríki, sem sagt þegar sérstaklega hefur staðið á. Ég er því sannfærður um að enginn embættismaður hjá EFTA muni kippa sér upp við það þótt hann og þeir fái skeyti nú um áramótin með tilkynningu um að íslendingar muni fresta tollalækkunum sínum á vörum frá EFTA-ríkjunum um sinn meðan þessi mál séu til athugunar og meðan gengið sé úr skugga um það hvaða áhrif þessar tollalækkanir raunverulega hafi á afkomu og stöðu íslensks iðnaðar. Það er víst engin hætta á því að EFTA-löndin teldu sig fara á hausinn þó að slík ákvörðun væri tekin af okkar hálfu.

Hvað Efnahagsbandalagslöndin snertir, þá er auðvitað sérstök ástæða til að minna á það, að við lækkuðum tolla á innfluttum vörum frá þessum ríkjum hinn 1. jan. 1974 í samræmi við samning sem gerður var í árslok 1973, en aftur á móti lækkuðu þeir ekki tolla á vörum frá Íslandi fyrr en á miðju ári 1976, þ. e. a. s. um það bil 21/2 ári síðar en við lækkuðum okkar tolla. (Gripið fram í.) Hvað sagði ráðh? (Gripið fram í; Á sjávarafurðum.) Á sjávarafurðum, alveg rétt. En það er einmitt langsamlega mikilvægasta útflutningsgrein okkar íslendinga og skiptir okkur mestu máli. Það liðu sem sagt 21/2 ár frá því að við lækkuðum okkar tolla og þar til þeir lækkuðu tolla á sjávarafurðum frá okkur, og ég tel víst að embættismenn Efnahagsbandalagsins teldu sanngjarnt að taka tillit til þessa þegar rætt yrði um framlengdan aðlögunartíma.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv. Eins og ég gat um áðan áskildi ég mér rétt til þess að styðja eða flytja brtt., og ég vil strax taka það fram að ég styð þær brtt., sem fram hafa komið frá 1. minni hl. n., og einnig þær brtt., sem hv. þm. Albert Guðmundsson hefur lagt fram. Það er nú svo með þetta blessaða tollafrv. og tollalögin, að í þeim er ýmiss konar ósamræmi sem er þess eðlis að útilokað er fyrir venjulega þingmenn að elta ólar við þess háttar atriði. Ég er sannfærður um það, að þau atriði, sem bent er á í þessum brtt., horfa öll til bóta. En vissulega mætti finna margt í þessum lögum sem er í æpandi ósamræmi við tollaprósentur annars staðar í frv. Við rákum augun í það hér áðan nokkrir þm., að tollur á borðhnífum er 80%, en aftur á móti er tollur á höggsverðum og byssustingjum 60%. Þannig mætti sannarlega nefna mörg dæmi. Stórskotaliðsvopn eru með 60% tolli, en fjárbyssurnar aðeins með 20% tolli, og þannig mætti lengi telja, en það skal ekki gert hér.

Á það er bent í bréfi, sem n. hefur borist frá Félagi ísl. iðnrekenda, að trjávöruiðnaðurinn og fataiðnaðurinn beri enn toll á aðalhráefnum sínum og að ýmsar framleiðsluvörur verði að greiða hærri toll af hráefni til sinnar framleiðslu heldur en greiddur er af fullunnum sams konar vörum, og eru þar t. d. húsahlutar nefndir sem dæmi. Við meðferð málsins í n. hefur þetta að nokkru leyti verið leiðrétt og er það að sjálfsögðu til mikilla bóta. Þannig hefur tollur á ýmsum tegundum spónaplatna og masonítplatna verið lækkaður í samræmi við þessar ábendingar, en hins vegar hefur furan og ýmsar aðrar vörur verið skildar eftir í sama tolli og áður. Þó er í frv. sérstök heimild til niðurfellingar í þvílíkum tilvíkum, og er ekki annað að gera heldur en treysta því að sú heimild verði notuð á sanngjarnan hátt. Í till. 1. minni hl. er gert ráð fyrir því að sett verði reglugerð um framkvæmd þessa niðurfellingarákvæðis. Ég hefði að vísu kosið að þessi gr. hefði verið orðuð á annan hátt og að skýrt hefði verið tekið fram, að þetta niðurfellingarákvæði skyldi notað í samræmi við fyrir fram settar fastar reglur sem leiddu það af sér að tollur af slíkum vörum væri aldrei greiddur, ljóst væri fyrir fram að hann þyrfti ekki að greiða og hann væri því fyrir fram felldur niður. Ég óttast það og ég undirstrika að ef framkvæmdin verður slæleg á þessu ákvæði, þá geti hér orðið um að ræða geðþóttaákvarðanir embættismanna fjmrn., og geðþóttaákvarðanir, stundum illa rökstuddar, eru mjög óskemmtilegt fyrirbrigði. Ég er hræddur um að í fjmrn. geti slíkt gerst sem annars staðar og hafi gerst enda þótt ég ætli ekki hér að tina til dæmi. En ég tek nú þannig til orða eins og ég gerði vegna þess að við meðferð málsins í n. gerðu fulltrúar Félags ísl. iðnrekenda einmitt tilraun til þess að sanna þá fullyrðingu sína að sumar ákvarðanir embættismanna fjmrn. hefðu verið órökstuddar geðþóttaákvarðanir, og þeir létu okkur í té skrifleg gögn um þau mál. Ég tel hins vegar, að ekki sé ástæða til að elta ólar við liðna tíð í þessum efnum og vænti þess eindregið að framkvæmdin verði með þeim hætti sem ég hef hér lýst, að fjmrn. setji fastar reglur sem mönnum sé fyrir fram ljóst hverjar eru og að þeir þurfi ekki eftir á að sækja um tollalækkanir í slíkum tilvíkum og eiga það á hættu að niðurstaðan geti verið þessi eða hin, eftir því hvað embættismönnum fjmrn. sýnist hverju sinni.

Ég vil að lokum taka það fram, að ég mæli með samþykkt þessa frv. að því tilskildu að ákvæði til bráðabirgða nái einnig samþykki. En verði sú till. felld mun ég sitja hjá við afgreiðslu málsins. Með því vil ég undirstrika það, að ég tel að helmingurinn af þessum tollalækkunum sé ekki tímabær, meðan aftur á móti í frv. er einnig allmikið af lækkunum tolla sem eiga fyllsta rétt á sér og ég er fyllilega samþykkur.