20.10.1976
Neðri deild: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Það fer ekki á milli mála að ríkisstj. hefur lýst þeirri skoðun sinni að landhelgin var færð út í 200 mílur með það fyrir augum að íslendingar nýttu landhelgi sína einir og fyrir sína fiskimenn og fyrir sitt þjóðarbú. Það hefur ekki farið á milli mála. Sú skoðun og sú stefna er vafalaust óbreytt hjá ríkisstj. Ég hygg að það sé litill eða enginn skoðanamunur á milli mín og hv. síðasta ræðumanns í þessum efnum. En það er vafalaust ágreiningur um það hvaða hátt við eigum að hafa á. Ég tel að ríkisstj. eigi að eiga viðræður við Breta eða Efnahagsbandalagið um gagnkvæman rétt. Við höfum lýst því yfir, að við blöndum ekki saman tollamálum og fiskveiðiheimildum. Það er skýr og afdráttarlaus stefna. Og það var einmitt það sem ýmsir þm. héldu fram, að það ætti að blanda þessu saman og þess vegna hefði framkvæmd bókunar nr. 6 ekki nema takmarkað gildi fyrir okkur íslendinga, því að þjóðir Efnahagsbandalagsins yrðu fljótar að blanda þessum tveimur málum saman.

Ég skal ekkert um það fullyrða, hvort það verður ofan á í Efnahagsbandalaginu að þessum óskyldu málum verði aldrei blandað saman eða ekki. En stefna okkar er sú, að við erum ekki til viðræðna um fiskveiðilandhelgi og tollamál í sömu andránni. Það er hrein, skýlaus stefna íslensku ríkisstj.

Það er hárrétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að við höfum gert samning við útlendinga um takmarkaðar veiðar til takmarkaðs tíma. Samningurinn við Breta rennur út 1. des. Hann kveður á um viðurkenningu Breta á því að Ísland eigi einhliða rétt að hagnýta sér 200 mílna fiskveiðilandhelgi, og það er langstærsti sigurinn sem þessi litla þjóð hefur unnið á breska heimsveldinu. Hins vegar lýstum við því yfir, að við værum reiðubúnir til viðræðna og hlusta á það sem Efnahagsbandalagið eða Bretar hefðu fram að færa, ef ekki næst samkomulag á milli ríkja Efnahagsbandalagsins um gagnkvæm fiskveiðiréttindi. Þar er ég ósammála hv. síðasta ræðumanni, að við eigum fyrir fram að lýsa því yfir að við viljum alls ekki við þessar þjóðir ræða. Ég vil hlusta á þær fyrir mitt leyti og ég vona að ríkisstj. öll geti tekið undir það. Ég hef aldrei heyrt annað en að við séum reiðubúnir að ræða við þessa aðila um gagnkvæm fiskveiðiréttindi, og ég held að ég megi einnig segja það fyrir hönd allrar ríkisstj., að ríkisstj. er staðráðin í því að gera aðeins samninga ef hún telur að það sé heppilegt og hagstætt frá hendi okkar íslendinga sjálfra, en ekki frá hendi annarra þjóða sem við er rætt.

Ég held líka að það væri mjög óskynsamlegt, eins og málin standa, að lýsa því yfir að við ætlum að segja upp öðrum samningum núna með 6 mánaða fyrirvara. Við höfum ekki gefið nokkurri þjóð ádrátt um framhald samninga, og ég trúi því ekki að það verði gert. Vestur-Þjóðverjar hafa samning til nóvemberloka. Þar er um óverulegan þorskafla að ræða, kominn fyrir rúmum mánuði lítið eitt á þriðja þús. tonn. Þorskafli belga og norðmanna er nú svo takmarkaður að ég efast um að hann nái yfir árið meira en 400 tonnum. Þorskafli færeyinga er sá stærsti og mesti fyrir utan bretana.

Í sambandi við samskipti við aðrar þjóðir er mikið atriði, hvernig þau samskipti ber að, hvort það er sagt að við viljum ekkert við þær tala eða hvort það er sagt að við viljum tala við þær á ákveðnum grundvelli, en við séum harðir og ákveðnir í okkar fyrirtækjunum.

Ég tel að við stöndum frammi fyrir mjög miklu vandamáli, sem er: Hver verður staða Grænlands? Kemur Efnahagsbandalagið á einhvern takmarkaðan hátt til þess að hafa þar íhlutun eða verða danir þar einir ráðandi, tæplega verða það á næstu mánuðum grænlendingar einir. Þangað höfum við íslendingar sótt oft og tíðum æðimikinn afla. Ég vil sérstaklega vekja athygli þingheims á því, að með loðnuveiðunum úti fyrir Vestfjörðum og út af Norðurlandi, sem gerðar voru tilraunir með í fyrra, sem báru mjög lítinn árangur, og aftur voru gerðar tilraunir í sumar, sem báru mjög mikinn og góðan árangur, þar kom í ljós að nokkra daga voru þessar veiðar stundaðar Grænlandsmegin miðlínu á milli Grænlands og Íslands, og ef Grænland hefði verið búið að færa út sína landhelgi; þá hefðum við ekki getað stundað þessar veiðar. Við skulum einnig gera því á fæturna að þetta geti endurtekið sig, við skulum segja næsta sumar, verði loðnan það langt undan landi. Ef búið verður að færa út í 200 mílur, höfum við þá ekki komið okkur í mjög óþægilega stöðu ef við ætlum að segja að við ætlum við enga að tala og enga að semja? Þetta eru hlutir sem við verðum að fara gætilega í. Við verðum því að haga okkur á þann veg, að við sleppum ekki frá okkur neinu tækifæri, en erum þrátt fyrir það staðráðin í því að halda fast á þeirri stefnu sem við mörkuðum þegar ákvörðun var tekin um að færa fiskveiðilandhelgina út í 200 mílur. Fyrst á s.l. ári og þó alveg sérstaklega á þessu ári minnkar verulega hlutdeild útlendinga í fiskaflanum sem tekinn er innan 200 mílna fiskveiðilandhelgi.

Þegar á allt er lítið, þá er í raun og veru ekki ágreiningur á milli mín og hv. 2. þm. Austurl. um að þetta sé rétt stefna og að þessu eigum við að vinna, heldur virðist ágreiningurinn fólginn í því, hvernig eigi að koma fram, hvort það eigi að svara þjóðum og fulltrúum annarra þjóða á þann veg, að við viljum hlusta á það sem þær hafa að bjóða okkur, eða hvort við eigum að segja við alla: Við ætlum ekki að tala við nokkra þjóð eða nokkurn mann um neitt sem lýtur að fiskveiðimálum. — Samstarf á sviði hafréttarmála er það viðtækt og nauðsynlegt að hafa góð samskipti, einkum við nágrannaþjóðir okkar, að við eigum þar engu tækifæri að sleppa. Við skulum einnig hafa það ríkt í huga, að Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna er ekki enn þá lokið, þó að við teljum að okkar málstaður standi þar nokkuð traustum fótum. Flestir okkar bjuggust við því að niðurstaða Hafréttarráðstefnunnar mundi liggja fyrir nú á þessu hausti, en svo er ekki, því miður, eins og allir vita.