17.12.1976
Efri deild: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

128. mál, Bjargráðasjóður

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Haustið 1975 fól ég stjórn Bjargráðasjóðs að endurskoða gildandi lög um sjóðinn. Var þá tvennt haft í huga: annars vegar að tillit skyldi tekið til hinna nýju laga um Viðlagatryggingu Íslands frá því í maí 1975, en hins vegar hvernig hægt væri að tryggja sjóðnum meira starfsfé til að standa undir þeim skyldum sem á honum hvíla.

Niðurstaðan af þessari endurskoðun hefur orðið það frv. sem hér liggur fyrir. Aðalbreytingar frá gildandi lögum eru þessar: Framlög sveitarfélaga nema nú 50 kr. fyrir hvern íbúa sveitarfélags. Hér er lagt til að sú upphæð verði hækkuð í 150 kr., en þetta framlag hefur verið óbreytt í krónutölu frá ársbyrjun 1970. Í öðru lagi er lagt til að framlag búvöruframleiðenda hækki úr 0.25% samkv. gildandi lögum í 0.35% af söluvörum landbúnaðarins. Þar er því um 40% hækkun að ræða. Mótframlög koma úr ríkissjóði á móti þessum liðum báðum.

Í grg. frv. er skýrt frá verkefnum Bjargráðasjóðs og þeim margvíslegu vandamálum sem þar eru á ferð, einkum hin gífurlegu tjón sem hlotist hafa af völdum óþurrkanna í sumar. Er því ljóst að sjóðurinn þarf miklu meira fé en áður til umráða.

Þetta frv. hefur legið fyrir hv. Nd. og hefur verið afgreitt þar shlj. Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.