20.10.1976
Neðri deild: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Pétur Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í mál þeirra núv. hæstv. ráðh. og fyrrv. sjútvrh. í sambandi við samninga við önnur ríki um nýtingu okkar landhelgi og reyndar annarra þá um leið, enda máske frekar talið að það ætti heima í væntanlegum umr. um mál nr. 28, um samninginn sem gerður var við breta. Það má hins vegar segja sem svo, að það geti líka átt heima undir því máli sem við erum að ræða nú. En það var ekki það sem ég vildi koma á framfæri í þessum fáu orðum mínum að þessu sinni, þótt ég hins vegar geti ekki annað en bent á þá staðreynd, að þrátt fyrir góðan vilja og stórhug manna af öllum flokkum hefur okkur samt sem áður tekist hvað best þegar við höfum tekið fyrir kannske smærri hlutinn og unnið fast að honum og staðið hart að honum.

Persónulega hefði ég álitið að nú á þessu hausti hefðum við getað komist hvað lengst ef við hefðum getað örugglega tryggt okkur meðal allra þjóða, — og þá er það að sjálfsögðu með hliðsjón af því að ekki er enn þá lokið Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og niðurstaða liggur ekki fyrir frá henni enn þá, — ef við hefðum getað fengið skilyrðislausa tryggingu fyrir 50 mílna einkalögsögu. Þá á ég að sjálfsögðu við að þá verði ekki um aðra að ræða en íslendinga innan 50 mílnanna og utan þeirra gætum við komist það langt, að við gætum þá um leið, svo sem við að sjálfsögðu höfum skilyrðislausan rétt til, verið með alfriðuð svæði fyrir annarra þjóða skipum og reyndar okkar líka, sem ég tel mikla nauðsyn á víðs vegar kringum landið.

Eitt vil ég taka undir með hv. 2. þm. Austurl., og það er um ástand okkar fiskstofna. Ég tel það ekki jafnsvart og svarta skýrslan hefur talið, og það er ýmislegt sem bendir til þess og þó sérstaklega upplýsingar okkar fiskimanna og sú veiði sem hefur borist að landi víðs vegar í kringum landið. Auk þess hefur verið mikið gert að því að létta á okkar þorskstofni. Það er enginn vafi á því að bæði sumarloðnan, sem hefur gefið okkur hundruð millj. í þjóðarbúið í tekjum, kolmunnaveiðin þótt það vanti töluvert á að sú veiði geti orðið okkur að fullu gagni, og spærlingsveiðin, allt eru þetta hlutir sem við eigum eftir að njóta góðs af, og þær tilraunir, sem gerðar hafa verið á yfirstandandi ári, eru þess eðlis að við megum vænta góðs af. Þá má einnig benda og ekki síst á rækjuveiðarnar á djúpmiðum sem æ fleiri eru nú að ganga til að stunda. Sjálfur hef ég líka trú á því, að þegar alfriðaður hefur verið um nokkur ár hinn svokallaði grálúðustofn, sem mikið hefur verið sótt í af einmitt erlendum togurum, þá eigum við þar mikil verðmæti sem við getum nýtt jafnt öðrum okkar fiskstofnum.

En aðalerindi mitt hingað í ræðustól nú er að benda á og ræða um einn fiskstofn sem ég tel algjörlega vannýttan og þá vannýttan sérstaklega vegna hjátrúar og öfgafullra hleypidómamanna sem telja að það sé vá fyrir dyrum ef flatfiskur sé veiddur á grunnmiðum. Á ég þar að sjálfsögðu við skarkolann og undarlega afgreiðslu á till. einmitt okkar færustu manna, sem sumir vilja trúa á þegar það bentar þeirra skoðunum, en fyrirlíta og henda til hliðar ef það passar ekki þeirra trú, og svo er t.d. um skarkolaveiðina í Faxaflóa. Það liggur nú fyrir að á vegum Hafrannsóknastofnunar ríkisins hafa verið gerðar tilraunaveiðar í sumar skv. till. fiskifræðinganna með möskvastærðina 170 mm. Ég hef ekki hjá mér núna þær skýrslur sem borist hafa um þessar veiðar, en þá viku, sem ég hafði síðast fregnir af, og ég tek fram að þessar veiðar eru stundaðar á bönnuðu svæði fyrir slíkar veiðar, þá kom í ljós að sá eini bátur, sem var á vegum stofnunarinnar, hafði veitt 24 tonn af hinum ágætasta flatfiski, fengið 15 þorska og 6 eða 7 ýsur á sama tíma. Nú vill svo skemmtilega til að þessi tala, 15, mun vera sú sama og fjöldi þeirra þm. í Ed. sem ekki vildu hafa ákvæði og till. fiskifræðinganna í þessu frv. þegar það var samþ. hér á s.l. vori. Ég gerði það þá ekki að miklu átakaefni að fylgja þessu eftir, vegna þess að ég taldi meira um vert að frv. næði fram að ganga, en benti samt sem áður á að þarna væri um stórt og þýðingarmikið atriði að ræða þegar okkar fiskifræðingar telja að úr þessum stofni megi nýta a.m.k. 10 þús. tonn á ári hverju, en við nýtum aðeins 2—3 þús. tonn. Þetta er dýrmæt vara þegar hún er komin á erlendan markað, ég tala ekki um þegar búið er að vinna hana hér heima í okkar fiskvinnsluverum.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu á þessu stigi, við 1. umr. Að sjálfsögðu hef ég möguleika á því að fylgja því eftir í sjútvn. sem ég mun gera. Ég tel að rétt verði fyrir okkur að ganga lengra í nýtingu þessa dýrmæta stofns heldur en við höfum gert og það sé fáránlegt þegar við höfum okkar færustu vísindamenn, sem við trúum á annan hátt á og á öðrum sviðum. ef við getum ekki leyft okkur að trúa þeim þegar þeir benda okkur svart á hvítu á það sem ég hef nú getið um. Við 2. umr. málsins, þegar þessar brtt. koma aftur til umr., sem í sjálfu sér er ekki um annað en allir geta staðið að, þá munu sjálfsagt koma fleiri brtt. og þar á meðal um þetta mál sem ég tel eðlilegt að gert verði, og þá munu liggja fyrir frekari upplýsingar frá Hafrannsóknastofnuninni um þetta.