20.10.1976
Neðri deild: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Ég veitti því athygli að hæstv. sjútvrh. sagði í sínu máli að hann teldi sig í rauninni vera sammála mér um meginatriðið í því sem ég ræddi hér um, þ.e.a.s. um þá stefnu að við ættum einir að nýta fiskimiðin í okkar fiskveiðilandhelgi, að því bæri að stefna. En hann taldi hins vegar að það væri nokkur skoðanaágreiningur okkar á milli um það, hvernig við stæðum að því að ná þessu marki, m.a. í sambandi við viðræður við útlendinga. Og hann sagði, að hann teldi að það væri óhyggilegt að neita því að ræða við fulltrúa annarra þjóða, og setti málið upp, eins og stundum hefur verið gert áður, að krafa mín væri þá sú að ég vildi sýna útlendingunum ókurteisi og segja þeim að við hefðum ekkert við þá að tala, þeir gætu bara farið. Þetta er útúrsnúningur úr mínu máli. Þetta var ekki það sem ég sagði né meinti. Ég lagði á það áherslu að við segðum hreinlega útlendingunum og öllum sem hlut eiga að máli hvað við meintum í málinu. Hitt er svo annað mál, hvort útlendingarnir, þegar þeir hafa heyrt að við séum ekki til viðtals um það að semja um frekari veiðiréttindi þeim til handa, — hvort þeir vilja þá samt sem áður eiga við okkur viðtöl. Slík viðtöl er vitanlega hægt að eiga við þessa menn til að gera þeim þetta enn þá ljósara. En við eigum að marka þessa afstöðu okkar ótvírætt. Spurningin er hvort við eigum að gera það eða ekki.

Ég tók eftir að hæstv. sjútvrh. sagði að ríkisstj. hefði lýst því yfir, — því hafði ég ekki veitt athygli áður, — að hún hefði lýst því yfir, mér skildist við samningagerðina í Osló, að við vildum eiga viðræður við breta um samninga á agnkvæmum grundvelli, miðað við það að samið væri um gagnkvæman rétt. Þetta, eins og ég sagði, tel ég mjög óheppilegt að ræða um og ég tala nú ekki um hafi þetta verið sagt eða þessu verið lofað við samningagerðina í Osló. Þá hljóta menn að vera við því búnir að ræða það hver sé sá gagnkvæmi réttur sem menn hugsa sér að fara til þess að ræða um. Hver er þessi gagnkvæmi réttur? Hæstv. sjútvrh. sagðist vilja benda mönnum sérstaklega á það, að það hefði komið fram á loðnuveiðunum nú síðsumars og í haust, að íslensk skip hefðu þurft að leita inn fyrir 200 mílna mörkin við Grænland, hefðu þar sem sagt verið komin einhver slík mörk. Jú, það má vel vera að þetta hafi átt sér stað. En dettur nokkrum lifandi manni í hug og dettur hæstv. sjútvrh. í hug að við förum að veita bretum veiðirétt í okkar fiskveiðilandhelgi eftir 1. des., jafnvel þó að einhverjir aðrir vildu lofa okkur því að við mættum skríða yfir línuna í einhverju úrtakstilfelli í sambandi við loðnuveiðar þarna á mörkunum á milli Íslands og Grænlands, sem er alveg eins líklegt að aldrei komi til mála? Dettur nokkrum manni þetta í hug? Auðvitað er fjarstæða að tala um þetta sem einhvern gagnkvæman rétt. Hér er auðvitað um óverulegt atriði að ræða, sem er mjög ósennilegt satt að segja að komi til, og hæstv. ráðh. hefði að mínum dómi getað tekið önnur atriði sem voru þó veigameri heldur en þetta. En þau eru líka í mínum augum svo óveruleg að það nær engri átt að ætla að fara að ræða við breta um einhver gagnkvæm réttindi varðandi slíkt. Það er rétt, að það eru til fiskimið hér á milli Íslands og Grænlands sem liggja þannig að okkar skip hafa veitt þar í rauninni sitt hvorum megin við miðlínu sem þar yrði ákveðin. M.a. eru þar karfamið, nokkuð þekkt, sem mundu skiptast á milli landanna, Grænlands og Íslands. En þarna er líka um aðstöðu til veiða að ræða sem er svo óveruleg í sambandi við það, sem hér er verið að ræða um, þ.e.a.s. að veita bretum veiðiheimildir innan okkar fiskveiðilandhelgi, að það er vitanlega enginn grundvöllur til þess að vera að tala um það á þessu stigi málsins, að þetta veiti rétt til þess að hleypa bretunum aftur inn fyrir hjá okkur.

Ég álít því, eins og ég sagði, að þessi hugsanlegi gagnkvæmisréttur geti snert síldveiðarnar í Norðursjó og svo þá gagnvart Danmörku minni háttar útanga í sambandi við okkar veiðisvæði varðandi Grænland, eins og við höfum gert nú um langan tíma. Það er rétt, fyrir allmörgum árum sendum við verulegan veiðiflota á hin eiginlegu Grænlandsmið og komum þaðan með mikinn afla. Það mundi engum manni detta í hug að senda íslensk veiðiskip þangað núna, miðað við þær aðstæður sem þar eru, engum manni detta í hug, þó að við hefðum rétt til þess, eins og við höfum í rauninni haft.

Ég held því að þetta þurfi að verða alveg skýrt, hvort ríkisstj. telur að það geti verið um að ræða í þeirri stöðu, sem við stöndum frammi fyrir nú, einhvern gagnkvæmisrétt sem vert sé að setjast niður til að þinga um. Ég tel að þessi gagnkvæmisréttur sé ekki fyrir hendi og af því eigi að segja bretum og Efnahagsbandalagsmönnum þetta fyrir fram, alveg skýrt og ótvírætt. En það þýðir ekki að við ætlum að sýna þeim neina ókurteisi og neita að tala við þá, heldur fyrst og fremst að gera okkar stefnu alveg skýra og ótvíræða.

Ég óttast það, að ef ríkisstj. fer að skipa samninganefnd til viðræðna við fulltrúa Efnahagsbandalagsins eða fulltrúa breta um einhverja gagnkvæmissamninga í þessum efnum, þá verðum við flæktir inn í það sem getur verið erfitt að komast út úr, og við eigum ekki að gera það. Og nú vil ég einnig í þessu efni nota tækifærið og spyrja: Hver er afstaða hins stjórnarflokksins í þessum efnum, Framsfl.? Ég tel, að hæstv. sjútvrh. hafi talað fyrir Sjálfstfl., að hann vill taka upp samninga um hugsanlegan gagnkvæmisrétt í þessari stöðu, og bendir m.a. á hugsanlegar loðnuveiðar, en hver er afstaða Framsfl.? Vill hann ganga til samningaviðræðna við fulltrúa Efnahagsbandalagsins eða fulltrúa breta um það að samið verði um gagnkvæman veiðirétt okkar á milli eins og sakir standa nú, eða telur hann að þessir aðilar hafi okkur ekkert það að bjóða varðandi fiskveiðar sem geti komið til mála að geta réttlætt veiðiheimildir þeim til handa? Ég er ekki að spyrja um það, hvort Framsfl. vilji fallast á að tala við fulltrúa þessara þjóða. Það er allt annað mál. Ég get vel samþ. það að tala við þá, ef við höfum bara mótað okkar afstöðu og sagt alveg skýrt til um hver hún sé, hvernig við metum þessa hluti.

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að þetta liggi skýrt fyrir, hver er afstaða manna í þessum efnum. Ég álít líka að það sé alveg rangt, sem mér fannst satt að segja að lægi hér nokkuð í orðum hæstv. sjútvrh., að samningar þeir, sem við hefðum við ýmsar þjóðir um veiðiréttindi, væru svo óverulegir, að það tæki því varla að tala um þá og væri jafnvel betra að hafa þá ekki. Samningurinn við vestur-þjóðverja er hreint ekki óverulegur. Hann hefur mjög mikil áhrif á veiðisóknina, sérstaklega í vissar tegundir, eins og bæði karfa og ufsa. Það munar mjög verulega um þeirra sókn og væri því nauðsynlegt að það lægi fyrir að við losuðum okkur við þann samning eins fljótt og unnt er. Ég álít líka að af hreinum „prinsip“-ástæðum eigum við að losa okkur við samningana við aðrar þjóðir um veiðiheimildir hér, af því að við þurfum að undirstrika það að við höfum ekki af neinu að láta í þessum efnum, við þurfum á þessu að halda sjálfir, og það styrkir okkar málstað, eins og nú er komið, ekki á neinn hátt að vera að gera einhverja smásamninga við aðrar þjóðir. Við erum komnir út af því stigi að nokkuð slíkt geti aðstoðað okkur. Nú eigum við að reyna að hafa þetta sem hreinast, að við getum ekki hleypt þeim inn fyrir, við viljum ekki hafa þá hér á okkar veiðislóðum, við þurfum á þessu að halda sjálfir.

Ég tók eftir því að hæstv. sjútvrh. undirstrikaði það, að það væri þó skýlaus stefna ríkisstj. í þessum málum að hún vildi ekki blanda saman á neinn hátt viðræðum um tollamál og um fiskveiðiréttindi. Jú, þetta er út af fyrir sig ágætt. Þetta er skýrt. Ég hafði ekki vikið að þessum þætti því ég tel að hann liggi nokkuð skýrt fyrir. Það er ekki hægt að ræða um þessi mál, og allra síst eins og þau liggja núna fyrir, á þessum grundvelli. hví er eingöngu hinn hlutinn eftir, sem snýr að því að við leyfum bretum eða öðrum úr Efnahagsbandalaginu einhvern veiðirétt í okkar fiskveiðilandbelgi gegn því að þeir veiti okkur einhvern veiðirétt hjá sér. En ég tel að staðan nú sé sú, að þeir geti ekkert okkur boðið í þessum efnum sem við viljum kaupa fyrir okkar fiskimið.

Ég fyrir mitt leyti fagna þeirri afstöðu sem kom fram hjá hv. 3. þm. Austurl., Sverri Hermannssyni. Hann er greinilega á sömu skoðun og ég, að við eigum að taka af allan vafa í þessum efnum, það sé ekki um neitt að semja og þeir þurfi því að gera sér grein fyrir því, að þeir verða að víkja burt héðan um leið og samningarnir renna út.

Ég ætla ekki við þessa umr. að víkja að því sem hv. 8. þm. Reykv. sagði. Mér er það ljóst að ýmislegt af því, sem hann sagði, var rétt og athyglisvert. Það er enginn vafi á því, að við eigum hér fiskstofn við landið sem er vannýttur og mikið til ónýttur af ýmsum ástæðum. En það er líka rétt, sem hér hefur verið sagt, að það er ekkert hlaupið að því að koma saman þeim reglum sem menn geta fallist á svo hægt væri að nýta þann fiskstofn.

Ég endurtek svo aðeins það sem ég hef sagt áður, að ég tel mjög æskilegt að ríkisstj. gerði skýrari grein en hingað til fyrir afstöðu okkar í þessum efnum, svo að það lægi skýrt fyrir, bæði gagnvart íslensku þjóðinni og einnig gagnvart þeim sem leita á okkur með samninga, því mér finnst þetta tal allt um gagnkvæmissamninga vera hættulegt.