18.12.1976
Sameinað þing: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

112. mál, landhelgismál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Í umr. um þessa till. hafa ýmsir aðilar innan þings og utan haldið því fram að till. sé stefnt gegn öllum viðræðum við aðrar þjóðir. Um þetta stendur ekkert í till. og ég vil mótmæla þessum vísvitandi rangfærslum, og hvað Alþfl. snertir get ég minnt á það, að hann hefur ávallt verið fylgjandi því að ræða við þá sem við okkur vildu ræða. Efni till. er að fá fram yfirlýsingu gegn nýjum veiðiheimildum. Það er kjarninn.

Nú gerðist það í útvarpsumr. um málið að hv. 4. þm. Reykv., sem er formaður þingflokks Framsfl., skýrði frá því að í þeim flokki hefði verið rætt um, hvað gera skyldi ef boð bærust um að gera samninga um nýjar veiðiheimildir. Hann sagði, að þegar rætt hafi verið í þingflokki Framsfl. um hvernig bregðast skyldi við ef slíkar till. um bráðabirgðasamkomulag kæmu fram, þá hafi slík málaleitan, ef til kæmi, engar undirtektir fengið.

Með þessari yfirlýsingu er tilgangi þáltill. að töluverðu leyti náð. Eftir þessa yfirlýsingu formanns þingflokks Framsfl. liggur það fyrir opinberlega að 4 af 5 flokkum Alþ. eru andvígir öllum nýjum samningum um veiðiheimildir og þessir flokkar hafa sterkan meiri hl. þingmanna á bak við sig. Þetta er mjög mikilvægt. Og við heyrum það í fréttum frá Brüssel að embættismenn þar hafa skilið hver viðbrögð eru hér heima við hugmyndum þeirra. Ég vona að hinn stjórnarflokkurinn hafi einnig skilið hvernig landið liggur.

Till. um að vísa þessari þáltill. til ríkisstj. er algjörlega órökstudd. Það er að sjálfsögðu fráleitt að senda stjórninni mál af þessu tagi, þó að það sé þinglega mögulegt. Augljóslega er þessi afgreiðsla, og sérstaklega að hún skuli vera órökstudd af hálfu stjórnarflokkanna, til þess eins gerð að dylja ágreining þeirra í milli í málinu. Ég vil því eins og frsm. minni hl. benda á það, að samkvæmt yfirlýstum skoðunum meiri hl. Alþ. sæmir ekki önnur afgreiðsla en að samþykkja þessa till.