18.12.1976
Sameinað þing: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

131. mál, afurðalán

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir þáltill. um afurðalán. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því að Seðlabankinn hækki afurðalán sín úr 55% í 85%. Þeirri kvöð verði jafnframt létt af viðskiptabönkunum að lána 28% ofan á afurðalánin. Sama regla verði látin gilda um rekstrarlánin og afurðalánin, að Seðlahankinn endurkaupi þau.“

Greinargerð: „Með þeirri skipan, sem hér er lagt til, er ríkisbönkunum og útibúum þeirra gert jafnt undir höfði. Þeim er og veitt eðlileg samkeppnisaðstaða við aðra banka eða sparisjóði.

Svæðalegt misrétti, sem stafar af núverandi kerfi, er með öllu óþolandi. Þeir hlutar landsins, er hafa hagstæðasta hlutfallið í þjónustugreinum, búa við besta möguleika bankakerfisins til frjálsrar lánastarfsemi. Á mestu framleiðslusvæðunum verður ástandið verst.

Mismunun innan þeirra svæða er jafnframt ósanngjörn og getur haft byggðaleg áhrif. Tökum dæmi: Á Ísafirði eru tvö útibú ríkisbanka er annast afurðalán fyrir flesta staði á Vestfjörðum. Ofan á afurðalánin, sem fást úr Seðlabankanum, verða útibúin að lána 28%. Þar sem á Vestfjörðum er mikil framleiðsla skerðir þessi kvöð lánsgetu útibúanna til uppbyggingar á Ísafirði og á sinn þátt í erfiðleikum staðarins varðandi uppbyggingu á þjónustustarfsemi og almenna byggingu. Þeir staðir, sem hafa sparisjóði eða útibú sem ekki þarf að sinna afurðalánum, eru miklu betur settir.

Seðlabankinn hefur fjármagnað afurðalánin með bindiskyldu. Ljóst er að sú prósenta yrði að hækka. Það kemur ólíkt betur út en það kerfi sem nú er í gildi og hlýtur að leiða af sér harkalega mótleiki verði því ekki breytt.

Ríkisbankarnir virðast veita útibúum sínum ákaflega misjafnar heimildir til að skulda aðalbönkum.

Ég vil hér taka sýnishorn eftir kjördæmum af stöðunni hjá útibúum Útvegsbankans og Landsbankans um áramótin 1965 og 1972: Skuld útibúanna við aðalbankann: Áramót 1965: Vestfirðir 181 millj. kr., Austfirðir 295 millj. kr. 1972: Vestfirðir 179 millj. kr., Austfirðir 547 millj. kr.

Þess má geta, að árið 1972 nam skuld Landsbankaútibúsins á Akureyri 511 millj. kr. Vegna hinnar miklu gjaldeyrisöflunar þessara svæða og 28% reglunnar er ekki ósennilegt að útibúin skuldi aðalbönkunum.

Hér er aftur á móti ekkert samræmi á milli svæða. Það má bæta því við að á Vestfjörðum fækkar fólki, en fjölgar á Austfjörðum. Á bankapólitíkin þátt í því.“

Í því, sem hér er sagt, eru tvö aðalatriði. Það er annars vegar lagt til að afurðalánin verði fjármögnuð að fullu úr Seðlabankanum, í annan stað að þau hækki úr 70% í 85% sem skylda, en ekki sem geðþóttaákvarðanir. Það vita allir, sem nálægt þeim málum hafa komið, og hinir geta kynnt sér það, að í reynd er óraunhæft að tala um að afurðalánin séu lægri en 85%. Það er óraunhæft. Aftur á móti er það svo, að þróun íslenskra bankamála mun í náinni framtíð þó nokkuð mótast af því, hvort hér verður stefnubreyting eða ekki. Í dag sitjum við uppi með ríkisbanka, sparisjóði og hlutafjárbanka. Hver og einn, sem skoðar það mál ofan í kjölinn, hlýtur að gera sér grein fyrir því að 28% kvöðin, sem ríkisbankarnir sitja uppi með sem lánsfjárkvöð ofan á afurðalánin sem þeir fá úr Seðlabankanum, þessi kvöð á 11% vöxtum, eins og Landsbankinn og Útvegsbankinn framkvæma þetta, dregur að sjálfsögðu svo mjög úr frjálsri lánastarfsemi útibúa þessara banka, þar sem þeir eru í miklum framleiðsluhéruðum úti á landi, að þeir hafa enga samkeppnisaðstöðu við vel rekinn sparisjóð. Þeir staðir, sem á undanförnum árum hafa afhent sparisjóði sína til ríkisbankanna og sitja nú í dag uppi með þessar kvaðir, þeir eru velflestir mjög óánægðir með að hafa gert þetta.

Ég tók hér dæmi um Ísafjörð og ég geri það ekki af neinni tilviljun. Það er staðreynd, að þar hefur verið mjög mikil stöðnun í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, svo mikil stöðnun að verð á íbúðarhúsnæði þar á frjálsum markaði nálgast það mjög að vera hliðstætt og í Reykjavík, þrátt fyrir það að gatnakerfi og margt fleira er þar ekki í neinu samræmi við það sem hér er, fyrir utan það að hér er inni í verði á íbúðarhúsnæði, eins og allir vita, það kyndingarfyrirkomulag sem hér er, hitaveitan. Nú er það svo, að í nágrannasveitarfélögunum eru sparisjóðir, og ég vil halda því fram að á þeim stöðum, þar sem þeir eru, og einnig á suðursvæðinu, þar sem eru útibú sem ekki sitja uppi með þessa kvöð, eigi einstaklingar miklu auðveldara með að fá lánsfyrirgreiðslu til að fara út í það að byggja sér íbúðarhúsnæði, og allir vita að einstaklingar verða að hafa sæmilega möguleika á lánsfyrirgreiðslu þegar þeir fara út í það að byggja sér íbúðarhúsnæði.

Ég held að hvort sem menn ræða lengur eða skemur um það, hvort þeir vilji breyta þessu kerfi eins og það er núna, þá liggi hitt alveg ljóst fyrir, að sérhver, sem hugsar það til botns, gerir sér grein fyrir þeirri þróun sem það mun hafa í för með sér. Þróunin hlýtur að verða sú, að ef hlutafjárbönkunum er jafnvel stjórnað og ríkisbönkunum, þá verði þeir sterkari, vegna þess að þeir hafa betri taflstöðu, eins og kerfið setur leikreglurnar upp. Og ég á eftir að sjá nú á næstu árum hvort það gerist að nokkur sparisjóður afhendi ótilneyddur völd sín yfir til bankaútibúa. Ég á eftir að sjá að það gerist í náinni framtíð.

Hitt atriðið, sem ég ætla nú að ræða hér betur, en drap á lauslega áðan, það er hækkunin úr 70% í 86%. Ég held að það sé ekki óeðlilegt að menn hugleiði það, miðað við það vaxtakerfi, sem er í landinu, og þær reglur, sem bankarnir fara eftir varðandi yfirdrátt og fleira, hvort þeir telji t. d. að venjuleg loðnuverksmiðja komist af með 70% afurðalán. Ég vil halda því fram að þeir, sem líta svo á að hún komist af með 70% afurðalán, telji að gróðinn af starfseminni sé ekkert smáræði. Það hlýtur að vera eðlilegra að allir sitji við sama borð í þessari lánsfyrirgreiðslu, fái það, sem menn telji að sé nauðsynlegt til þess að starfrækslan geti átt sér stað, og að það dragi sem mest úr því stjórnarfyrirkomulagi fyrirtækja á Íslandi, að forstjórarnir hafi biðstofu bankastjóranna sem sinn annan aðalvinnustað eða þeir liggi þá yfir þeim í gegnum síma til þess að slást um hvað þeir fái miklu meira en þessi 70%.

Mér er ljóst að hér er hreyft við stóru máli, en ég vona að grg., sem fylgir hér með, sannfæri menn um hvers vegna ég geri það.