18.12.1976
Sameinað þing: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

Umræður utan dagskrár

Guðlaugur Gíslason:

Ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta um að vera stuttorður, þó að vissulega sé hér um að ræða mál sem full þörf er á að mínum dómi fyrir Alþ. að ræða við miklu betri aðstæður en nú eru, þegar við erum að ljúka hér störfum fyrir jólafrí.

Ég tek undir það sem fram kom í ræðu hv. 9. landsk. þm., sem hóf hér þessar umr. utan dagskrár varðandi till. Seðlabankans um ráðstöfun á því fé sem hann hefur haft með að gera að innheimta í sambandi við þjóðhátíðarárið. tel þessa ráðstöfun fyrir neðan allar hellur, eins og sagt er, að Seðlabankinn skuli kalla saman blaðamannafund og tilkynna allri þjóðinni hvernig hann leggi til að þessu fé sé ráðstafað. Það er rétt að hann hefur tillögurétt þarna, en ég tel að hann eigi að gæta sóma síns og gera till. sínar til réttra aðila, þ. e. stjórnvalda, og láta síðan stjórnvöld flytja málið inn í Alþ. sem endanlega á að ákveða hvernig fénu verður ráðstafað. Það, sem hér hefur gerst, er aðeins eitt lítið brot og lítið dæmi af því í hvaða aðstöðu Alþ. er komið gagnvart þessari stofnun.

Ég tel að með þeim ýmsu ráðstöfunum, sem Seðlabankinn hefur gert, sé komið að því að Alþ. verði í fullri alvöru að fara að endurskoða það umboð sem það hefur afhent Seðlabankanum í sambandi við peningamál og fjármál og kannske setja einhver höft á það umboð sem áður hefur verið gefið. Það liggur alveg ljóst fyrir, eins og reyndar kom hér fram í sambandi við bað mál sem hér var rætt á undan að í sambandi við vaxtaákvarðanir Seðlabankans er stefnt í þá átt hreinlega að annað tveggja hlýtur að verða að gerast, að Seðlabankinn verður þar gjörsamlega að breyta um stefnu eða aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, sjávarútvegur, lendir í greiðsluþrotum. Það var allt rétt sem kom fram í ræðu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar varðandi þessi mál. En málið er bara miklu stærra en kom fram í ræðu hans. Þeir tveir bankar, sem annast hafa fyrirgreiðslu fyrir sjávarútveginn og eru skyldaðir til að lána vissan hluta af því fjármagni sem með þarf til að halda framleiðslu gangandi, þ. e. afurðalánin, þeir eru komnir í þá aðstöðu í dag að samkv. þeirri kvöð, sem lögð hefur verið á þá, þurfa þeir að lána þetta fé með 11% vöxtum. En Seðlabankanum þurfa þeir að borga 36% vexti ef þeir komast í þá aðstöðu sem þeir eru í dag, hefur verið og mun verða í vaxandi mæli. Þá þurfa þeir að borga 36% af þessu fé sem þeir lána út með 11% vöxtum. Ef við segjum að annaðhvort Útvegsbankinn eða Landsbankinn sé í 1000 millj. kr, yfirdrætti hjá Seðlabankanum vegna þessara lána, og er ekkert tekið of djúpt þar í árinni, þá þarf hann að borga á ári 360 millj. kr. í vexti. Hann getur innheimt af fiskiðnaðinum og útgerðinni 110 millj. kr. Viðkomandi stofnun verður þá að taka á sig 250 millj. kr. í vaxtamismun á þessum eina útlánaþætti í lánakerfinu. Það liggur alveg ljóst fyrir að jafnvel Landsbankinn, sem er gamalgróin bankastofnun, elsta bankastofnun landsins, sem er með mjög sterka aðstöðu á bak við sig í sínum sjóðum, sem hann auðvitað hefur byggt sér upp á undanförnum árum, — ekki einu sinni hann þolir þetta til langframa, hvað þá Útvegsbankinn, sem hefur miklu minni sjóði á bak við sig. Hvorug þessara stofnana þolir að taka á sig þá kvöð sem Seðlabankinn er með því valdi, sem Alþ. hefur veitt honum, að setja á þessar stofnanir, og þetta hlýtur að stefna að því einu, að þær gefast upp á að afgreiða þessi lán. Þess vegna tel ég að till. sú, sem hér var rædd áðan, sé alveg rétt.

Ég skal ekki tefja Alþ. lengur vegna þeirrar aðstöðu sem við erum í vegna afgreiðslu mála sem verður að afgreiða fyrir jól. En þetta mál hlýtur að koma til kasta Alþ. og þarna hlýtur að verða á stefnubreyting ef ekki á verr að fara en efni standa til.